Fara í efni
Fréttir

Eitt tæknivæddasta apótek landsins

Arna Ársælsdóttir lyfjafræðingur í Akureyrarapóteki á Norðurtorgi og Gauti Einarsson, einn eigenda Akureyrarapóteks. Róbotinn – sjálfvirki lyfjalagerinn – er vel sýnilegur að baki þeim. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarapótek var opnað í verslunarkjarnanum Norðurtorgi í morgun. Þar er að finna merkilega nýjung; róbot sem tekur til lyf og flytur fram í afgreiðslu á fáeinum sekúndum. Aðeins einn sjálfvirkur lyfjalager (eins og fyrirbærið kallast formlega) hefur verið í notkun á Íslandi, í Lyfjaveri í Reykjavík. 

„Þetta er eitt tæknivæddasta apótek landsins,“ segir Gauti Einarsson, lyfjafræðingur og einn eigenda Akureyrarapóteks við Akureyri.net. Hann segir í raun um byltingu að ræða. „Afgreiðsla lyfja verður bæði betri og öruggari með tilkomu róbotsins og þetta bætir líka aðgengi viðskiptavina að lyfjafræðingnum. Nú er hann frammi við afgreiðslu en ekki bundinn í vinnu á bak við.“

Róbotinn nýi að störfum í Akureyrarapóteki á Norðurtorgi.

Eldsnöggur

Blaðamaður sannreyndi að róbotinn er eldsnöggur að vinna. Gauti sló inn í tölvuskjá við afgreiðsluborðið hvaða lyf róbotinn ætti að sækja og aðeins liðu örfáar sekúndur þar til umbeðinn lyfjapakki var kominn fram í afgreiðslu; um leið og Gauti sneri sér við, eftir að hafa slegið upplýsingarnar í tölvuna, gat hann teygt sig í pakkann.

Róbotinn er sýnilegur viðskiptavinum á Norðurtorgi, sem hinn er ekki. „Það má í raun segja að þetta sé nýjung hér á landi því uppstillingin í Lyfjaveri er önnur. Þar er róbotinn ekki sýnilegur eins og hér og kemur ekki með lyfin beint fram í afgreiðslu. Við hvetjum fólk til að koma og kíkja á þetta hjá okkur; ég er viss um að mörgum finnst það forvitnilegt. Róbotar eru hér og þar í vöruhúsum en ekki sýnilegir eins og hér,“ segir Gauti.

Áfram í Kaupangi

Lyfjafræðingarnir Gauti og Jónína Freydís Jóhannesdóttir stofnuðu Akureyrarapótek árið 2010. Starfsemin hefur frá upphafi verið í Kaupangi og verður óbreytt þar, nýja apótekið á Norðurtorgi er hrein viðbót.

Aðeins eitt apótek hefur áður verið starfrækt í Glerárhverfi; Sunnuapótek, sem var í eigu KEA, var rekið í verslunarkjarnanum Sunnuhlíð frá 10. apríl 1997 þar til 1. september árið 1999. Aldarfjórðungur er því síðan Akureyringum búsettum norðan Glerár hefur staðið til boða að skipta við apótek í sínum bæjarhluta.

Róbotinn í Akureyrarapóteki á Norðurtorgi tekur til lyf hratt og fumlaust.

Akureyrarapótek er á jarðhæð nýja hússins norðan aðalbyggingar Norðurtorgs.