Fara í efni
Umræðan

Sykurhúðuð samfélagsábyrgð og störukeppni ríkis og seðlabanka

Ætlum við að horfa uppá samfélagið okkar liðast í sundur eða grípa til raunhæfra aðgerða?
Ástandið í samfélaginu okkar er orðið algerlega óviðunandi þar sem heimili og venjuleg fyrirtæki eiga í vaxandi vanda við að ná endum saman. Vaxtastigið eitt og sér mun leiða til þess að fjöldi heimila og fyrirtækja lendir í verulegum vandræðum eða fer í þrot vegna vaxandi kostnaðar við húsnæði og fjármögnun rekstrar. Heimilin eiga ekkert svar og fyrirtækin eiga á endanum enga leið aðra til að komast af en að velta sí auknum kostnaði útí verðlagið og viðhalda þannig verðbólgunni sem svo endanlega gerir útaf við heimilin.

En hvað erum við að gera til að laga ástandið?
Nánast ekkert sem raunverulega vinnur gegn verðbólgu og bætir þannig ástandið. Við erum í einhverjum óljósum leðjuslag milli ríkisins og seðlabankans þar sem hvor kennir hinum um. Ríkið þenur út sína starfsemi og bankinn hækkar ítrekað stýrivexti til að krefja ríkið um aðgerðir meðan ríkið skammast í bankanum fyrir að ná ekki árangri í að sefa verðbólguna.

Vaxtahækkanir Seðlabankans eru löngu komnar yfir öll skynsemismörk og farnar að vinna gegn lækkun verðbólgu og verða heldur ekki rökstuddarstuddar með hagrænum eða viðskiptalegum rökum. Þeim er eðli málsins ætlað að draga úr þenslu og fjárfestingum í samfélaginu og virka að sjálfsögðu sem slíkar á nýframkvæmdir og draga þannig úr verðbólgu. En hverjum datt í hug að stórhækkun vaxta á núverandi lán fyrirtækja og heimila gætu slegið á verðbólgu. Þær vaxtahækkanir virka einmitt þveröfugt og gera það að verkum að vaxtabyrgði fólks af húsnæði og rekstrarkostnaður fyrirtækja stórhækkar og kyndir þannig undir áframhaldandi verðbólgu. Ef menn hefðu haft eitthvert þor þá hefði málum verið hagað þannig að vaxtahækkanir næðu einungis til nýrra lánvetinga meðan verið væri að ná tökum á ástandinu. Vextir á venjulegum húsnæðislánum fólks þurftu einfaldlega ekki að hækka nema kannski lítið brot af þessum vaxtahækkunum. Þeir einu sem hagnast á þessu eru fjármálakerfið sjálft sem mjólkar spenann nú sem aldrei fyrr og stóreignafólk sem enn einusinni fær kærkomin kauptækifæri í eignum sem aðrir ráða ekki við að halda.

Bankarnir ættu að skammast sín og taka þátt í að leysa verkefnið
Til að draga úr einkaneyslu þá þarf líka að vera hægt að ávaxta sparnað ef einhver er. Hvað gera stóru bankarnir til að stuðla að því, jú láta okkur lifa við meiri vaxtamunu inn- og útlána en sögur fara af og arðsemin þeirra er um leið langt umfram það sem þarf eða eðlilegt getur talist. En hver eru viðbrögðin? Fólk er hvatt til að fara í bankann sinn og ræða stöðuna, lengja í lánum eða fresta afborgunum sem er bara frestun á vanda og gerir málið enn þyngra þegar frá líður.

Þjóðin á Landsbankann. Hvers vegna ríður hann ekki á vaðið og lækkar aftur vexti á húsnæðislánum. Bankinn þarf ekki að hagnast eins og hann gerir nú og gæti sýnt raunverulega samfélagsábyrgð svipað og t.d. fyrirtæki í landbúnaði og úrvinnslu hafa gert með því að vinna með sínu fólki og taka á sig hluta af áföllunum. Samkeppnin myndi knýja hina bankana til að fylgja á eftir. Með þessu móti myndi bankinn taka þátt í að vinna að lækkun verðbólgu þvert á það sem seðlabankastjóri telur en hann er löngu fastur í spiral vaxta og verðhækkana sem viðhalda verðbólgunni. Landsbankinn myndi líka örugglega styrkja stöðu sína sem fyrirtækis inní framtíðina.

Stórkaupmenn leika góða manninn á kostnað innlendrar matvælaframleiðslu
Á sama tíma hlustum við í fjölmiðlum á stórkaupmenn og innflutningsaðila í einokunarstöðu barma sér yfir hækkunum á innlendum matvörum meðan aðal ástæða þeirra hækkana er offjárfesting í sölu- og dreifineti þeirra sjálfra og há álagning meðan framleiðendurnir innlendu bera minna og minna úr bítum vegna stighækkandi kostnaðar á aðföngum og sligandi fjármagnskostnaðar. Ef viðlíka hagræðingarkrafa yrði sett á matvöruverslunarkeðjur í landinu og landbúnaðurinn hefur gengið í gegnum á liðnum árum er ég hræddur um að loka mætti ansi mörgum stórverslunum og nýta þær sem eftir stæðu betur og með lægri kostnaði til að ná sambærilegu kostnaðarstigi í virðiskeðjunni allri.

Á sama tíma ætlum við samt bændum og innlendri matvælaframleiðslu að tryggja fæðuöryggi okkar og með þeim hreinleka og gæðum varanna sem við framleiðum stuðla að auknu matvælaöryggi og þar með betra heilsufari þjóðarinnar. Eða var þetta bara eitthvað sem stjórnvöldum fannst bara fínt að tala um í Covid og upphafi stríðaátaka og ekkert þarf að fylgja eftir.

Sykurhúðuð samfélagsábyrgð
Í stað þess að vinna að bættu samfélagi þar sem við styrkjum okkar innlendu matvælaframleiðslu, tryggjum eðlilega skattheimtu af allri starfsemi, verjum auðlindirnar okkar fyrir gróðabröskurum, vinnum að mannsæmandi launum fyrir alla, góðu velferðar- og menntakerfi og meiri jöfnuði erum við þess í stað heltekin og upphafin af sykurhúðaðri samfélagsábyrgð stórfyrirtækja og auðmanna og einnig kaupum ríkisins á kolefniskvóta frá Slóvakíu til að laga svörtu strikin í bókhaldinu sem urðu til eftir að hafa selt hreinleikann af grænu orkunni okkar úr landi.

Hvað er raunveruleg samfélagsábyrgð?
Raunveruleg samfélagsábyrgð sem ætti að verðlauna er virðing fyrir náttúrunni, sanngirni og hófsemi í rekstri og álagningu fyrirtækja sem hafa um leið samfélagslegt gildi og taka ríkan þátt í sínu nærsamfélagi með langtímamarkmið um hófsama ávöxtun að leiðarljósi. Það er líka rík samfélagsábyrgð að greiða eðlilega skatta af öllum þáttum rekstrarins.

Þannig sýna t.d. stóru bankarnir nú litla sem enga samfélagsábyrgð jafnvel þó þeir planti trjám hér og þar eða kaupi kolefniskvóta til að friða samviskuna. Fyrirtæki sem arðræna tímabundið sitt nánasta samfélag geta seint fengið stimpil samfélagsábyrgðar að mínu mati.

Á sama tíma og þetta er allt að gerast höfum við horft uppá sölu á eignum ríkisins seldar útvöldum eins og gerðist í sölunni á Íslandsbanka og í Lindarhvolsmálinu þar sem eignir sem fólk missti í kjölfar bankahrunsins og enduðu sem stöðugleikaframlög þrotabúa bankanna hafa verið seldar á undirverði. Svo virðist líka sem ekkert af þessu eigi eða megi klára að upplýsa og vinna úr.

Vantar auðlindir? Nei
Vantar fjármuni? Nei
Vantar samstöðu og samkennd í samfélagið? Já
Vantar aukið skattaeftirlit? Já
Vantar fleiri ferðamenn? Nei

Það er nóg til af öllu hér fyrir okkar samfélag til að þrífast vel, við þurfum bara að nota auðlindirnar og fjármunina okkar rétt. Ætla samt ekki útí að svara þessum síðustu spurningu dýpra því þær er bara efni í aðra og spennandi grein einhverntíma síðar!

Hólmgeir Karlsson er framkvæmdastjóri á Akureyri og áhugamaður um bætt samfélag

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15