Fara í efni
Mannlíf

Svavar Alfreð: Það er í lagi að vera ekki í lagi

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sjúkrahúsprestur og fyrrverandi sóknarprestur í Akureyrarkirkju, messaði í kirkjunni í morgun. Hann veitti Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta prédikunina sem hann flutti.

_ _ _

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega páskahátíð, kæri söfnuður!

Megane Devine er bandarískur sálfræðingur, rithöfundur og sorgarráðgjafi. Fyrir rúmum fimmtán árum drukknaði maðurinn hennar fyrir augunum á henni. Sú hræðilega lífsreynsla gjörbreytti sýn hennar til sorgarinnar. Megane skrifaði bók um það. Hún heitir „It´s OK that you´re not OK“ – eða „Það er í lagi að vera ekki í lagi“. Í undirtitli kemur fram að bókin fjalli um hvernig eigi að mæta sorginni í menningu sem skilur ekki sorgina.

Rauði þráðurinn í bók Megane er að við eigum að líta á sorgina sem eðlilegt fyrirbæri en ekki eitthvað sem á einhvern hátt er óæskilegt. Að mati hennar er sorgin náttúruleg afleiðing ástar og eðlileg og sjálfsögð viðbrögð við missi. Megane leggur áherslu á að sorgin sé ekki vandamál sem þurfi að leysa og þaðan af síður sjúkdómur sem megi lækna með einhvers konar meðferð, áfallahjálp eða hvað þá lyfjagjöf.

Megane segir að á okkar tímum sé það ríkjandi viðhorf til sorgarinnar að hún sé ferli sem nauðsynlegt sé að klára. Talað sé um að „vinna úr sorginni“ og komast út úr henni eins fljótt og auðið sé. Takmarkið sé að verða „eðlilegur“ á ný – og losna úr því óeðlilega ástandi sem sorgin er álitin vera. Hún heldur því fram að nútíminn hafi gert sorgina að sjúklegu ástandi, jafnvel að læknisfræðilegu eða heilsufarslegu vandamáli en í raun sé sorgin þvert á móti bæði eðlileg og heilbrigð viðrögð við missi. Megane segir, að Hollywoodd hafi kennt okkur, að allar sögur þurfi að hafa „happí ending“ og allt eigi að fara vel að lokum, líka sorgin. Í slíkri draumaveröld séu helst allir jákvæðir og bjartsýnir og þar sé lítið rými fyrir sorgina.

Eitt af mínum uppáhalds páskakvæðum er eftir þýsku skáldkonuna Maríu Luise Kaschnitz, sem upplifði hrylling tveggja heimstyrjalda áður en hún dó árið 1974. Kvæðið heitir Ekki hugrökk og fjallar um upprisuna. Það er svona:

Þau hugrökku vita
að þau rísa ekki upp
að holdið sprettur ekki upp
í kringum þau
á hinum efsta degi
þau munu einskis minnast
þau hitta engan aftur


þau eiga ekkert í vændum
enga sælu
enga þjáningu

en ég er ekki hugrökk

Við þurfum ekki að vera hugrökk. Við þurfum ekki að vera óhrædd. Við þurfum ekki að vera bjartsýn, jákvæð eða hress. Við megum vera miður okkar, við megum vera í rusli, við megum vera sorgmædd og kvíðin.

Það er í lagi að vera ekki í lagi.

Og það þarf í raun bæði hugrekki og hetjuskap til að viðurkenna og horfast í augu við að maður sé hvorki hetja né hugrakkur. Þannig fólki hef ég verið svo heppinn að kynnast, m.a. í mínu núverandi starfi. Þær manneskjur hafa kennt mér óskaplega mikið með því að mæta örlögum sínum með sama hætti og María Luise Kaschnitz og Megane Devine, með því að vera ekki hugrakkar, með hreinni og einlægri sorg sinni, með því að viðurkenna kvíða sinn, áhyggjur og ótta, með því að vera vonsviknar og óhuggandi vegna þess sem kom fyrir þær og ástvini þeirra.

Við þurfum ekki alltaf að vera keik eða standa óhögguð og æðrulaus.

Okkur finnst oft að trúnni hljóti að fylgja sjálfumgleði og kokhreysti þeirrar manneskju, sem höndlað hefur sannleikann í eitt skipti fyrir öll og hefur því einskis að spyrja lengur. Okkur finnst oft að trúin eigi að gefa okkur sálarstyrk til að takast á við öll áföll af yfirvegun og aðdáunarverðum andlegum þrótti.

Hugrekki trúarinnar er þó ekki síður að finna í játningum þeirra Maríu Luise Kaschnitz og Megan Devine. Í skjóli trúarinnar getum við vissulega verið hugrökk og æðrulaus - en í því skjóli megum við líka vera hrædd, sorgmædd, kvíðin og áhyggjufull, við megum vera breisk, veik og smá.

Dr. Páll heitinn Skúlason, heimspekingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands, segir á einum stað:

„Trú í kristinni merkingu þess orðs táknar hins vegar hvorki hagsmunabundna skoðun né óhagganlega vissu um eitt eða neitt, heldur djúpstæða óvissu manna sem viðurkenna þá einföldu staðreynd að þeir séu hvorki höfundar þessa lífs né herrar jarðar."

Og Ellert B. Schram, sem lést fyrr á þessu ári, skrifaði einu sinni hugvekju þar sem hann segir styrk trúarinnar fólginn í veikleika hennar og segir:

„Hún getur ekkert sannað, hún getur engum atburðum breytt, hún getur ekkert annað en að falla á hné niður og játa sig sigraða gagnvart almættinu."

Við efumst, missum móðinn, við bregðumst og spyrjum spurninga sem engin svör virðast eiga. Og dag hvern streyma til okkar fréttir um ólýsanlega þjáningu fólks, hryllilegt ranglæti, ægilega spillingu, gegndarlausa græðgi, banvænt hungur og grimmilega misskiptingu. Við getum hvorki lokað augum né eyrum fyrir öllu þessu.

Myrkrið umvefur okkur. Ill öfl gerast ágeng við okkur. Okkur finnst nærtækt að draga þá ályktun af þessu öllu, að illskan hljóti að vera sterkari en gæskan og að dauðinn muni að lokum standa uppi sem sigurvegari í stöðugri viðureign hans við lífið.

Trúin frelsar okkur ekki frá mennskunni. Hún leysir okkur ekki frá þjáningunni. Hún styttir okkur ekki leið um dimmu dalina. Við finnum til vegna þess að við elskum. Við syrgjum ástvini vegna þess að þeir eru okkur svo óendanlega kærir. Við óttumst dauðann vegna þess að við elskum lífið.

Trúin gerir okkur enn mennskari og enn næmari og enn opnari fyrir þjáningunni, ranglætinu og sorginni.

Og þá kemur þessi sunnudagur, páskadagur. Konur fara að gröf vinar sem hefur verið líflátinn saklaus. Þær eru vonsviknar, miður sín, hræddar og sorgmæddar. Þannig hefjast allir kristnir páskar. Og það sem gerir páskana að sigurhátíð er að þá er okkur sagt, að þótt við séum hrædd og sorgmædd, þótt við séum leitandi og skorti svör, þá megum við samt trúa, trúa á lífið þótt dauðinn æði og trúa á það góða þótt illskan blási.

Trúin getur ekkert sannað, hún getur ekki breytt því sem orðið er en við megum trúa í vantrú okkar og vera stór og sterk í smæð okkar og vanmætti. Við erum ekki bara upp á okkur sjálf komin. Guð ljóssins er með okkur í myrkrinu, í þjáningunni og í öllum dölunum dimmu. Hann tekur okkur í fangið og ber okkur á örmum sér. Þar megum við öll vera eins og við erum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.