Fara í efni
Mannlíf

„Sumir eru í laxveiði, við erum að forrita!“

Bergmann Guðmundsson og Hans Rúnar Snorrason við bílskúrinn í Reynilundinum, þar sem upplýsingatæknifyrirtækið Kunnátta er til húsa. Mynd: RH

Erfitt er að finna þann anga þjóðlífsins sem ekki hefur verið snertur af upplýsingatækni og tölvumálum í dag. Í öllum krókum og kimum er tæknin að færa störf fólks og tilveru meira og meira inn í stafrænt umhverfi. Skólarnir eru svo sannarlega engin undantekning, en þar er stöðug vinna við að uppfæra og nýta tækni til skólastarfs, bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Hans Rúnar Snorrason og Bergmann Guðmundsson stofnuðu upplýsingatæknifyrirtækið Kunnáttu síðastliðið sumar, en þeir starfa einnig við upplýsingatækni hjá Hrafnagilsskóla og Bergmann sinnir tölvumálunum í Brekkuskóla og Giljaskóla. 

Kunnátta er afsprengi margra ára vinnu hjá okkur

Þeir félagar hafa sameinast í gríðarlegum áhuga sínum á tækni fyrir skólastarf, og það sem á hug þeirra allan í dag, er gervigreindin. Samhliða vinnu sinni í skólunum, hafa þeir því stofnað upplýsingatæknifyrirtækið Kunnáttu, en í anda annarra tæknifrumkvöðla, eru þeir félagarnir með starfsstöð í bílskúrnum hans Bergmanns, þar sem hlutirnir gerast. Blaðamaður Akureyri.net heimsótti þá félaga í bílskúrinn.

 

Allir alvöru tæknigúrúar hefja heimsyfirráð sín í bílskúrum. Bill Gates lagði grunninn að Windows í bílskúr. Jeff Bezos stofnaði Amazon í bílskúr. Steve Jobs og Apple. Listinn er langur, og viðeigandi að Hans og Beggi stofni Kunnáttu í bílskúr. Mynd: RH

Löng vinátta og sameiginlegur áhugi á tækni

„Við erum búnir að þekkjast mjög lengi,“ segir Hans. „Þegar við kynntumst, bjó Beggi á Sauðárkróki, en svo þegar hann flutti til Akureyrar ákváðum við að eyrnamerkja okkur tíma eftir vinnu í svokallaðan 'nördahitting'. Þá hittumst við alla fimmtudaga á Bláu könnunni og þar lögðum við í rauninni grunninn að okkar samstarfi.“

„Kunnátta er afsprengi margra ára vinnu hjá okkur,“ segir Bergmann, sem oftast er kallaður Beggi. „Við erum sérfræðingar í upplýsingatækni og höfum verið að aðstoða í grunnskólum, bæði nemendur og kennara síðustu tíu árin. Við höldum úti vefsíðum sem leiðbeina bæði kennurum og nemendum að nýta sér tæknina betur. Svo var komið að máli við okkur fyrir tveimur árum síðan, en þá vantaði Múlaþingi ráðgjöf.“ Þá færðu Hans og Beggi út kvíarnar, og tóku að sér að vera stafrænir kennsluráðgjafar í fjarsambandi. 

Við ákváðum að fullorðnast og stofna fyrirtæki utan um þetta verkefni okkar

Við byrjuðum á því að búa til umhverfið sem við þurftum, eitthvað kerfi og skipulag sem aðrir gætu svo tekið við,“ segir Beggi. „Við færum bara inn í skólann og kenndum fólki að vinna með þetta, svo kæmi verkefnastjóri í skólann og tæki við þessu.“ Þessi hugmynd gekk ekki upp, þar sem það fannst ekki neinn með þekkinguna sem til þarf, til þess að taka við starfinu. 

Margt í boði hjá Kunnáttu

Þetta verkefni unnu félagarnir utan vinnutíma í skólunum sínum. „Þetta varð eiginlega of umfangsmikið,“ segir Beggi. „Við ákváðum því að fullorðnast og stofna fyrirtæki utan um þetta verkefni okkar.“ Hans segir að síðasta sumar hafi því fyrirtækið 'Kunnátta' litið dagsins ljós. „Þegar við erum að veita ráðgjöf, fara að kenna eða veita fólki aðgang að kerfunum okkar, þá fer það allt í gegn um Kunnáttuna,“ segir hann. 

Hugmyndaauðgi félaganna í bílskúrnum í Reynilundi eru líklega ekki takmörk sett. „Við höfum líka verið að dunda okkur við að forrita,“ segir Hans. „Við erum búnir að gefa út nokkur öpp. Til dæmis fengum við styrk frá Menntamálaráðuneytinu til þess að gefa út appið Lykilorð, sem er ókeypis app til þess að efla íslenskukennslu í grunnskólum. Það er búið að sækja það 23.000 sinnum og hefur gefist vel.“

Í skólanum á daginn, bílskúrnum síðdegis

Dagvinna félaganna er alltaf í skólanum, en þeir eru spenntir að hittast í bílskúrnum eftir vinnu til þess að grúska. „Í skólunum erum við rótarar! Við sjáum til þess að allur tækjabúnaður sé í lagi,“ segir Beggi, en hann bendir á að það sé búin að vera gríðarleg bylting í tækjaeign skólanna undanfarin ár. „Í Giljaskóla eru í kring um 450 tæki, Brekkuskóli er með annað eins og Hans er með sirka 200 tæki í Hrafnagilsskóla,“ segir Beggi. „Ég kenni svo í hálfu starfi á móti upplýsingatækninni,“ segir Hans. Frá sirka 16-19 eru þeir svo í bílskúrnum að nördast saman í Kunnáttu.

Stór partur af starfi þeirra, bæði í skólunum og hjá Kunnáttu, er ráðgjöf. „Í skólanum erum við að leiðbeina kennurum og nemendum, og svo erum við búnir að búa til vefinn snjallkennsla.is. „Þar geta kennarar farið inn og lært á tæknina í rólegheitum,“ segir Beggi. „Það tók okkur heilt ár að búa til efni fyrir Snjallkennsluna áður en við settum vefinn í loftið,“ segir Hans. „Það eru yfir hundrað myndbönd þarna inni.“ Vinnan skilaði sér þó bæði í þakklæti notenda og svo fengu þeir líka íslensku menntaverðlaunin árið 2024 fyrir þessa vinnu. Viðurkenningin fína, níðþungur stuðlabergssteinn, hefur fengið heiðurssess á hillu í bílskúrnum. HÉR má lesa frétt Akureyri.net um verðlaunin.

 

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, færði Hans og Begga Íslensku menntaverðlaunin á Bessastöðum. Myndir: Mummi Lú

Þó að grunnurinn hjá félögunum sé í menntakerfinu, eru þeir búnir að búa til verkfæri núna fyrir stærri markað. Undir merkjum Kunnáttu er núna hægt að fá aðgang að vefnum Skrifstofan.net, en þar eru þeir að nýta gervigreind til þess að hjálpa fólki í atvinnulífinu að spara tíma og fá hjálp með allskyns áskoranir. „Verkefnin hafa undið upp á sig eftir því sem tækninni fleygir fram, og eftir því sem við höfum getað gert meira sjálfir,“ segir Beggi. „Gervigreindin er nýjasta áhugamálið okkar, og við höfum kafað alveg í það, hvaða möguleikar eru í boði með aðstoð hennar.“

Gervigreindin er allt í öllu

„Við erum búnir að vera vakandi og sofandi í gervigreindargrúski síðan í nóvember 2022, þegar OpenAI opnaði ChatGPT fyrir almenning,“ segir Beggi. „Við reyndum strax að búa okkur til eitthvað í kring um þetta, vegna þess að við sáum strax að til þess að fá eitthvað að viti út úr gervigreindinni, þarftu að vita hvernig þú átt að tala við hana.“ Þarna liggur lykillinn og grunnurinn að því sem Kunnátta býður upp á, en í raun eru Hansi og Beggi búnir að búa til greinagóðar skipanir fyrir hin ýmsu mál sem gætu komið upp í skólum eða á vinnustöðum. Notendur geta svo nýtt sér þetta með einföldum hætti til þess að fá niðurstöður sem geta nýst og sparað tíma.

„Við erum búnir að búa til 'miðaldra gervigreind',“ segir Beggi og hlær. „Semsagt, gervigreind fyrir fólk sem hefur ekki mikla tölvuþekkingu. Þar byrjuðum við á því að gera verkfæri sem heitir Viskubrunnur. „Hann er fyrir kennara. Þar er eitt verkfæri sem sér um að svara pósti. Eitt sér um að gefa ráð varðandi krefjandi mál og samskipti við foreldra. Eitt býr til kennsluáætlanir. Eitt sér um að búa til lesskilningsverkefni. Til dæmis, en verkfærin eru ótalmörg. Þetta hefur gengið mjög vel og þar inni erum við með tæplega 1.100 notendur. „Skrifstofan er svo í rauninni samskonar verkfærakista, nema bara fyrir almenna notkun,“ bætir Hans við.

Það er komin gervigreind sem ber heitið Claude, sem er mjög fær í íslensku, og við nýtum hann í okkar verkfærum

Hans og Beggi taka fram að það sé tryggt, að gervigreindin lærir ekki af notandanum. „Fólk var að hafa áhyggjur af því, að setja sitt kennsluefni inn í kerfið, að þá gæti það nýst öðrum án þess að höfundarréttar væri getið. Skólastarf almennt er mjög viðkvæmt fyrir þessu, þannig að við tryggjum að ekkert slíkt á sér stað. Mánaðarlega hreinsast allt út hjá okkur og við tryggjum það að gervigreindin tekur ekki það sem notendur setja inn og nýtir sér áfram,“ segir Hans.

„Skrifstofan er í rauninni fyrir alla sem eru að vinna við tölvur,“ segir Beggi. „Þar er hægt að nýta sér allskonar verkfæri sem eru hugsuð til þess að flýta fyrir og hjálpa til. Munurinn á því að nota verkfærin okkar, upp á móti því að fara beint á ChatGPT, er að við erum búnir að búa til mjög yfirgripsmiklar skipanir sem tryggja að þú færð nothæfar niðurstöður. Auðvitað þarf alltaf að hafa gagnrýnisgleraugun á samt, lesa yfir og breyta einhverju ef þú vilt.“ Í umræðunni hefur verið að gervigreind sé ekki sérstaklega góð í íslensku, en Hans segir að það sé ekki lengur þannig. „Það er komin gervigreind sem ber heitið Claude, sem er mjög fær í íslensku, og við nýtum hann í okkar verkfærum,“ segir hann.

 

Verðlaunin góðu. Steinninn er mjög þungur, en ætli það sé ekki bara í takt við það, hvers virði framlag þeirra sem fá hann er. Mynd RH 

Aðstoð við tölvupóstaflóðið og krefjandi samskipti

Beggi og Hans sýna blaðamanni dæmi um nýtingu á verkfærinu sem skrifar fyrir þig tölvupóst. Þá setja þeir inn tilboð frá einhverjum aðila, langt og efnisskipt, með valmöguleikum. Beggi skrifar í flýti, allt með litlum stöfum, að hann vilji bara nýta sér þennan hluta af tilboðinu. Eftir um það bil 30 sekúndur er gervigreindin búin að skila greinargóðum svarpósti, með kurteisri kveðju og skýru vali, ásamt þökkum fyrir gott boð og fleira. 

Þetta er ekki vinna, þetta er áhugamálið okkar

„Fólk er oft að svara mjög mikið af tölvupóstum,“ segir Beggi. „Það getur flýtt stórkostlega fyrir að láta gervigreindina svara þessu fyrir mann. Svo eru sumir að vesenast með að svara og senda tölvupósta á öðrum tungumálum, hér er hægt að fá skrifað á öllum mögulegum málum. Rökhugsun gervigreindar er mjög góð, þannig að það eru allskonar möguleikar þar, hægt að biðja um kosti og galla þess að gera eitthvað, biðja um SVÓT greiningar á hverju sem er og margt fleira. Svo erum við með verkfæri sem hjálpar þér að takast á við krefjandi samskipti og semja til dæmis tölvupósta í þannig stöðu. Það getur sparað fólki mikinn hausverk, að fá aðstoð með það.“ Þau sem hafa áhuga á starfi og tæknilausnum Kunnáttu, geta skoðað vefina eða haft samband við Hans og Begga á heimasíðunni

„Sumir eru í laxveiði, við erum að forrita,“ segir Beggi hlæjandi, aðspurður um vináttuna og kunnáttuna. „Þetta er ekki vinna, þetta er áhugamálið okkar. Við erum eiginlega bara bestu vinir og okkur finnst þetta ótrúlega gaman,“ segja félagarnir að lokum.