Fara í efni
Mannlíf

Sumarplönin: Tinder, fjallgöngur og vinafundir

Myndir: Snæfríður Ingadóttir

Júlí, aðal sumarfrísmánuður Íslendinga er genginn í garð. Akureyri.net lék forvitni á að vita hvaða áform Akureyringar hefðu fyrir sumarfríið og fór því á stúfana og heyrði í nokkrum heimamönnum.

Listmálarinn Stefán Boulter hyggur á nokkrar fjallgöngur í sumar.

Fjallgöngur á dagskrá

„Ég ætla að ganga á sem flest fjöll í sumar. Ég er ekki byrjaður þar sem snjórinn hefur verið svo lengi að fara,“ segir myndlistarmaðurinn Stefán Boulter. Stefán segist vera á fjöllum allan ársins hring. „Ég skíða niður á veturna og labba upp á sumrin. Ég gekk reyndar upp að Skólavörðunni í fyrsta sinn í vetur á snjóþrúgum, en mig langar til að ganga þangað upp líka að sumarlagi. Ég hef auðvitað oft farið upp á Vaðlaheiði en aldrei að vörðunni.” Fjöllin sem Stefán hefur augastað á í sumar eru meðal annars Uppsalahnjúkur, Súlur og Botnssúlur, allt fjöll sem hann hefur áður gengið á. En hvernig er annars sumarfríi sjálfstæðs myndlistarmanns háttað?

„Þegar maður er sinn eigin herra þá getur maður tekið sér frí nánast hvenær sem er, en það er líka hætta á því að það verði eitthvað agaleysi,” segir Stefán og hlær.

Harpa Dögg á RÚVAK stefnir á styttri ferðalög innanlands í sumar með góðum vinum.

Dagsferðir út í buskann

„Ég er búin að fara til Portúgal og fer til Spánar í september. Svo fer ég trúlega eitthvað að veiða í sumar, ég er a.m.k búin að skipuleggja eina veiði,” segir Harpa Dögg Benediktsdóttir Hjarðar, starfsmanneskja RÚV sölu- og stöðvarstjóri RÚVAK, aðspurð um áform sumarsins. Harpa er í stórum vinahóp sem er duglegur að skipuleggja styttri ferðir innanlands. Einhver kastar fram hugmynd og þeir sem vilja og geta fara með. Harpa segir að þetta fyrirkomulag sé mjög þægilegt. „Við erum mjög dugleg að fara eitthvað út í bláinn og gera skemmtilega hluti saman, svona eftir „behag” og veðri. Stundum gistum við líka. Í sumar reikna ég með því að við förum t.d. á Vatnsnesið. Þá förum við pottþétt í Mývatnssveitina og jafnvel austur á land.” Önnur verkefni sumarsins tengjast heimilinu en Harpa og eiginmaðurinn fluttu fyrir ári í hús með garði. Í sumar er verið að skipta um þak á húsinu og svo þarf að sinna garðinum, en Harpa viðurkennir að hún sé best í verkstjórninni. „Eða það má segja að ég sé meira svona klappstýra þegar kemur að garðverkunum.”

Hannes forritari hjá Wisefish var að byrja í sumarfríi og er klár fyrir mótorhjólaferðir um Norðurlandið.

Á mótorhjóli um Norðurland

„Ég ætla að byrja sumarfríið á því að fara í mótorhjólaferð um helgina með tveimur vinum og gista í tjaldi í tvær nætur. Ég ætla að reyna við Norðurlandið þó það verði kalt,” segir Hannes Kristjánsson, forritari hjá Wisefish. „Svo verð ég líklega bara öflugur á Tinder í sumarfríinu, þarf ekki annars að vera eitthvað krassandi í þessari grein?” segir hann og hlær, en öllu gamni fylgir þó einhver alvara. Hannes hjólar töluvert með gömlum hetjum og reiknar með því að þessi mótorhjólaferð verði bara sú fyrsta af mörgum í sumarfríinu. „Ég ætla að halda mig hér á Norðurlandinu, en fer þó kannski á Vestfirði.” Aðspurður um önnur plön fyrir sumarið þá segist Hannes ætla að leigja heimili sitt út tvisvar í sumar. Fyrsta leigan er strax um helgina enda mikil eftirspurn eftir húsnæði í bænum yfir N1 mótið. „Ég er hvort sem er að fara að ferðast svo það hentar vel á leigja húsið út á meðan.”

Hilda verslunarstjóri í Casa fór til Marokkó í sumar og mælir með þeirri upplifun.

Upplifun í Marokkó

„Ég er búin að fara í stutt frí. Ég fór til Afríku (Marokkó) með amerískri vinkonu minni. Núna í júlí er ég að fá gesti og ætla bara að njóta hér heima. Svo tek ég mér aftur frí í ágúst áður en haustið byrjar,” segir Hilda Eichmann, verslunarstjóri Casa á Glerártorgi.

Hilda segist vera vön því að taka sér frí frá vinnu í kringum Fiskidaginn mikla en þar sem hátíðin hefur verið aflögð á hún eftir að ákveða hvað hún geri sniðugt í ágúst í staðinn. „Ég fer þó ekki meira erlendis, ekki í sumar. En það er aldrei að vita í vetur og þá er um að gera að nýta sér beina flugið héðan.” Í haust er einmitt boðið upp á ferð í beinu flugi frá Akureyri til Marokkó og mælir Hilda heilshugar með landinu. Á átta dögum ferðuðust þær vinkonurnar til fjögurra borga og sáu því margt. Nefnir Hilda t.d. bláu borgina Chefchaouen sem hún segir að hafi verið dásemd. „Það var smá kúltúrsjokk að koma til Marokkó en það skiptir líka miklu máli að vera vel undirbúinn. Kaupa t.d. sim-kort í símann sinn, annars verður símreikningurinn dýr. Og ekki fylgja neinum sem býðst til að sýna þér einhverja staði en um að gera að fara í skipulagðar skoðunarferðir. Það er geggjað, kostar ekki mikið og hádegisverður innifalinn.”