Fara í efni
Mannlíf

Sumaropnun Hlíðarfjalls seinkað um viku

Fjallabrun í Hlíðarfjalli síðasta sumar. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson

Til stóð að Hlíðarfjall yrði opnað sumargestum á morgun en því hefur verið frestað um viku eða til 18. júlí. Ástæðan liggur í slæmum veðurskilyrðum í júní.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hlíðarfjalls hafa leysingar í fjallinu tekið lengri tíma en vonast var til. Vegna snjókomu og kulda í júní er enn mikil væta í jarðvegi og vegurinn upp í Strýtu ófær. Enn er varla gangandi á fjallið og vinnu við hjólaleiðir hefur seinkað. Upphaflega var stefnt af því að sumaropnunin yrði frá 11. júlí til 8. september en skoðað verður hvort hægt verði að bæta viku við í september ef aðstæður leyfa og aðsókn verður góð.

Eftir að fjallið verður opnað á ný verður opið sem hér segir:

Fjarkinn mun ganga á fimmtudögum og föstudögum frá kl. 17-21, á laugardögum frá kl. 10-17 og sunnudögum frá kl. 10-16.

Stefnt er á að Fjallkonan verði opin frá 27. júlí til 25. ágúst, samtals fimm helgar á laugardögum og sunnudögum frá kl. 10-15.

Á meðan á sumaropnun fjallsins stendur geta gestir nýtt sér lyfturnar til að koma sér upp fjallið, hvort sem það er til að njóta hjólagarðsins eða til að ganga um fjallið og njóta útsýnisins.