Stórt skref í átt að auknu afhendingaröryggi
Í dag var ný lína, Hólasandslína 3, sem liggur á milli Hólasands og Akureyrar tekin formlega í rekstur. Hólasandslína er hluti af nýrri kynslóð byggðalínunnar, hluti af nýju flutningskerfi raforku á Íslandi. Þessu mikilvæga skrefi var fagnað við athöfn á Akureyri, að því er segir á vef Landsnets.
Lykillína í átt að orkuskiptum
Markmið framkvæmdarinnar er bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi. „Framkvæmdin er einnig mikilvæg fyrir flutningskerfi landsins í heild þar sem um er að ræða mikilvægan hlekk í styrkingu tengsla milli sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorninu og veikari hluta þess á Austurlandi,“ segir á vef Landsnets.
„Línan ásamt öðrum línum af hennar kynslóð munu leika lykilhlutverk þegar kemur að orkuskiptum á Íslandi. Hólasandslína liggur innan fjögurra sveitarfélaga, Akureyrarkaupstaðar, Eyjafjarðarsveitar, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Hún skiptist í 62 km loftlínuhluta og 10 km jarðstrengshluta. Auk línunnar eru byggð ný 220 kV tengivirki á Hólasandi og á Rangárvöllum við Akureyri, bæði þessi tengivirki eru hluti af nýrri kynslóð stafrænna tengivirkja.“
Línuleiðin er að mestu sú sama og núverandi Byggðalína, en frá Laxárdalsheiði að Hólasandi er línuleiðin ný. Línan var strengd yfir Laxárdal í um 1 km löngu hafi til þess að lágmarka umhverfisáhrif og er það eitt lengst línuhaf á landinu. Fyrstu 10 km Hólasandslínu 3 frá Rangárvöllum á Akureyri verða lagðir með jarðstreng, en hann endar í landi Kaupangs í Eyjafjarðarsveit. Lögð eru tvö sett 1600 mm2 strengja. Ný strengjabrú yfir Glerá var reist vegna strengjanna og nýtist hún sem reiðbrú.
Svipaðar forsendur og fyrir 50 árum
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets sagði við þetta tilefni Hólandslínu mikilvæga ekki bara fyrir Norðurland heldur landið allt og benti á að nú sé að mörgu leyti verið að eiga við sömu forsendur og fyrir 50 árum þegar byggðalínan var reist.
„Við erum í dag að taka stórt skref í átt að auknu afhendingaröryggi á Norðausturlandi og öflugri tengingu ekki bara hér heldur líka fyrir landið allt. Það er áhugavert að velta því upp að þegar við reistum byggðalínuna fyrir 50 árum vorum við að eiga við svipaðar forsendur og núna. Stríð, olíukreppa og hátt olíuverð voru drifkraftar í átt að orkuskiptum, forsendur sem allar hljóma kunnuglega núna. Í dag er orkuskortur, flutningskerfið ekki nógu öruggt en við orðin háð raforkunni sem eru lífsgæði sem við getum ekki verið án. Það er mér mikil ánægja að vera hér á Akureyri í dag til að taka Hólasandslínu i notkun nákvæmlega hundrað árum eftir að straumi var hleypt á Akureyri. Hundrað ára saga og því við hæfi að setja straum á Hólasandslínu 3 í dag, línu sem færir okkur inn í framtíðina,“ segir Guðmundur Ingi.
Hólasandslína styður við markmið stjórnvalda
Hólasandslína 3 er mikilvægt mannvirki í flutningsnetinu sem mun auka raforkuöryggi, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í ávarpi sínu er hann tók þátt í spennusetningu Landsnets á línunni á Akureyri í dag.
Ráðherra sagði ástæðu til að óska Landsneti, íbúum Norðausturlands og raunar þjóðinni allri til hamingju með nýju línuna. Um sé að ræða framkvæmd sem beri aukna flutningsgetu og þar með talið bætt raforkuöryggi. „Línan tryggir stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi og er mikilvægur hlekkur í styrkingu tengsla milli landshluta,“ sagði Guðlaugur Þór. Þá styðji nýja línan við metnaðarfull markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.
Ein virkjun fer forgörðum!
Sigrún Björk Jakobsdóttir stjórnarformaður Landsnets fékk svo það hlutverk að taka línuna formlega í rekstur. Hún sagði Íslendinga standa á tímamótum í raforkusögu landsins. Um leið og hún óskað öllum til hamingju með Hólasandslínu 3 sagði hún að enn sé þó verk að vinna.
„Gamla byggðalínan sem var byggð á árunum 1972-1984 er núna fulllestuð og hefur í raun náð einstökum árangri í að mæta þörfum sívaxandi nútímaþjóðfélags. Það má ef til vill segja líka að þekkingarfyrirtækið Landsnet hafi vegna þessa ástands verið í fremstu röð við að hanna snjalllausnir og nýta stafræna tækni til að draga sem mest úr sóun og hagnýta allt nýtanlegt rafafl. Það eru gríðarstór verkefni framundan en það eru fáir kostir í boði nema að styrkja þennan hring – rafhring landsins – því að flutningsgeta línanna er farin að hamla uppbyggingu og valda nú þegar milljarða tapi á hverju ári í formi tapaðra tækifæra við atvinnuþróun. Áætlað er að takmarkanir í flutningskerfinu nemi allt að orku sem er á við það sem framleitt er í Kröflu eða Svartsengi. Þannig að það er ein virkjun sem fer þarna forgörðum. Flutningsgeta nýrrar byggðalínu á hærri spennu mun anna vaxandi flutningsþörf allra næstu áratuga.“