Fara í efni
Fréttir

Stórt skref fyrir líforkuver á Dysnesi

Bjarkey Olsen, matvælaráðherra og Kristín Helga Schiöth, framkvæmdastjóri Líforkuvers ehf. Mynd: Axel Þórhallsson

„Fyrst og fremst er gleðilegt að við erum að taka skref áfram,“ sagði Bjarkey Olsen á opnum fundi Líforkuvers ehf. í Hofi í dag. Tilgangur fundarins var að opna vef Líforkuvers ehf. formlega og kynna verkefnið á opnum vettvangi. „Mér finnst sú vinna sem hefur verið unnin hér í að minnsta kosti áratug leiði okkur fljótt að því að geta tekið í gagnið líforkuver á Dysnesi við Eyjafjörð.“

Að mínu mati er alvarlegasta birtingarmynd þessa fyrir hagstjórn hér á landi að ESA myndi einfaldlega stöðva útflutning matvæla frá Íslandi

„Það er ljóst að við verðum að tryggja viðeigandi ráðstöfun fyrir dýraleifar í áhættuflokki 1.“ Í stuttu erindi Bjarkeyjar á fundinum nefndi hún alvarleika þess að bregðast við, en staðan er sú að frá árinu 2013 hefur EFTA dómstóllinn rekið mál gegn Íslandi vegna ófullnægjandi inniviða til förgunar á aukaafurðum dýra. „Ísland var dæmt brotlegt í júlí 2022 og við erum búin að fá ítrekun á því. Að mínu mati er alvarlegasta birtingarmynd þessa fyrir hagstjórn hér á landi að ESA myndi einfaldlega stöðva útflutning matvæla frá Íslandi, þar á meðal t.d. sjávarafurðir. Ég er því viss um að hér er gríðarlegt hagsmunamál á ferðinni og ég er viss um að þið séuð öll sammála mér í því,“ sagði Bjarkey á fundinum.


Tölvuteiknuð mynd af líforkuverinu eins og það gæti verið. Mynd: www.liforka.is

Mikil vinna farið í undirbúning og fjármögnun er næsta skref 

Kristín Helga Schiöth, framkvæmdastjóri Líforkuvers ehf., hélt stutt kynningarerindi á fundinum og var ánægð með áfangann og opnun heimasíðunnar. „Ég er mjög ánæð með að matvælaráðherra hafi mætt og aðstoðað okkur við að hleypa verkefninu svona úr vör,“ sagði Kristín. „Þetta er búið að vera í bígerð í langan tíma og mikil vinna farið í undirbúning og ég er sannfærð um að þetta verði, eins og ráðherra sagði, hjartað í uppbyggingu á Dysnesi, þar sem byggist upp græn atvinnustarfsemi.“

„Nú á eftir að skoða fjármögnunarhliðina, og við vitum að þetta eru dýrir innviðir,“ segir Kristín Helga. „Það er allt til reiðu hérna og vilji heimafólks og ég sé því í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að líforkuver rísi á Dysnesi og vona bara að það gerist hratt og örugglega.“

Hvar er málið statt í stjórnsýslunni?

„Við erum með fólk í því að greina og skoða, og við erum að líta til nágranna okkar í Finnlandi og Noregi sem hafa komið líforkuverum í gagnið,“ segir Bjarkey Olsen, aðspurð um næstu skref. „Við erum með áætlaðar tölur um það hvað þetta gæti kostað og það er alveg ljóst að ríkið þarf að koma að þessu, að mínu mati. Enda er ábyrgðin á þessum dýraafurðum, í áhættuflokki 1, hjá ríkinu.“ Bjarkey segir að málið hafi lítið verið rætt á þinginu. „Ég er hins vegar búin að fara með minnisblað í ríkisstjórn og gera grein fyrir því að þetta sé staðan og framundan sé þetta verkefni, þannig að ég á bara von á því að við finnum farsæla lausn,“ segir Bjarkey Olsen að lokum.

 

Teymi Líforkuvers ehf. F.v. Katla Eiríksdóttir, Kristín Helga Schiöth, Karen Mist Kristjánsdóttir og Kolfinna María Níelsdóttir. Mynd Rakel Hinriksdóttir

En hvað er líforkuver?

Kristín Helga Schiöth svarar því: „Líforkuver er vinnsla þar sem unnið verður úr dýraleifum í efsta áhættuflokki. Undir það falla t.a.m. dýrahræ úr sveitum landsins, sem eiga sér engan góðan farveg í dag og eru að stærstu leyti urðuð. Urðun dýraleifa er ólögleg samkvæmt reglugerðum um aukaafurðir dýra og það er sérlega varhugavert að urða dýraleifar í efsta áhættuflokki vegna smithættu. Urðun lífræns efnis felur einnig í sér losun gróðurhúsalofttegunda og vegur þungt í losunarbókhaldi Íslands.“

HÉR má skoða nýja heimasíðu Líforkuvers ehf. sem var opnuð í dag.

U.þ.b. 40 manns voru viðstödd fundinn. Mynd: Rakel Hinriksdóttir