Fara í efni
Menning

Stórskemmtilegur söngleikur í Freyvangi

„Það er óhætt að mæla með þessari skemmtilegu sýningu fyrir fjölskyldufólk í jólastemningu, og fyrir mér stendur upp úr að heyra öll þessi nýju og skemmtilegu lög og verða vitni að áður óþekktri tilfinningagreind jólahyskisins.“

Þetta segir Rakel Hinriksdóttir, blaðamaður Akureyri.net í pistli um jólaleikritið Fjórtándi jólasveinninn, leikgerð eftir barnabók Ásgeirs Ólafssonar Lie, sem frumsýnt var í Freyvangsleikhúsinu um síðustu helgi. Næsta sýning er á morgun, sunnudag.

„Persónur sýningarinnar eru langflest góðkunningjar okkar úr Grýluhelli. Jólasveinarnir þrettán, jólakötturinn, Grýla og Leppalúði eru öll á sínum stað. En, leikritið heitir jú 'Fjórtándi jólasveinninn'. Það er vegna þess að í þessari sögu urðu synir tröllahjónanna óvart fjórtán,“ segir Rakel. 

Hún hrósar leikhópnum, gríðarlegur munur sé á aldri og reynslu á leiksviði, „en það er skemmtilegt að sjá fjölbreytnina og það ríkir mikil leikgleði og samheldnin er áþreifanleg,“ segir hún. „Allir jólasveinarnir eru skemmtilegir og ólíkir og mig langar að hrósa ungu leikkonunni Sólveigu Maríu sem stendur sig vel í hlutverki Ólátabelgs. Það er burðarhlutverk og Sólveig fer vel með að sýna ólíkar hliðar Ólátabelgs, sem er í senn gríðarlega orkumikill og hávaðasamur en einnig lítill í sér og svolítið týndur í tilverunni oft á tíðum.“

Smellið hér til að lesa pistil Rakelar