Fara í efni
Menning

Stormur Ragnars Hólm í Mjólkurbúðinni

Ragnar Hólm Ragnarsson opnar málverkasýninguna Ég elska þig stormur í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins á Akureyri, næsta laugardag kl. 14.00.

Að þessu sinni sýnir hann ný abstrakt expressjónísk olíumálverk en Ragnar hefur sýnt jöfnum höndum vatnslitamyndir og olíumálverk frá því hann hélt sína fyrstu sýningu í Populus tremula á Akureyri vorið 2010. Flestar sýningar hefur hann haldið á Akureyri en einnig í Reykjavík og á Dalvík. Þar fyrir utan hefur Ragnar Hólm sýnt vatnslitamyndir sínar með öðrum listamönnum á Spáni, Ítalíu, í Svíþjóð, Frakklandi, Finnlandi, Eistlandi, Úkraínu og nú síðast Kína.

„Til hvers er maður að þessu? spurði ég sjálfan mig fyrir fáeinum dögum þegar fór um mig ofurlítill skjálfti því mér virtist nánast ómögulegt að mér tækist að koma öllu heim og saman í tæka tíð fyrir sýningaropnun,“ segir listamaðurinn. „Og ég held að svarið við spurningunni felist kannski í titli sýningarinnar því stormurinn og spennan sem fylgir því að opna nýja sýningu eru nánast ómótstæðileg en kannski elska ég ekki síður kyrrðina, þögnina, lognið sem dettur yfir allt þegar sýningarhelgi er lokið,“ segir hann.

Tvö verkanna sem verða á sýningu Ragnars í Mjólkurbúðinni.

Leiðist flatneskja

„Mér leiðist flatneskja. Ég nærist á þessum sveiflum og held að málverkin mín endurspegli það. Þau eru túlkun á ólíkum tilfinningum sem berjast um á myndfletinum. Kannski finnur maður fyrir innri krafti, reiði, kvíða, frelsi, ótta og hamingju, svo fátt eitt sé nefnt. Ég hef gaman af því að fást við abstraktið því það er svo fáránlega snúið, formið er lengi að finna sinn farveg og setjast, en ég veit alltaf nákvæmlega hvenær málverk er tilbúið. Hér er það storminn sem geisar um grund,“ segir Ragnar Hólm og vísar til upphafs kvæðisins eftir Hannes Hafstein:

Ég elska þig stormur, sem geisar um grundog gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,en gráfeysknu kvistina bugar og brýturog bjarkirnar treystir, um leið og þú þýtur.

Sýningin í Mjólkurbúðinni verður opin tvær næstu helgar frá kl. 14.00-17.00, bæði laugardaga og sunnudaga.