Fara í efni
Pistlar

Stjörnuljós í Hofi

Í skammdeginu, þegar myrkrið flæðir yfir og ristir sér jafnvel leið inn í sálina, þá koma jólaljósin og glitrandi skrautið, ásamt stjörnum í skrauti, sem á heiðskírum himni kallast á við stjörnuhvolfið.

Þessi máttur ljóssins yfirvinnur myrkrið í sálinni. En svo bregður við að nýju ári með hækkandi sól er fagnað með flugeldum og svo háværum skoteldum, að hrossabændur verða að loka hesta sína inni jafnvel að halda fyrir þá aðlögunarnámskeið þar sem sprengjuhljóð, jafnvel úr stríðinu í Úkraínu, eru leikin af upptökum í allangan tíma á undan til að venja hrossin við stríðshljóðin.

Einn kostur við þetta er mörgum Akureyringum að skapi því allir kettir skila sér og með lokuð eyru í fleti sínu eða annarra. Fljótlega eftir sprengjugleðina fer margt að grána. Greni með ljósum, kúlum og borðum hverfur. Stjörnur í gluggum húsa hætta að ræða við stjörnur á himinhvolfinu. Aftur koma gráir og dimmir dagar. Persónulega finnst mér bæði jólaljósin og jólaskrautið eigi gleðja okkur a.m.k. til Þorra.

Ljósmynd: Ármann Hinrik

En þörfinni fyrir lengri ljósahátíð og gleðihljóma var svo sannarlega svalað núna um síðustu helgi, með því sem fullskipuð Sinfóníuhljómsveit Norðurlands undir frábærri stjórn Daníels Þorsteinssonar gaf okkur, ásamt glæsilegum hópi frábærra söngvara.

Þéttskipaður salur af innilega hrifnu fólki sýndi með undirtektun sínum allt sem ég vildi lýst hafa.

Eftirfarandi ávarp stjórnandans, Daníels Þorsteinssonar, veita vonandi lesendum þessa pistils innsýn í þessa dásamlegu nýársfagnaðar tónleika:

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og MAk fagna nýju ári og hækkandi sól með fjölbreyttri blöndu gamallar og nýrrar tónlistar. Við lítum til Austurríkis og vottum Jóhanni Strauss yngri og Vínartónleikahefðinni virðingu með forleiknum að óperettunni Leðurblökunni og Tritsch- Tratsch polkanum – hvort tveggja ómissandi verk á árlegum nýárstónleikum Vínarfílharmoníunnar. Efnisskrá kvöldsins er að vissu leyti sett saman með þessa hefð í huga; austurrísku og ungversku tónskáldin Lehár, Korngold, Kálmán og Stolz leggja lóð sín á vogarskálina með þekktum perlum eins og Dein ist mein ganzes Herz, Lippen schweigen og Viljalied en líka með verkum sem sjaldnar heyrast hér á landi en færa okkur þó ósvikinn andblæ Mið- og Austur-Evrópu. Og við leitum víðar fanga enda erum við að skapa okkar eigin norðlensku nýárshefð. Úr smiðju rússneska tónskáldsins Shostakovich heyrum við vals í sönnum Vínaranda en samt með eilítið þungum, slavneskum undirtóni, og komin austur á bóginn leitar hugur okkar óneitanlega til Úkraínu en frá Prokofiev, sem fæddur var þar í landi, kemur hinn kunni dans riddara Montague- og Capulet- ættanna úr ballettinum um elskendurna Rómeó og Júlíu.

Nýárstónleikunum lýkur á frumflutningi á nýju verki, Fantasíu um Ólaf liljurós, eftir Michael Jón Clarke. Í litríkum óði til íslenskrar söng- og danshefðar bregður fyrir þekktum minnum og tilvitnunum í margvíslega menningarkima, innlenda sem erlenda, en þar sem fæst orð hafa minnsta ábyrgð skal áheyrendum eftirlátið að upplifa þetta splunkunýja tónverk á eigin forsendum.

Stjörnuljós tónleikanna eru söngvararnir Þóra, Hanna Dóra, Dagur, Gísli Rúnar og Andri Björn og er það okkur mikil ánægja og heiður að fá þau til liðs við okkur á þessari hátíðarstundu.

Tónskáldið Michael Jón Clarke til vinstri. Verk hans Ólafur Liljurós var frumflutt á tónleikunum. Ljósmynd: Ármann Hinrik

Ég tek undir orðið stjörnuljós, frábærir einsöngvarar. Takk! Takk!

Stjörnuljósalíkingin á raunar vel við alla tónleikana, á við alla flytjendur, á við stjórnandann og ekki hvað síst við Michael Jón Clarke. Michael þreytti frumraun sína að semja fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit og verkið hans Ólafur Liljurós var frumflutt í lokin. Verkið er byggt á þjóðvísunum sem lýsa baráttu hans við fallegar og tælandi álfkonur. Allir flytjendur tóku þátt í flutningnum og sungu einsöngvarar ýmist í einsöng, tvísöng og samsöng.

Verkið heldur vel utan um þessa miklu örlagaballöðu, einkar grípandi. Takk fyrir og til hamingju Michael. Ég vonast til að ekkert, síst kóvíd, tefji árlegan nýársfagnað Sinfóníuhljómsveitar Akureyrar og Menningarfélags Akureyrar.

Með slíkum tónleikum birtir yfir okkar heimi og bætir sannarlega ögn jólaljósaleysið.

Jón Hlöðver Áskelsson er tónskáld á Akureyri

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00