Stíga „lokadansinn“ í minningu Ásgeirs
Akureyrska hljómsveitin Baraflokkurinn kemur fram á Eyrarrokki um aðra helgi þegar hátíðin verður haldin í fjórða sinn eins og Akureyri.net hefur greint frá. Það verður líklega í síðasta skipti sem sveitin kemur saman. Söngvarinn Ásgeir Jónsson lést fyrir rúmum tveimur árum langt fyrir aldur fram og Magni Ásgeirsson syngur með hljómsveitinni að þessu sinni.
„Við viljum heiðra minningu Geira og þegar þetta tækifæri bauðst að koma fram á Eyrarrokki þáðum við það með þökkum. Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur í Baraflokknum að fá þetta tækifæri til að loka hringnum á Akureyri, 44 árum eftir að bandið varð til þar í þessari útgáfu,“ segir Þór Freysson gítarleikari hljómsveitarinnar við Akureyri.net.
Þór og Jón Arnar bróðir hans gengum til liðs við Ásgeir Jónsson, Baldvin H. Sigurðsson og Árna Henriksen árið 1980, Árni hætti fljótlega og við trommunum tók Sigfús Óttarsson „sem var þá aðeins 14 ára undrabarn,“ eins og Þór orðar það, en Sigfús hefur verið einn þekktasti trommuleikari landsins allar götur síðan.
Ásgeir stofnaði Baraflokkinn árið 1979 og var aðal laga- og textahöfundur hljómsveitarinnar. Hún starfaði til ársins 1984, naut mikilla vinsælda og gaf út þrjár plötur – Baraflokkurinn (1981), Lizt (1982) og Gas (1983).
„Ég geri fastlega ráð fyrir að þetta verði lokadans hljómsveitarinnar, en við höfum spilað nokkuð óreglulega á tónleikum frá 2012 og þá helst á Græna hattinum okkur til mikillar ánægju,“ segir Þór Freysson. „Við hlökkum mikið til og vonum að sem flestir kunni að meta þetta frábæra framtak Rögga og Sumarliða sem Eyrarrokkshátíðin er.“