Stelpurnar í 2. flokki Íslandsmeistarar
Nokkuð er síðan stelpurnar í 2. flokki sameiginlegs liðs Þórs, KA og Völsungs í knattspyrnu tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn en bikarinn fengu þær afhentan í gær. Það var eftir stórsigur, 13:0, á sameiginlegu liði Breiðabliks, Augnabliks og Smára í Boganum sem bikarinn fór á loft.
Töluvert bras hefur verið að ljúka Íslandsmótinu, A-deild 2. flokks U20, og Stelpurnar okkar eiga raunar einum leik ólokið, gegn ÍBV í Eyjum.
Á vef Þórs/KA segir að sjö vikur séu síðan stelpurnar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn og tæpar sex vikur síðan þær spiluðu síðasta leik í deildinni.
_ _ _
ÍSLANDSMEISTARARNIR
Aftari röð frá vinstri: Pétur Heiðar Kristjánsson, þjálfari, Harpa Jóhannsdóttir, aðstoðarþjálfari, Emelía Ósk Kruger, Bríet Jóhannsdóttir, Lilja Gull Ólafsdóttir, Rut Marín Róbertsdóttir, Hanna Klara Birgisdóttir, Amalía Árnadóttir, Ólína Helga Sigþórsdóttir, Tanía Sól Hjartardóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Anna Guðný Sveinsdóttir, Angela Mary Helgadóttir og Ágústa Kristinsdóttir þjálfari.
Fremri röð frá vinstri: Birkir Hermann Björgvinsson, þjálfari, Katla Bjarnadóttir, Bríet Fjóla Bjarnadóttir, Helga Dís Hafsteinsdóttir, Hildur Anna Birgisdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Kolfinna Eik Elínardóttir, Krista Dís Kristinsdóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir, Arna Rut Orradóttir, Júlía Margrét Sveinsdóttir og Steingerður Snorradóttir.
_ _ _
Fyrir leikinn í gær hafði Þór/KA/Völsungur unnið alla tíu leiki sína og var því með fullt hús í A-deildinni. Spennan var ekki mikil í gær eins og tölurnar gefa til kynna. Emelía Ósk Krüger skoraði þrennu á síðustu 20 mínútum leiksins og varð þar með markadrottning A-deildarinnar með 13 mörk.
Meira hér á vef Þórs/KA