Fara í efni
Fréttir

Stefnir í kaldasta ár á Akureyri frá 1998

Mynd af Facebook síðunni Gamlar myndir frá Akureyri.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur telur að árið sem senn er á enda verði það kaldasta á Akureyri síðan 1998. Þetta kemur fram í pistli sem hann birti á Facebook síðu sinni í morgun.

Í gær mat Einar horfurnar á árshitanum í Reykjavík og telur líkur á að árið verði það kaldasta í höfuðborginni síðan 1995. Hann segir samanburð á Akureyri erfiðari þar sem veðurstöðin hafi verið flutt frá lögreglustöðinni við Þórunnarstræti niður á Krossanesbraut. Enn um sinn sé hiti þó mældur á gamla staðnum og „réttur“ samanburður því mögulegur.

  • Einar Sveinbjörnsson heldur úti veðurvefnum blika.is á vegum Veðurvaktarinnar ehf. Blika er beintengd Akureyri.net. þannig að lesendur geta auðveldlega fylgst með veðri og veðurspám – sjá hér: blika.is

Meðalhiti á Akureyri 1. til 19. desember 1,1°C undir meðallagi, segir Einar, og bætir við að til áramóta sé ekki að vænta stórvægilegra breytinga á hitafari. Ólíklega verði verulega kalt.

„Fari svo verður þetta sjöundi mánuðurinn í röð þar sem hitinn mælist undir 30 ára meðaltalinu (1991-2020). Júlí var hlýrri með 12,6°C.“

Einar segir:

  • Árshitinn á Akureyri endar trúlega nærri 3,3 °C
  • Árshiti hefur aldrei verið svo lágur frá aldamótum
  • 2015 kemst þar næst með 3,8°C í árshita á Akureyri
  • Meðalhiti 30 ára tímabilsins 1991-2020 var 4,19°C
  • Til samanburðar þar á undan; 1961-1990 með 3,24°C

„Árið 2024 rímar því ágætlega við hitafarið á fyrra og kaldara tímabilinu rétt eins og í Reykjavík.“

Myndin er tekin í Innbænum, þarna sér norður eftir syðsta hluta Aðalstrætis. Þetta er í mars 1995 en „þann vetur setti niður ókjör af snjó á Norðurlandi. Það ár var árshitinn á Akureyri ekki nema 2,8°C. Veturinn var kaldur og voraði seint. Næstu 15 -18 árin þar á undan mældust nokkur álíka köld ár á Akureyri,“ segir Einar Sveinbjörnsson.