Stefán Þór: „Mér finnst ljóðin mín eiga erindi“
Nýverið gaf bókaútgáfan Tindur á Akureyri út ljóðabókina Mörk eftir Stefán Þór Sæmundsson, sem lesendur Akureyri.net ættu að þekkja sem afkastamikinn pistlahöfund.
Þetta er fjórða ljóðabók höfundar en alls hefur hann komið nálægt um það bil áttatíu bókum sem höfundur eða þýðandi. En hvers vegna er hann að senda frá sér ljóðabók núna? Er ljóðið ekki dautt, er bókin ekki dauð, er hin mannlega hugsun og ritun ekki komin að fótum fram?
„Skáldlegur ertu, Skapti minn,“ segir Stefán kíminn við sinn gamla skólabróður þegar spurt er. „Fregnir af dauða ljóðsins eru stórlega ýktar. Reyndar heitir hryggjarstykkið, kafli tvö í þessum fjögurra kafla bálki mínum, Ótímabær dauði málsins. Ég viðra áhyggjur af stöðu íslenskunnar, ljóðsins, menningarinnar og þessa samfélags sem við búum í. Vera má að ég hafi líka gert það í pistlum, með eða án Aðalsteins Öfgars, en hér erum við kannski að tala um listrænni nálgun.“
Já, ljóðabókin Mörk skiptist í fjóra hluta. Í þeim fyrsta eru ýmis ljóð og mörg tengd landinu, þjóðinni, Akureyri, norðrinu og tilverunni. Í öðrum hluta er fjallað um sögu máls, ljóðs og menningar og púlsinn tekinn á stöðunni í dag. Sagan er rakin í óbundnu máli en inn á milli koma ljóðabútar undir ýmsum formföstum bragarháttum. Þriðji hlutinn er bæði bragfræðilegt og efnislegt átak, eins og höfundur lýsir því, þar sem tónlist og fíkn fléttast saman og fjórði hlutinn snýst um tilveru unga fólksins í dag og segir höfundur að sjónarhornið ætti að koma flestum á óvart.
Það er að fjara undan okkur
„Hugsanlega eiga skáld ekki að vera pólitísk, heldur innhverf og listræn, torræð og tregafull,“ segir Stefán þegar hann er inntur eftir efni bókarinnar. „Sennilega er ég skrítin skrúfa en mér finnst að ljóðin mín eigi erindi við samtímann og þess vegna ákvað ég í sumar að þrusa þeim út úr tölvunni og í andlitið á saklausum lesendum. Ekki af steigurlæti eða stórbokkaskap, fullvissu um eigin ágæti, heldur þörf fyrir að deila með öðrum reynslu minni og hugsunum. Tilveran er flókin og títt er þagað um mál sem þyrfti að ræða opinberlega en skáld eru hafin yfir þöggunarmúrinn og þiggja því frelsi til að tjá sig. Ég þakka fyrir það í þessari bók.“
Þetta er nú eiginlega ofvaxið skilningi blaðamanns! En af því að ég þekki skáldið frá fornu fari áræddi ég að spyrja nánar út í efni bókarinnar; skyldi það vera byggt á eigin reynslu og hvaða erindi á það við lesendur?
„Ég vil helst ekki afhjúpa mig eða yfirhöfuð beina athyglinni að sjálfum mér. Ég er að tala um tilveru unga fólksins, barna og barnabarna, nemenda minna, uppvaxandi kynslóðar. Ég viðra áhyggjur af stöðu tungumálsins og íslenskrar menningar og vitundar en ég er ekki í neinni pólitískri krossferð. Ég reyni að setja mig í spor annarra. Hins vegar get ég alveg viðurkennt að í þriðja hlutanum, þar sem tónlist og tifandi fíkn fléttast saman þá byggi ég vissulega á eigin reynslu en reyni að miðla henni til annarra á hreinskilinn hátt, enda er ljóðabálkurinn Lausnin saminn undir áhrifum þar sem ég er algjörlega berskjaldaður.“
Skemmum ekki unga fólkið
Stefán Þór vill ekki fara nánar út í þetta með áhrifin en segir þó að allmargir horfi með glampa í augum til töfralausna á borð við sýru og sveppa eða annarra efna sem geti bætt lífsgæði og örvað hamingjustöðvar heilans. Hugur Stefáns er hjá unga fólkinu sem býr við linnulausan áróður um notkun á koffíni, nikótíni og alkóhóli og jafnvel kannabis og fleiri efnum. Þegar áhrifavaldar og íþróttahetjur slást í leikinn getur verið erfitt að forðast freistingar, segir hann.
„Í alvöru talað, þá erum við fullorðna fólkið að flæma ungdóminn út úr mannlegu samfélagi og inn í gerviveröld Sílikondalsins og amerískra og kínverskra tæknirisa sem krefjast þess að sjá um kynuppeldi, siðferðilegt uppeldi og félagsmótun ungs fólks í dag og selja því hamingjuna á silfurfati með ógnvænlegum aukaverkunum. Þetta er svo sorglegt að ég get varla talað um það ógrátandi og auðvitað yrkir maður ekki ljóð beinlínis um þessa viðurstyggð en vonandi geta samt orðaðar athugasemdir haft góð áhrif,“ segir Stefán.
„Aðalatriðið er; skemmum ekki unga fólkið,“ heldur hann áfram. „Leyfum uppvaxandi kynslóð að finna út úr því hvað mannkyni er fyrir bestu. Ég sá sjónvarpsþátt um daginn, Torgið, þar sem unga fólkið þráði meira aðhald og mannlega nánd meðan foreldrarnir voru uppteknir á netinu. Það minnir mig á nemandann sem skammaði mig fyrir að vera ekki nógu strangur á símanotkun því þessi fíkn hefði orðið þess valdandi að nemandinn náði ekki prófi. Já, ég lofa að láta þetta ekki endurtaka sig. Auðvitað eiga kennarar og foreldrar að vera fyrirmyndir, leiðbeinandi og styðjandi.“
Ljóðabókin Mörk ku vera fáanleg í Pennanum og jafnvel beint af býli en ritstjóri Akureyri.net kveður Akureyrarskáldið að sinni og lætur lesendum það eftir að rýna í þá margræðu texta sem finna má í bókinni.