Fara í efni
Umræðan

Stangveiðifélag Akureyrar 20 ára

Stangveiðifélag Akureyrar (SVAK) fagnar 20 ára starfsafmæli sínu með fræðslu- og afmælisfundi á Hótel KEA á morgun, laugardaginn 4. nóv ember, frá klukkan 14.00 til 18.00.

Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá ferskvatns- og eldissviði Hafrannsóknarstofnunar kemur í heimsókn og fjallar m.a. um stöðu stofnanna okkar (bleikju, sjóbirtings og lax), utanumhald, rafræna skráningu og fiskræktunarsjónarmið. Þá mun hann einnig fjalla um slysasleppingar á sjókvíaeldislaxi og afleiðingar þeirra og tilveru hnúðlax í ánum okkar. Guðni er hafsjór af fróðleik og það er mikill akkur fyrir okkur að fá hann norður til okkar.

Þá munu Sigmundur Ófeigsson og Stefán Sigmundsson vera með fyrirlestur um stöðu og þróun bleikjuveiða í ám við Eyjafjörðinn þar sem þeir skoða m.a veiðitölur síðustu ára. Kaffihlaðborð verður síðan í boði SVAK.

Núverandi stjórn SVAK. Frá vinstri: Valgerður Gunnarsdóttir, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Guðrún Una Jónsdóttir, Stefán Gunnarsson, Jón Bragi Gunnarsson, Benjamín Þorri Bergsson og Anna Kristveig Arnardóttir.

Stangveiðifélag Akureyrar oftar nefnt SVAK var stofnað á Hótel KEA á vordögum 2003. Á stofnfundinn mættu tæplega 100 manns sem þótti góð mæting. Heiðursgestur fundarins var Kolbeinn Grímsson heitinn sem er stangveiðimönnum vel kunnur sem höfundur veiðiflugunnar Peacock, einni vinsælustu veiðiflugu á Íslandi.

Það var hugur í mönnum á þessum tíma og í opnunarræðu fyrsta formanns félagsins, Ragnars Hólm Ragnarssonar, kom fram að það vantaði félagsskap sem væri öllum opinn og hefði að markmiði sínu að efla félagsstarf og þjappa stangveiðimönnum saman þar sem samkeppni á veiðileyfamarkaði væri ört vaxandi.

SVAKalegir málarar gera félagsheimilið Gömlu Gróðrastöðina klárt. F.v: Guðmundur Ármann, Rúnar Þór, Jón Bragi, Björgvin Harri og Ingvar Karl.

Félagsskírteini voru gefin út og fyrsta félagsheimili klúbbsins var opnað í Gróðrastöðinni á Krókeyri eftir að sjálfboðaliðar úr klúbbnum höfðu dubbað húsnæðið upp vopnaðir málningakústum.

Öflugt félagsstarf fór fljótlega í gang með opnum húsum, árkynningum, hnýtinga- og kastnámskeiðum. Smá saman kom félagið sér upp veiðisvæðum fyrir félagsmenn sína sem þeir ýmist leigðu eða voru með í umboðssölu. Þar má nefna árnar hér í firðinum, Fjarðará í Ólafsfirði, Svarfaðardalsá og Hörgá, og Hofsá í Skagafirði svo einhverjar séu nefndar. Einnig var samið við önnur veiðifélög um afslátt á veiðileyfum eða veiðileyfi keypt og seld áfram til félagsmanna með misjöfnum árangri þó.

Sigmundur Ófeigsson leiðbeinir áhugasömum nemendum um taumanotkun.

Félagið fylgdi ört vaxandi þróun í netheimum og kom sér upp heimasíðu með léninu svak.is árið 2003 og nokkru síðar fór öll sala veiðileyfa fram á söluvef SVAK. Einnig varð skráning afla gerð rafræn í veiðibók SVAK sem þóttu mikil tímamót.

Formenn félagsins hafa verið þrír á þessum tuttugu árum. Eins og áður sagði var Ragnar Hólm fyrsti formaður félagsins og sat hann til ársins 2007 þegar Erlendur Steinar Friðriksson tók við. Hann gegndi embættinu til 2012 en þá tók undirrituð við keflinu og var fyrsta konan til að gegna slíku embætti á landinu.

Margir aðrir hafa komið að velferð félagsins síðustu 20 árin og yrði langur listi að telja þá alla upp. Þó ber að þakka öllu því góða fólki sem hefur starfað í stjórn félagsins og í kringum félagið í gegnum árin. Langar mig í því sambandi að nefna tvo þeirra, Jón Braga Gunnarsson og Guðmund Ármann Sigurjónsson en þeir hafa verið með frá stofnun og eru enn starfandi bæði í stjórn félagsins og við kennslu í hnýtingum og fluguköstum fyrir félagsmenn SVAK.

Guðrún Una Jónsdóttir, formaður SVAK, lukkuleg með „drottningu“ úr Hörgá.

Stangveiðifélag Akureyrar stendur ennþá styrkum fótum og hefur að aðalmarkmiði sínu að halda uppi öflugu félagsstarfi með opnum húsum, fræðslu um sportið, hnýtingarkvöldum og flugukastæfingum. Við hrærumst í ringulreið veiðileyfaheimsins þar sem samkeppni er mikil. Sem stendur hefur félagið tvö veiðisvæði á sínum snærum, Fjarðará í Ólafsfiðri þar sem SVAK er leigutaki, og Hörgá sem við höfum haft í umboðssölu.

Einnig njóta SVAK félagar afsláttarkjara hjá Veiðifélaginu Flúðum (Fnjóská), Icelandic fishing guide (Hraunssvæðin) og veiðiversluninni Veiðiríkinu sem hefur verið samstarfsaðili okkar gegnum árin og við erum þakklát fyrir.

Lifandi veiðistaðakynning á bökkum Hörgár í umsjá Þórodds Sveinssonar.

Draumurinn er að fá í sölu fleiri hentug veiðisvæði fyrir félagsmenn okkar sem eru eitthvað á þriðja hundrað talsins. Ég er vongóð um að svo verði þar sem við teljum okkur hafa uppá margt að bjóða eins og aðgengilega sölusíðu, rafræna veiðibók og öfluga samfélagsmiðla.

Undirrituð horfir því bjartsýn fram veginn og vonast til að sem flestir mæti á hótel KEA á morgun, laugardag, hlýði á áhugaverða fyrirlestra og fagni tímamótunum með okkur.

Guðrún Una Jónsdóttir er formaður Stangveiðifélags Akureyrar

Andri Sævarsson, Jón Bragi Gunnarsson og Sólon Kristjánsson á hnýtingakvöld í Zontahúsinu.

Hnýtingakvöld í Zontahúsinu með Jóni Braga og Guðmundi Ármanni á fyrstu árum félagsins.

Kastæfingar innanhúss eru stundaðar grimmt yfir veturinn.

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15