Fara í efni
Íþróttir

Sóley Evrópumeistari með miklum yfirburðum

Sóley Margrét Jónsdóttir, Evrópumeistari í kraftlyftingum, og Auðunn Jónsson þjálfari hennar. Mynd af Facebook síðu kraftlyftingadeildar Breiðabliks.

Sóley Margrét Jónsdóttir varð í dag Evrópumeistari í kraftlyftingum í Danmörku. Sóley Margrét keppti í +84 kg þyngdarflokki og skemmst er frá því að segja að hún sigraði með yfirburðum. Þetta kemur fram á heimasíðu Kraftlyftingasambands Íslands í dag. 

Sóley Margrét er Akureyringur en hefur búið syðra síðustu misseri og keppir fyrir Breiðablik. Hún er 22 ára og á enn eftir eitt ár í unglingaflokki en keppti í flokki fullorðinna á EM í dönsku borginni Thisted.

Sóley keppir í kraftlyftingum með búnaði; þar sem leyfður er ákveðinn aukabúnaður. Hún lyfti 270 kg í hnébeygju og voru allar lyftur gildar hjá henni þar. Í bekkpressu fóru 182,5 kg upp í annarri tilraun. Í þriðju tilraun reyndi hún við 190 kg en fékk þá lyftu dæmda ógilda þrátt fyrir að hún færi alla leið upp með tvö rauð ljós gegn einu hvítu. Í réttstöðulyftu lyfti hún 207,5 kg og voru allar lyftur gildar hjá henni þar. Samtals 660 kg, en næsti keppandi lyfti 622,5 kg. Sóley hlaut gull í hnébeygju og bekkpressu og silfur í réttstöðu.

  • Munurinn á klassískum kraftlyftingum og búnaðarlyftingum, sem svo eru kallaðar, er sá að í þeim klassísku má ekki notast við neinn aukabúnað eins og bekkpressuboli eða stálbrækur. Hnévafningar sem hægt er að herða að eins og með frönskum rennilás eru einnig bannaðir. Aðeins má nota hnéhólka sem ekki er hægt að herða og vafninga fyrir úlnlið.