„Snýst um að gleðja fólk í kringum okkur“
Eitt af því sem einkennir störf Skógræktarfélags Eyfirðinga er jólatrjáavertíðin. „Sú vertíð færir íbúum svæðisins gleði og hamingju en félaginu tekjur sem nýtast til skógræktar, viðhalds og umhirðu,“ segir Sigurður Arnarson, stjórnarmaður í Skógræktarfélaginu, í frábærum pistli dagsins í Tré vikunnar.
Sigurður nefnir að íbúar bæjarins taki flestir þátt í að skreyta bæinn, enda ekki vanþörf á yfir dimmasta tímann. Hann fjallar sérstaklega um Herradeild JMJ og Joe's en líklega er hvergi í bænum jólalegra en við og í verslununum tveimur. Margir muna eftir gríðarlegum jólaskreytingum Ragnars Sverrissonar kaupmanns við heimili fjölskyldunnar í Áshlíð til margra ára en segja má að þær skreytingar hafi færst yfir í verslanirnar tvær við Gránufélagsgötuna – þar sem Jón M. Ragnarsson, Sverrissonar, ber „hitann og þungann af skreytingunum sem laða að gesti og gangandi,“ skrifar Sigurður.
Könglar og trjábörkur úr Kjarnaskógi eru í gluggum JMJ ásamt birkijólasveinunum sem starfsmenn Skógræktarfélagsins söguðu og Corina Paduret teiknaði.
„Mikilvægur hluti af gluggaskreytingum verslunarinnar eru tréjólasveinar úr birki. Eins og svo margt annað í skreytingunum, svo sem trjábörkur og könglar, eiga þessir jólasveinar ættir sínar að rekja í Kjarnaskóg. Þar uxu þau birkitré sem þeir eru gerðir úr. Starfsmenn félagsins hafa sagað greinar og stofna í heppilegar stærðir. Svo kemur Corina Paduret, sem vinnur á saumastofu verslunarinnar, til skjalanna. Það er hún sem teiknar þessi skemmtilegu andlit á viðinn og saumar húfur fyrir sveinkana, sem brosa kankvísir til gesta og gangandi.“
Jón M. Ragnarsson fyrir utan tískuverslunina Joe's við hliðina á rauðgreni frá Skógræktarfélaginu. Mynd: Sig.A.
Sigurður skrifar ennfremur:
„Eins og vænta má eru svona skreytingar ekki hristar fram úr erminni. Auðvitað kostar þetta mikla vinnu og yfirlegu. En starfsmenn herrafataverslunarinnar telja það ekki eftir sér. Þvert á móti. Þeir vilja gjarnan styrkja hið góða starf Skógræktarfélagsins og þær stundir sem fara í jólaundirbúninginn veita starfsfólkinu gleði. Að auki er það sjálfsögð skylda allra fyrirtækja að vinna með samfélaginu sem þau eru sprottin úr.“
Og Sigurður eftir Jóni M. Ragnarssyni: „Mikilvægast af öllu er að þetta snýst um að gleðja fólkið í kringum okkur.“
Smellið hér til að lesa pistil Sigurðar Arnarsonar