Snædís Ósk var 30 kíló og vart hugað líf

Ung og efnileg norðlensk knattspyrnukona, Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir, svalt sjálfa sig niður í 30 kg eftir að hafa komið illa út í fitumælingu hjá Þór/KA. Snædís, sem hefur nú náð fullum bata, sagði sögu sína í Kastljósinu á RÚV í gær.
Snædís byrjaði ung að æfa fótbolta. Fyrst á Dalvík en í þriðja flokki fór hún að æfa með KA og sautján ára gömul var hún farin að banka á dyrnar hjá Þór/KA sem leikur í efstu deild Íslandsmótsins. Hún var fljót að láta ljós sitt skína í liðinu og lagði hart að sér til þess að ná enn lengra. Í Kastljósviðtalinu kom fram að þegar Snædís var tvítug var boðið upp á fitumælingu á liðinu. Hún kom ekki vel út úr mælingunni og það hafði mikil áhrif á hana.
Þessi mynd er tekin í ágúst árið 2021 úr leik Þór/KA og Tindastóls. Snædís Ósk í miðjunni. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
„Eftir áramótin set ég mér markmið að léttast um 10 kg og ná að komast í þessa fituprósentu að vera íþróttamaður,“ segir Snædís í Kastljósviðtalinu. Markmiðið fór hins vegar fljótt úr böndunum og Snædís þróaði með sér átröskun. Á tveimur árum fór hún frá því að vera hraust og efnileg íþróttakona niður í það að vera vart hugað líf, þá 30 kg þung.
Snædís náði loks að snúa við blaðinu og náði undraverðum bata með hjálp sérfræðinga og fjölskyldu. Í innslaginu sem Óðinn Svan, fréttamaður RÚV, tók við Snædísi er einnig rætt við Þorstein Ágúst Jónsson, kærasta hennar og móður Snædísar, Friðrikku Jakobsdóttur. Þar er einnig að finna sláandi myndir af Snædísi þegar hún var sem verst haldin af sjúkdómnum.
Innslagið í heild sinni má sjá á heimasíðu RÚV.
Skjáskot af RÚV. Snædís í dag (t.v.) og þegar hún var upp á sitt versta þá 30 kíló að þyngd.