Skrifstofa ráðherra er á Akureyri í dag
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er við störf á Akureyri í dag, miðvikudag 28. september. Vinnudeginum lýkur með opnum fundi á veitingastaðnum Bryggjunni við Strandgötu klukkan 17.30 til 18.20. Þangað eru allir velkomnir.
Akureyri er fimmti staðurinn utan Reykjavíkur þar sem ráðherra er með skrifstofu en áður hefur hún verið með skrifstofur í Snæfellsbæ, Mosfellsbæ, Árborg og Hafnarfirði.
„Málefni háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins eiga við um land allt og mun ráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, staðsetja skrifstofu sína víðs vegar um landið á kjörtímabilinu,“ segir á vef ráðuneytisins. „Á hverri starfsstöð verður ráðherra með opna viðtalstíma þar sem öll áhugasöm eru velkomin í stutt, milliliðalaust spjall um málefni á borði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Þá verða fyrirtækjaheimsóknir einnig hluti af dagskrá ráðherra,“ segir þar.
„Hugmyndin kviknaði þegar ég var að hugsa hvernig ráðuneyti sem væri búið til árið 2022 myndi starfa. Með þessu kynnist ég enn betur starfsemi sem tengist ráðuneytinu um allt land og fæ tækifæri til að prófa að starfa annars staðar en í Reykjavík,“ segir ráðherra.