Fara í efni
Menning

Skriðjökull gengur til liðs við SúEllen

SúEllen og Jóhann Skriðjökull. Hljómsveitarmeðlimir eru: Guðmundur R. Gíslason, söngur og kassagítar, Steinar Gunnarsson, bassi og söngur, Bjarni Halldór Kristjánsson, gítar og söngur og Jóhann Geir Árnason trommur. Mynd: Facebook

Austfirska hljómsveitin SúEllen ætlar að dusta rykið af hljóðfærunum þann 14. mars næstkomandi, á föstudaginn, þegar hún spilar á Græna hattinum. „Þetta verða fyrstu tónleikarnir okkar í 6 ár,“ segir Guðmundur R. Gíslason, meðlimur hljómsveitarinnar. „Það má búast við nýju efni, en við ætlum að gefa út ný lög með vorinu og tónleikagestir fá forskot á sæluna!“

Stórt skarð var hoggið í raðir SúEllen þegar hljómborðsleikarinn Ingvar Lundberg lést árið 2022, en Guðmundur segir að hann hafi tekið af félögum sínum loforð um að hætta ekki að spila saman. „Það kemur enginn í stað Ingvars, en Akureyringurinn Jóhann Ingvason ætlar að spila á hljómborðið með okkur og saman heiðrum við þá minningu Ingvars og efnum loforðið,“ segir Guðmundur.

„Við þekkjum Jóhann frá fornu fari en hann var hljómborðsleikari í Skriðjöklum sem var okkar mesta og besta vinahljómsveit hérna áður fyrr. Sveitirnar öttu kappi í hljómsveitarkeppninni í Atlavík þar sem Skriðjöklar sigruðu 1985 en SúEllen varð í 2. sæti. Hljómsveitirnar voru svo 2 aðalböndin á Atlavíkurhátíðinni 1987.“ 

Akureyri alltaf nærri hjartanu

„Tenging okkar í SúEllen við Akureyri er mikil,“ segir Guðmundur. „Við tókum upp okkar fyrstu plötu sem kom út 1987 að mestu leyti í hljóðveri Skriðjökla sem var á Óseyri. Einnig gerðum við 2 myndbönd sem voru einungis tekin upp á Akureyri og hafa nýverið komið í leitirnar. Þau voru gerð árið 1990. Við spiluðum mjög oft í Sjallanum á árunum 1990-1993. Þegar við vorum á Akureyri gistum við alltaf fyrstu árin hjá Hansínu Jónsdóttur í Dalakofanum en seinni árin vorum við hjá Ragnheiði á gistiheimilinu Sölku sem var í miðbænum. Báðar þessar heiðurskonur voru miklar vinkonur okkar og vildu allt fyrir okkur gera.“

 

Myndbandið sem kom í leitirnar árið 2019 eftir 28 ára hvarf. Það barst í dularfullu umslagi sem var með póstáritun frá Akureyri.

Tónlistin fylgt Jóhanni allt frá æsku

Jóhann Ingvason, sem ætlar að hamra á hljómborðið með Austfirðingunum í SúEllen er enginn nýgræðingur í tónlist. „Það var mikið sungið á æskuheimilinu hans í Löngumýri á Akureyri enda faðir hans, Ingvi Rafn Jóhannson, 1. tenór og harmonikuleikari. Á heimilinu voru líka sex syngjandi systur og bróðir sem er trommari,“ segir Guðmundur. „Jóhann var sendur í píanónám sem barn, en áhuginn dvínaði vegna lesblindu á nótur. Hann lét það ekki stoppa sig og spilaði eftir eyranu fram á unglingsárin.“

„Í Gaggó byrjaði svo hljómsveitastúss með félögum sem síðar stofnuðu Skriðjökla, en í Menntaskólanum á Akureyri var Jóhann fljótlega munstraður í hlutverk konsertmeistara, en það er sá nemandi sem spilar undir á Söngsal og öðrum viðburðum,“ segir Guðmundur. „Eftir MA flutti hann til Reykjavíkur og hóf síðar nám í Tónlistarskóla FÍH ásamt því að spila með 'pöbbaböndum' á borð við Sköllótta mús og Kórdrengi.“ Blaðamaður verður að viðurkenna að hafa farið á mis við Sköllótta mús, en Kórdrengir hljómar kunnuglega.

Seinna flutti Jóhann til Boston og nam hljóðupptökufræði við Berklee College of Music. Hann útskrifaðist þaðan árið 1994 og vann um skeið í nokkrum hljóðverum í Boston. Þar var hann að vinna sem sérfræðingur í hljómborðum og stafrænum upptökubúnaði í Guitar Center. Jóhann er Skriðjökull frá upphafi en hefur starfað með fjölmörgum hljómsveitum að auki. Sem dæmi má nefna Hunang, Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar, Sixties, Amigos, Öræfi (Hallur Ingólfsson), Geiri Sæm, CCR Bandið og loks Huldumenn.“

Jóhann hefur ekki bara verið á hljómborðinu, því hann hefur sungið með Karlakórnum Fóstbræðrum síðan 2017. Guðmundur segir að þeir félagar hlakki mikið til að tralla með Jóhanni, en það er ekki úr lausu lofti gripið, því einkunnarorð Jóhanns eru Hæ tröllum á meðan við tórum, það var pabba vani og það er minn!

HÉR er hlekkur á tónleikana á Facebook

HÉR er hlekkur á tónleika SúEllen á Græna hattinum 14. mars.