Skrásetur viðburði lífsins í myndum

Fólk hefur skrásett það sem á daga þess drífur í gegnum tíðina, með ólíkum hætti. Það er kannski algengast að fólk haldi dagbækur í þessum tilgangi, en listamaðurinn Guðmundur Ármann heldur aðeins öðruvísi dagbækur en flestir. Hann skrifar bara nokkur orð, en meginmálið er sjónrænt. Listilegar skyssur í myndasögustíl, sem hann svo glæðir lífi með dass af vatnslitum.
Þetta er nú bara fyrir sjálfan mig gert, en ég hef svosem verið hvattur til þess að gera eitthvað með þetta, sýna eða gefa út jafnvel
„Ég hef alltaf gert þetta, að skyssa,“ segir Guðmundur Ármann. „Ég er meira og minna að rissa og skyssa allan daginn, alltaf með penna og litla bók á mér. Svo útbý ég þessar síður upp úr skyssunum. Elsta bókin mín er einhversstaðar hérna, hún er frá '61 eða '62, þegar ég var 18 ára gamall. Þetta hefur alltaf fylgt mér. Ég hef svo bækurnar til hliðsjónar þegar ég er að reyna að rifja eitthvað upp.“ Fyrst var Guðmundur Ármann mest að skyssa upp úr listaverkabókum, en bækurnar hafa þróast út í að vera meira eins og myndrænar heimildir um ævi og störf listamannsins.
Á þessum síðum má kynnast ferðalagi Guðmundar Ármanns til Ítalíu. Eins og á öllum alvöru vinnustofum listamanns, er skortur á hilluplássi. Mynd: RH
Hér er fullgerð síða frá því að Guðmundur Ármann og kona hans heimsóttu vinahjón, þegar hann var með vatnslitanámskeið í Hveragerði. Hér er hægt að fá innsýn í ferlið við gerð myndanna. Til að skipuleggja hina endanlegu síðu gerir hann skyssu eins og sést til hægri á þessari mynd. Mynd: RH
Til þess að geta auðveldlega bætt litum við skyssurnar á ferð og flugi, er Guðmundur Ármann alltaf með svona handhægt vatnslitabox og penna sem eru með vatni í. Mynd: RH
Hér er síða sem minnir Guðmund Ármann á verkefni sem dró hann meðal annars til Svíþjóðar. Þá var honum boðið að taka þátt í að gera grafíklistaverk eftir bókinni Bréf frá Íslandi eftir Daniel Solander, rúmlega 250 ára heimild um lífið á Íslandi árið 1772. Efst á mynd Guðmundar Ármanns er sænska sendiráðið í Reykjvaík. Mynd RH
Minningar um ferðalög lifa á síðum skyssubókanna
Sem dæmi um vinnuferð sem var færð til bókar myndrænt var þegar Guðmundur Ármann tók þátt í verkefninu Solander 250: Bréf frá Íslandi, en þá fékk sænski sendiherrann á Íslandi tíu grafíklistamenn til þess að útbúa verk á sýningu, Guðmund þar á meðal. Sýningin var gerð til að minnast þess að 250 ár voru þá liðin frá merkum erlendum vísindaleiðangri til Íslands árið 1772. Þá kom náttúrufræðingurinn Daniel Solander með föruneyti til landsins og eftir þessa heimsókn skrifaði hann frægt rit, „Bréf frá Íslandi“, sem er mikilvæg heimild um lífið á Íslandi á þessum tíma.
„Bókin er mjög áhugaverð, hún lýsir staðháttum, búskap, klæðnaði, matarræði o.fl. á Íslandi,“ segir Guðmundur Ármann, en hann las bókina við undirbúning listsköpunar fyrir sýninguna. „Það voru myndir í bókinni líka, það voru listamenn með Solander í för sem myndskreyttu. Þetta var skemmtilegt verkefni, en ég fór í mars til Piteå í Svíþjóð vegna þess, og skrásetti náttúrulega ferðina í myndum.“ Það er skemmtilegt að skoða myndir Guðmundar, sem eru í raun myndræn heimildasöfnun af ferli þess að fjalla um heimildasöfnun annars manns fyrir 250 árum.
Hér fáum við að skyggnast í bækurnar sem Guðmundur hefur með sér daglega, þar sem hann skyssar frjálslega það sem á daga hans drífur. Valdar myndir úr þessum bókum rata svo á síðurnar góðu. Mynd: RH
Guðmundur flettir í síðunum sem hann hefur gert og hver og ein býður upp á nýja sögu. Mynd RH
„Fólk spyr stundum, hvað ég sé að hugsa, að skrifa ekki líka hvað var á seyði,“ segir Guðmundur Ármann. „En mig langar bara að skrifa smá með, ég vil segja söguna í myndum. Þetta er nú bara fyrir sjálfan mig gert, en ég hef svosem verið hvattur til þess að gera eitthvað með þetta, sýna eða gefa út jafnvel. Ég veit ekkert hvað verður, það kemur í ljós.“
Opnar listasýningu á Dalvík í maí
„Næst á dagskrá hjá mér er að opna sýningu 3. maí í Bergi á Dalvík,“ segir Guðmundur Ármann. „Þar sýni ég geometrísk málverk sem mun heita Yrkja 2, vegna þess að ég var með sýningu á sama stað árið 2022 sem hét Yrkja 1 og þessi er í beinu framhaldi. Í þessum verkum er málverkið miklu nær tónlist og ljóðlist, og heitir þess vegna yrkja. Í raun og veru er hvert verk eins og ljóð. Þau heita t.d. Vorvísa og Næturljóð.“
„Á sýningunni Yrkja, eru allt öðruvísi verk en þau sem ég fæst við með vatnslitunum, þar sem ég fer út og mála landslag,“ segir Guðmundur Ármann. „Vatnslitirnir eru mín þerapía. Fara út, horfa á náttúruna og færa hana á örkina.“
„Þetta er úr síðustu ferð okkar hjónanna til Reykjavíkur, en hér má sjá ferðalagið aftur heim.“ Mynd: RH