Fara í efni
Mannlíf

Skrásetur lífshlaup í hlaðvarpi til einkanota

Ásgeir Lie, umsjónarmaður hlaðvarpsins 10 bestu, tekur viðtöl við fólk eftir pöntunum um lífshlaup þess. Viðtölin eru hugsuð til persónulegra nota, sem minningar fyrir afkomendur og ættingja, viðmælandans. Hann verður á Akureyri dagana 19.-26. nóvember og á þá örfá pláss enn laus fyrir upptökur.

Akureyringurinn, Ásgeir Ólafsson Lie, rithöfundur, markþjálfi og stjórnandi hlaðvarpsins 10 bestu, er að vanda með ýmis verkefni í gangi. Hann flutti til Noregs í vor en verður á Akureyri eina viku í nóvember þar sem hann mun bjóða fólki upp á hljóðupptökur á æviminningum sínum. 

„Sumir skrifa niður sögur úr lífi sínu en þetta er bara annað form af skrásetningu á lífshlaupinu, segir Ásgeir aðspurður um hljóðupptökurnar sem hann er að bjóða almenningi upp á dagana 19.-26. nóvember. Upptökurnar eru settar upp eins og hlaðvarps þættir Ásgeirs, þ.e.a.s að fólk kemur í viðtal til hans um líf sitt, og síðan eru eftirlætis lög viðkomandi spiluð. Upptakan fer hins vegar ekki í loftið, eins og hlaðvarðsþættir Ásgeirs 10 bestu, heldur eru þessar upptökur aðeins gerðar til einkanota.

Dýrmæt minning fyrir afkomendur

Að sögn Ásgeirs hefur hann nú þegar gert nokkrar svona upptökur sem hafa heppnast ótrúlega vel og eru dýrmætar fyrir viðmælandann sjálfan og ættingja hans. Hann nefnir sem dæmi einstakling sem hann náði að ræða við rétt áður en hann fór í elliglöp. Nú er upptakan góð minning fyrir aðstandendur og ættingja, sem og einstaklinginn sjálfan sem spilar hana gjarnan til að rifja upp gamla atburði og atvik. „Fólk segir allskonar sögur hjá mér. Stundum er um erfiða upplifun að ræða sem kominn er tími til að segja frá, fólk hefur alveg grátið í þessum viðtölum. Svo spilar fólk líka sín uppáhaldslög og sumir syngja jafnvel með.


Frá Akureyri til Noregs.  Ásgeir og Hildur ásamt börnum  sínum Kristian og Alexöndru á nýjum heimaslóðum í Noregi. 

Saga fjórtánda jólasveinsins

Eins og áður segir þá flutti Ásgeir og fjölskylda hans, eiginkonan Hildur Inga Magnadóttir og börnin tvö, þau Kristian 5 ára og Alexandra 7 ára, til Noregs í vor. Heimsókn til Akureyrar stendur nú fyrir dyrum í nóvember en aðalástæðan fyrir henni er frumsýning þann 23. nóvember hjá Freyvangsleikhúsinu á verkinu Fjórtándi jólasveinninn. Ásgeir er höfundur handritsins sem byggt er á samnefndri bók sem hann gaf út árið 2018. „Bókin og leikritið fjalla um Grýlu, Leppalúða, jólasveinana þrettán og jólaköttinn. En þar er líka sagt frá fjórtánda jólasveininum og ástæðunni fyrir því að aðeins þrettán jólasveinar fengu að fara til byggða en ekki sá fjórtándi, segir Ásgeir og bætir við að bókin, sem hefur verið prentuð þrisvar sinnum, verður til sölu á svæðinu þegar sýningar eru í gangi á aðeins 1000 krónur. Segist hann spenntur fyrir því að sjá útkomuna í höndum Freyvangsleikhússins en öll tónlist í verkinu er frumsamin af Eiríki Bóassyni við söngtexta Helga Þórssonar. Leikstjórn er í höndum Jóhönnu S. Ingólfsdóttur.

 Fjórtandi jólasveininn er jólaleikrit Freyvangsleikhússins. Verkið sem er byggt á bók eftir Ásgeir verður frumsýnt þann 23.nóvember. Miðasala hefst 31.október á tix.is 

 

Í leit að norskri ró

Aðspurður um lífið í Noregi segir Ásgeir að fjölskyldan sé rétt að komast í rútínu eftir sólríkt sumar en þau kunni vel við sig á nýjum slóðum.„Sem drífandi Íslendingur hef ég bara verið að reyna að lenda í norsku samfélagi. Það tekur tíma að ná þessari norsku ró. Við vorum að sækjast eftir þessu norska „atmói“ þar sem allir eru jafnir og enginn mismunur,”segir Ásgeir. Fjölskyldan hefur komið sér fyrir í bænum Moss sem er í um klukkustundar akstursfjarlægð suður af Osló. Í sveitarfélaginu búa um 49 þúsund manns. „Þetta er mjög rólegur bær og ekki mikið um að vera þar sem það er svo stutt til Oslóar og Fredrikstad. Við vildum ekki vera í stórborg og þetta hentar okkur mjög vel. Veðrið var mjög gott í sumar, krakkarnir eru farnir að tala norsku og okkur líður mjög vel hér.“ Aðspurður um ástæðu flutninganna segir Ásgeir að þau hjón hafi bara langað í tilbreytingu og eins og með aðrar hugmyndir hjá Ásgeiri þá er þeim fylgt eftir. Ástæðan fyrir því að Moss varð fyrir valinu er sú að systir Hildar og hennar fjölskylda búa í bænum og þau þekktu svæðið eftir heimsóknir til þeirra.

Fólk segir allskonar sögur hjá mér. Stundum er um erfiða upplifun að ræða sem kominn er tími til að segja frá, fólk hefur alveg grátið í þessum viðtölum. Svo spilar fólk líka sín uppáhaldslög og sumir syngja jafnvel með.“

Sumir skrifa niður æviminningar sínar en Ásgeir Lie býðst til að taka fólk í viðtal þar sem það segir munnlega frá ævi sinni í anda hlaðvarpsþáttanna 10 bestu Mynd: Unsplash/Maria Lin Kim

Yfirfærir fyrri verkefni á Noreg

Í hugum margra Íslendinga er Noregur dýrt land en Ásgeir segir ekki svo vera. Sannarlega sé Noregur dýr fyrir íslenska ferðamenn með „ónýta íslenska krónu“ en fyrir heimamenn sem fá laun í norskum krónum er kaupmátturinn góður. Þá nefnir hann ýmsa kosti við Noreg, t.d. er þar hægt að fá íbúðalán án þess að eiga eitthvað í útborgun. En hvað eru þau hjónin að fást við úti? „Við erum eiginlega að gera það sama og við vorum að gera á Akureyri. Hildur er farin að kenna crossfit á líkamsræktarstöð og ég er að vinna í eigin verkefnum eins og áður,“ segir Ásgeir. Í ljós kemur að hann er að þýða eina af bókum sínum yfir á norsku og þá er hann að fara að byrja með hlaðvarp á norsku í sama dúr og 10 bestu. „Ég er í raun að vinna í sömu verkefnum og ég var í heima, ég er bara að yfirfæra þau á Noreg,“ segir Ásgeir sem er kominn með góða hlaðvarpsaðstöðu á bókasafni bæjarins en þar stendur til að hann haldi utan um hlaðvarps námskeið fyrir skólakrakka. Þá er hann einnig að vinna fyrir barnavernd hjá sveitarfélaginu Moss á heimili fyrir unga flóttamenn á aldrinum 16-18 ára.

Ekki hættur við framboðið

Ekki er hægt að sleppa Ásgeiri án þess að spyrja hann hvað sé að frétta af hugmynd hans um nýtt framboð í sveitarstjórnarkosningunum 2026. Ásgeir segir að sú hugmynd, sem hann kallar Nýtt upphaf, sé enn í fullu fjöri. Um er að ræða skráð framboð en ekki flokk þar sem einstaklingar bjóða sig fram á eigin forsendum. 

„Ég ætla einmitt að nýta ferðina til Akureyrar til að ræða við áhugasama í leiðinni, þannig að ef það er einhver þarna úti sem kveikir á þessari hugmynd þá er hægt að hitta mig á Akureyri dagana 19.-26. nóvember, segir Ásgeir og hvetur áhugasama til að vera í sambandi við sig, hvort sem það er vegna hljóðupptakanna sem minnst var á í byrjun eða hugsanlegs framboðs í gegnum netfangið asgeirpodcast@gmail.com eða í síma 0047 40313499. „Svo hvet ég auðvitað fólk til að koma á jólaleikritið í Freyvangi. Þetta er góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna.“