Fara í efni
Fréttir

Skráningardagar teknir upp á leikskólum

Leikskólakrakkar í heimsókn á slökkvistöðinni. Stytting vinnuviku starfsfólks á leikskólum kallar á breytingar og því verða teknir upp skráningardagar. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Ákvæði um vinnutíma starfsfólks leikskóla, eða stytting vinnuvikunnar eins og það er yfirleitt nefnt, eins og það er í kjarasamningum er ástæða þess að ákveðið hefur verið að taka upp svokallaða skráningardaga á leikskólunum. Að sama skapi er það einnig vilji sveitarfélagsins að bæta starfsumhverfið og gera leikskólana að eftirsóknarverðum vinnustöðum.

Ætlunin er að innleiða skráningardaga í leikskólum bæjarins skólaárið 2023-24, að því er fram kemur í frétt á Akureyri.is. Hugmyndin var tekin til umfjöllunar á fundi fræðslu- og lýðheilsuráðs í lok apríl þar sem vel var tekið í hana og svo samþykkt í bæjarráði 11. maí. 

Með upptöku skráningardaga er ætlunin að skapa svigrúm til að mæta fullri fjögurra tíma styttingu vinnuvikunnar þannig að starfsfólk geti tekið út uppsöfnun á styttingu vinnutíma í heilum dögum.

En hvað er átt við með hugtakinu skráningardagar? Um það segir í fréttinni á vef bæjarins: 

Hugmyndin er að bjóða foreldrum upp á 20 skráningardaga. Þeir yrðu sérmerktir í skóladagatali: sex dagar í kringum jól og áramót, tveir dagar þegar haustfrí eru í grunnskólum, tveir dagar þegar vetrarfrí eru í grunnskólum og þrír í kringum páska. Þar að auki velur hver skóli sjö daga sem henta skólastarfi hvers skóla.

Leikskólagjöld lækka yfir árið sem nemur þessum 20 skráningardögum. Þurfa foreldrar að óska sérstaklega eftir skólavist þessa daga með að lágmarki 4ra vikna fyrirvara og greiða sérstaklega fyrir þá skv. gjaldskrá. Þannig er ekki reiknað með mætingu barns á skráningardögum nema það sé sérstaklega skráð.

Þeir 13 skráningardagar sem búið er að festa miðast við daga sem ekki er kennsla í grunnskólum og auknar líkur eru á að foreldrar/forráðamenn séu í leyfi frá störfum sínum, ýmist vegna styttingar eða orlofs.

Líklega verður óhefðbundið starf innan leikskólanna þessa daga með hugsanlegri blöndun milli deilda og/eða áherslu á útiveru og val.