Skotárásin: „Ég trúi þessu varla ennþá“
Einn íslenskur nemandi, Tinna Ósk Ompi Rúnarsdóttir frá Akureyri, er í skólanum í Örebro í Svíþjóð þar sem 10 létust í dag í skotárás. Blessunarlega höfðu Tinna og bekkjarfélagar hennar farið saman á veitingastað í grenndinni í hádeginu en snæddu ekki í mötuneyti skólans. Tinna Ósk er 24 ára. Móðir hennar er Inga Björk Harðardóttir og fósturfaðir hennar er Jón Óðinn Waage, eiginmaður Ingu. Fjölskyldan flutti frá Akureyri til Svíþjóðar fyrir tæpum áratug.
Árásin í dag var gerð í þeirri álmu skólans sem bekkur Tinnu Óskar heldur til, en hópurinn var svo heppinn að hafa farið úr húsi skömmu áður en árásarmaðurinn lét til skarar skríða. „Við ákváðum að fara öll saman í hádegismat á veitingastað rétt hjá skólanum, maður er ekki nema svona tvær mínútur að ganga þangað,“ sagði Tinna í samtali við Akureyri.net. „Um það bil hálftíma eftir að við komum á veitingastaðinn hringdi annar kennarinn okkar í einn nemandann og sagði okkur að fara ekki neitt. Við vissum ekkert hvað var um að vera, héldum að þeir ætluðu kannski að koma og hitta okkur.“
Trúum þessu varla
Aðeins liðu um fimm mínútur frá símtalinu þar til hinn kennari hópsins kom hlaupandi inn á veitingastaðinn, náfölur í framan. Þá segir Tinna að hópurinn hafi áttað sig á því að eitthvað alvarlegt hefði gerst.
„Hann sagði okkur að einhver hefði verið að skjóta í skólanum,“ segir Tinna. „Við biðum á veitingastaðnum í fimm klukkutíma og hlustuðum á útvarpið til þess að fylgjast með því sem var að gerast.“
Hópurinn fékk þær fregnir um síðir að árásarmaðurinn hefði verið á ferð stutt frá ganginum þar sem Tinna og bekkjarfélagar hennar stunda sitt nám. Óvissan var því mikil og var enn þegar blaðamaður ræddi við hana því ekki höfðu fengist upplýsingar um hverjir hinir látnu væru.
Tinna segir að árásin sé mikið áfall og skyldi engan undra. Það sé ótrúlegt lán að hópurinn hafi farið saman út. „Við vorum öll í sjokki þegar við fengum fréttirnar og svo eiginlega í enn meira sjokki þegar maður fór að átta sig betur á því sem hafði gerst. Ég er búinn að heyra í nokkrum bekkjarfélögum mínum aftur og flestir trúa reyndar varla enn hvað gerðist og mér líður líka ennþá þannig. Ég trúi þessu varla ennþá, við eigum eftir að átta okkur betur á þessu. Maður heyrir oft af svona í fréttum en þegar það gerist svona nálægt manni er það mjög skrýtið.“
Hún segir að hópur fólks hafi komist út úr skólanum eftir að árásin hófst og nokkrir hlaupið grátandi inn á veitingastaðinn þar sem hópurinn hennar var. „Lögreglan kom svo á veitingastaðinn og vildi tala við alla sem höfðu verið í skólanum þegar árásin hófst, bæði til að fá innsýn í það sem hafði gerst og til að bjóða áfallahjálp. Við í bekknum mínum vorum spurð hvort við vildum þiggja áfallahjálp en afþökkuðum það. Sögðum þeim að einbeita sér frekar að þeim sem voru í skólanum.“
Í skólanum, Campus Risbergska, fer fram fullorðinsfræðsla og nemendur eru um 7.000. „Þarna er fólk sem hefur flutt frá öðrum löndum og er að læra sænsku, líka þeir sem hafa af einhverjum ástæðum ekki klárað menntaskóla og þurfa að lesa einhverja áfanga,“ sagði Tinna Ósk í dag.
Einn skólastjóranna í Campus Risbergska er Akureyringurinn Svanfríður Birgisdóttir sem er raunar náfrænka Ingu Bjarkar, móður Tinnu Óskar. Svanfríður og Inga eru systradætur.
Akureyri.net sagði frá árásinni fyrr í dag og vitnaði þar í samtal Vísis við Svanfríði.
- Skotárás í Svíþjóð: Rosalega sjokkeruð