Fara í efni
Fréttir

Skortir gögn um mengun frá skipunum?

Niðurbrot matarúrgangs með nýjustu tækni. Skemmtiferðaskip skilja almennt lítinn sem engan flokkaðan úrgang eftir hér á landi. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Akureyri.net heldur áfram umfjöllun um erindi sem flutt voru á kynningarfundi Ferðamálastofu um helstu málefni sem tengjast komum skemmtiferðaskipa. Þorsteinn Aðalsteinsson frá Hagstofu Íslands spurði hvort mengun af skemmtiferðaskipum í íslenskri landhelgi væri bleiki fíllinn í stofunni, það er eitthvað sem er augljóst en enginn þorir að nefna.

FYRRI GREINAR

Hér eru nokkur meginatriði úr fyrirlestri Þorsteins:

  • Dæmigert er að stærri skemmtiferðaskip, með 3.000 farþega, eyði um 240 tonnum af olíu á úthafssiglingu. Slík sigling frá Noregi til Íslands tekur um tvo sólarhringa, sem þýðir notkun upp á 160 kg af olíu á farþega.
  • Þetta er hærra gildi en gerist hjá flugvélum, en þar er meðal notkun á eldsneyti um 48 kg á farþega.
  • Í siglingu á milli hafna fer skipið hægar og má gera ráð fyrir olíunotkun upp á 140 tonn á dag.
  • Í höfnum, þar sem ekki er hægt að fá rafmagn úr landi, má gera ráð fyrir að olíueyðsla sama skips sé um fjögur tonn á dag, þar sem framleiða þarf um 75 MWh af rafmagni á dag. Til samanburðar er samanlögð rafmagnsnotkun heimila á Selfossi á bilinu 20-60 MWh.
  • Sorp- og skólpmyndun hjá skemmtiferðaskipum er sambærileg og gerist í landi, eða um 3,5 kg sorp og 35 L af skólpi á dag.
  • Skemmtiferðaskip hafa sökum strangra reglna mun betri frágang og flokkun á sorpi en gerist í landi og eru almennt ekki að skila sorpi til úrvinnslu hérlendis. Einnig gilda strangar reglur og kvaðir um úrvinnslu á skólpi og er sá frágangur mun betri en gerist á Íslandi.
  • Önnur mengunarefni frá skipunum eru t.d. kjölfestuvatn, brennisteinn frá eldsneyti (SOx) og sótmengun. Slík mengun kemur ekki einvörðungu frá skemmtiferðaskipum, heldur fylgir stórskipum almennt.
  • Opinber loftslags- og mengunaruppgjör sem eru unnin hér á landi ná ekki til skemmtiferðaskipa nema að litlu leyti, þar sem bókhald yfir slíkt er annað hvort unnið með tilliti til mengunar frá landi, eða til mengunar sem tilheyrir íslenskum rekstri.
  • Töluleg gögn um mengunarmagn liggja því ekki ljóst fyrir í þeirri umræðu sem þarf að eiga sér stað, en á sama tíma eru losunartölur frá íslenskum flugrekstraraðilum og öðrum aðilum í ferðaþjónustu hérlendis aðgengilegar.
  • Margir kostir standa til boða sem gætu bætt úr gagnaleysi í tengslum við skemmtiferðaskip, enda er þetta þekkt vandamál annars staðar. Íslensk stjórnvöld og sveitarstjórnir geta meðal annars heimilað hafnarstjórnum að taka upp umhverfiseftirlitskerfi og þannig umbunað nýrri skipum sem menga minna í hafnargjöldum. Slík kerfi kalla eftir raunverulegum gögnum um hönnun, birgðir og efnisnotkun í þessum skipum. Slík gögn myndu koma umræðu um mengunarmál tengdum þessum þætti ferðaþjónustunnar í upplýstara horf.

Upptöku af fyrirlestri Þorsteins um mengunina og bleika fílinn má finna í frétt Ferðamálastofu - sjá hér