Fara í efni
Menning

Sköpunarkrafturinn flæðir um Eyrina

Karólína Baldvinsdóttir, listamaður, listkennari og einn af stofnendum Þúfu 46. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

Hægt og bítandi er að færast aukið líf í hverfið austast á Eyrinni. Listafólk bæjarins hefur rennt hýru auga til gamalla verkstæða og skemmubygginga á svæðinu um nokkurt skeið og séð í hyllingum tækifærin sem leynast í staðsetningunni. Karólína Baldvinsdóttir er ein af þeim, en nú hefur hún látið til skarar skríða ásamt fríðum hópi listamanna, og samvinnustofan Þúfa 46 hefur litið dagsins ljós. Þar verður galleríopnun föstudaginn 4. apríl kl. 19.00. Blaðamaður Akureyri.net heimsótti Karólínu og hina listamennina, á Gránufélagsgötu 46. Húsnæðið var áður þekkt fyrir að hýsa Valsmíði.

„Jónas í Valsmíði kom hérna um daginn og hann var svo glaður, að sjá hvað það væri mikið líf hérna,“ segir Karólína glöð í bragði, en þegar listafólkið tók við húsnæðinu var það galtómt. „Þetta var rosalega hrátt en við brettum bara upp ermar og tókum allt í gegn í sameiningu.“ Samvinnustofur eru orðnar þekktar í skapandi samfélaginu, en þar er útbúið stórt rými sem samanstendur af minni einingum þar sem hver einstaklingur eða fyrirtæki hefur vinnuaðstöðu. 

 

Hér má sjá myndir af húsnæðinu, eins og það var:

 

Hér má svo sjá sama rými eftir að listafólkið mætti með allan sinn sköpunarkraft:

Það verður að vera hugguleg setustofa og kaffivél í samvinnustofum. Hér sitja listamennirnir sem voru við þegar blaðamann bar að garði, og taka sér kaffipásu. F.v. Karólína, Sigurður Már, Hjördís Frímann, Regína Margrét Gunnarsdóttir, Gillian Pokalo, Rósa Matthíasdóttir og Kristján Helgason.

Aðrir listamenn sem halda vinnustofu á Þúfu 46 eru Valgerður Ósk Einarsdóttir, Elín Berglind Skúladóttir, Tereza Kocián og Svavar Knútur.

 

Litagleði og líf einkennir rýmið, hvert sem litið er. Mynd: RH

Margt spennandi í pípunum í sumar

Í miðju rýminu er langt vinnuborð, þar sem Karólína rekur Samlagið, sköpunarverkstæði, sem heldur námskeið í myndlist og sköpun fyrir krakka. Áður voru námskeið Samlagsins í Deiglunni, en nýja húsnæðið hentar mjög vel og það er alltaf fullt á námskeiðin, segir Karólína. Vinnustofur listamannanna eru svo allt um kring, hver annarri litríkari. Sunnan við húsið er stórt port sem Karólína hefur í huga að nýta til viðburðahalds og útiveru í sumar, en við bíðum spennt eftir frekari fréttum af því. „Okkur langar að nýta portið í eitthvað lifandi og skemmtilegt, og við erum mjög spennt fyrir sumrinu.“

„Ég átti heima á Eyrinni í 20 ár og það var alltaf draumurinn minn að gera eitthvað á þessu svæði,“ segir Karólína. „Mig dreymdi reyndar fyrst um braggana, en ég er svo glöð að hafa Braggaparkið þar og svo er komið keramikverkstæði hérna á hornið austan við okkur. Það er svo margt spennandi að gerast á svæðinu.“ 

„Það er sköpun í öllum hornum“

„Bara við að koma hingað, fengum við öll auka innspýtingu,“ segir Karólína. „Að vera saman, en þó að gera svona ólíka hluti í listinni, er svo nærandi.“ Regína Margrét tekur undir og segist eiginlega verða klökk við tilhugsunina. „Ég er alveg ný í því að vera að opinberlega listamaður. Ég var skúffumálari og búin að vera á allskonar námskeiðum, en það hefur verið mjög frelsandi að koma hingað og fá orku frá hinum líka,“ segir hún. Öll eru sammála um að það sé allt annað, að vinna að listinni í svona samfélagi af góðum hóp listamanna. 

„Það er sköpun í öllum hornum, og krafturinn liggur bara í loftinu,“ segir Regína Margrét. Hjördís Frímann skýtur inn í, hvort að hún sé ekki bara að meina terpentínuilminn og gufurnar frá olíumálningunni, og hópurinn skellir upp úr. Það er bersýnilega góð stemning og það verður spennandi að sjá hvað þetta samfélag mun leggja til menningarlífsins í bænum næstu árin. 

Einhverjir listamenn í Þúfu 46 bjóða upp á námskeið, t.d. í grafík og keramiklist. Allar upplýsingar um námskeið eru inni á Sportabler, undir Rósenborg. HÉR er linkur beint á þá síðu.

Þúfa 46 á Facebook

Myndasyrpa: Svipmyndir úr Þúfu 46

Í forstofunni verður svolítil gjafaverslun, með listaverkum sem eru sköpuð í rýminu.