Sköpun bernskunnar litar lífið til frambúðar

Nýverið var opnuð á Listasafninu á Akureyri sýningin 'Sköpun bernskunnar' í tíunda sinn. Hugmyndina að þessari árlegu sýningu, þar sem listsköpun kynslóðanna mætist, átti Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, en sýningarstjórn hefur verið í hennar höndum þar til fyrir ári síðan, þegar Heiða Björk Vilhjálmsdóttir tók við keflinu. Nýlega kom út vegleg bók um sögu verkefnisins síðan hugmyndin kviknaði árið 2012, og blaðamaður Akureyri.net settist niður með Pálínu, eins og hún er gjarnan kölluð, til þess að spjalla um Sköpun bernskunnar. Í fyrri hlutanum, sem birtist í gær, fórum við ofan í saumana á sögu sýningarinnar, en í þessum hluta forvitnumst við meira um listakonuna Pálínu og hennar bernskusköpun.
Þetta er seinni hluti viðtalsins við Pálínu.
Í GÆR – RÆTUR HUGMYNDARINNAR UM SKÖPUN BERNSKUNNAR
Pálína ólst upp hjá afa sínum og ömmu á Bólstað í Bárðardal, en móðurbróðir hennar, kona hans og börn voru líka á bænum. „Ég var mjög skapandi barn,“ segir Pálína. „Ég teiknaði mikið, lék mikið og drullumallaði. Ég fór tveggja ára til ömmu og afa, en flutti svo aftur 10 ára til mömmu á Akureyri, þegar ég var orðin nógu gömul til þess að vera sjálfstæð, þar sem mamma vann langa vinnudaga. Ég þurfti að geta borið ábyrgð á lyklum og haft fyrir mér sjálf eftir skóla. Ég man að fyrsta árið teiknaði ég gjarnan mynd dagsins og hengdi upp fyrir mömmu til að skoða þegar hún kæmi heim.“
Myndirnar sem Pálína er að mála í dag, eiga skírskotun í fjöllin sem hún hafði fyrir augunum í æsku, þegar vel viðraði í Bárðadalnum. Mynd: Facebook síða Pálínu
Hefði viljað æfa ballet og júdó
Þangað til að Pálína varð 15 ára, fór hún alltaf í sveitina í Bárðardalinn á sumrin, þó hún væri flutt til Akureyrar. „Ég minnist þess sérstaklega, varðandi heimilislífið í sveitinni, að kveikt var á Ríkisútvarpinu allan daginn, og var hátt stillt,“ segir Pálína. „Ég heyrði allt, og ég heyrði svo margt þarna. Ég er sérstaklega þakklát fyrir alla tónlistarþættina, sem höfðu mikil áhrif á mig. Amma mín var mjög tónelsk og hafði verið organisti, og pabbi hennar á undan henni, þannig að það var mikil tónlist á heimilinu. Ég hefði viljað vera meira í leik- og tónlist í gegnum tíðina. Ég man að ég harmaði það einna mest, að það hefði ekki verið í boði að læra klassískan ballett og júdó á Akureyri á þessum tíma.“
Þegar það var gott veður í sveitinni í gamla daga, þá sást stundum í Herðubreið. Það var toppurinn og allt eins dásamlegt og hugsast gat
„Það sem var æðislegt þarna í sveitinni, á innsta bænum í dalnum vestanverðum, voru tengslin við náttúruna,“ segir Pálína. Listsköpun Pálínu í dag er mjög litrík og einkennist af hreinum formum, en blaðamaður tekur sérstaklega eftir myndum af fjallstoppum, þar sem við sitjum í stofunni. „Ég hef ekkert verið neitt sérstaklega mikil fjallamanneskja, en þegar það var gott veður í sveitinni í gamla daga, þá sást stundum í Herðubreið. Það var toppurinn og allt eins dásamlegt og hugsast gat. Og náttúrlega fjöllin í Mývatnssveitinni, Bláfjall og Sellandafjall. Ef maður fór svo upp á brúnina, sem við kölluðum fjallið fyrir aftan bæinn, var hægt að sjá endalaust. Þess vegna alveg að Vatnajökli.“ Fjallatopparnir hennar Pálínu tákna þá kannski fremur útsýni og mikilfengleika fjallanna, heldur en löngun til þess að klífa þau.
„Æskan er ekki æðisleg fyrir alla“
„Öræfin okkar eru svo einstök, og þau hafa heillað okkur, mig og Joris manninn minn, lengi,“ segir Pálína. „Að koma á stað þar sem maður hugsar sér að það hafi kannski aldrei neinn verið áður. Nema kannski einhverjar kindur. Þessi tenging við náttúruna hefur ofboðslega skapandi áhrif. Ég man til dæmis eftir að hafa verið að syngja hástöfum, bara ein úti þegar ég var lítil, eða með hinum krökkunum í sveitinni.“ Það var þó ekki alltaf gott veður og skyggni upp á hálendi, en Pálína minnist þess líka, að hafa átt erfiða daga. „Ég var ekki alltaf hamingjusöm, og saknaði þess að hafa ekki foreldra þó að ég hefði góða fjölskyldu hjá mér. Það fylgir því æskunni, í mínum huga, þessi bakhugsun – að æskan er ekkert æðisleg fyrir alla. Fyrir marga er þetta mjög erfiður tími lífsins, til dæmis börn sem upplifa sig utanveltu og kvíða því að fara í skóla og eitthvað slíkt.“
Í Bárðardal var leikið, sungið, farið út í náttúruna að rannsaka og safna jurtum og skoða dýr
Pálína var í heimavistarskóla í Kiðagili í Bárðardal á meðan hún bjó þar, í tvær vikur í senn og krakkarnir settust þá að í skólanum. „Það var yndislegt í skólanum þar,“ rifjar hún upp og brosir.„ Við lærðum svo margt, ekki bara á bókina. Mannasiði, dans, að borða með hníf og gaffli og margt fleira. Skólastjórinn, Svanhildur Hermannsdóttir, var alveg frábær og mikil fyrirmynd. Það var mikil víðsýni sem einkenndi Svanhildi, hún fór í utanlandsferðir og það var svo spennandi að koma í skólann eftir sumarið og sjá hvað hún hafði komið með heim frá útlöndum. Hún var listunnandi, alltaf í svo fallegum fötum og glæsileg, og svo hafði hún svo mikinn metnað fyrir því að kenna okkur.“ Pálína segir að eftir svona skólaupplifun, þótti henni erfitt að koma í bekkjarkerfið á Akureyri.
Pálína ásamt móður sinni, Sigrúnu Höskuldsdóttur. Hún var mikill menningarunnandi og bjó Pálína vel að því. Sigrún lést árið 2023. Mynd: Facebook
Mikil viðbrigði að fara í skólann á Akureyri
„Ég upplifði mikla stéttaskiptingu á Akureyri og maður sá það líka í bekkjarkerfinu,“ segir Pálína. „Þó að það væru góðir krakkar í bekknum og margir sem mér þótti vænt um og þekki jafnvel enn í dag, þá leiddist mér og fannst námið niðurdrepandi og leiðinlegt. Það skorti sköpunina, í Bárðardal var leikið, sungið, farið út í náttúruna að rannsaka og safna jurtum og skoða dýr. Opið hugarfar einkenndi dagana þar og mikil forvitni. Það voru skólaskemmtanir í Barnaskólanum á Akureyri, en það var ekkert hver sem var sem fékk að leika. Það voru ekki allir með og ég var mjög feimin. Þó ég hefði ekki verið það í sveitinni.“ Utan skólans fann Pálína sér kór til þess að syngja í og fór á leiklistarnámskeið þegar það var í boði. Þó hún hefði áhuga á leikhúsinu, beindist áhuginn þó síður að sviðinu, en meira að því að vera sviðshöfundur eða skrifa eða þýða.
Menningarlífið í bænum heillaði
Pálína rifjar upp sína upplifun af listalífinu á Akureyri þegar hún var unglingur, en hún minnist þess að hafa haft frábæra myndlistarkennara þegar fram liðu stundir, þá Aðalstein Vestmann og Einar Helgason. „Ég fór líka á námskeið sem voru í boði, til dæmis ásamt vinkonu á olíumálunarnámskeið hjá Einari og fyrsta teikninámskeiðið sem Guðmundur Ármann hélt, 1973, þegar ég var 16 ára,“ rifjar Pálína upp. „Það var ekki mikið um myndlistarsýningar þá, en ég man eftir sýningum á verkum kennara minna Aðalsteins og Einars, Arnar Inga og svo man ég eftir farandsýningu á vatnslitamyndum Ásgríms Jónssonar. Þetta er svona það helsta sem ég man eftir.“
Pálína er hér við opnun eigin myndlistarsýningar, ásamt móður sinni og eiginmanninum Joris Rademaker sem er líka listamaður. Mynd: Facebook
„Móðir mín var mjög listfeng og mikil áhugamanneskja um menningu og listir,“ segir Pálína, en móðir hennar hét Sigrún Höskuldsdóttir og kenndi handavinnu við Gagnfræðaskólann. „Kristjana Jónsdóttir leikkona var frænka mín, þannig að maður fór á allar leiksýningar sem voru í boði og marga tónleika. Ég hafði minni þolinmæði fyrir klassískri tónlist á þessum aldri en ég fór samt í Borgarbíó á tónleika. Svo gekk ég í kvikmyndaklúbb með vinum mínum sem var starfræktur í Menntaskólanum á Akureyri og öllum opinn. Þar sáum við mikið af klassískum bíómyndum.“ Pálína segir að áhuga sínum á listum sé í raun lítil takmörk sett, hún hafi dálæti á allri sköpun og reyni að mæta á eins fjölbreytta viðburði og hún geti hér í bæ, bæði áður fyrr og enn í dag.
Að skapa og deila með öðrum er dýrmæt gjöf
List- og menningarviðburðir gefa samfélaginu mikið. Þar má hiklaust setja árlega sýningu Sköpun bernskunnar á stall, en hún gefur sjaldgæfa innsýn í huga barnsins; forvitnina og sköpunargleðina sem þar ríkir, með römmum fagmennskunnar á Listasafninu. Litrík æska Pálínu, sem nær til tveggja ólíkra heima í sveit annars vegar, og bæjarlífi hinsvegar, hefur eflaust lagt grunninn að því, að hún veitir sköpuninni svo mikið rými í sínu lífi og getur fengið hugmyndir sem halda áfram að gefa út í samfélagið í formi listar.
Ég get huggað þig með því, að ég hef oft tekið eftir því að eftir fimmtugt fer þessi spéhræðsla að dofna og barnið fer að vakna aftur
„Setningin 'Sköpun bernskunnar' spratt bara fram,“ segir Pálína um hugmyndina, „en meiningin er ekki bara bókstaflega það sem börn skapa – heldur líka barnið í okkur fullorðna fólkinu.“ Blaðamaður veltir þvínæst upp spurningunni; hvenær verður barnið inni í okkur feimið við að skapa? „Ég get huggað þig með því, að ég hef oft tekið eftir því að eftir fimmtugt fer þessi spéhræðsla að dofna og barnið fer að vakna aftur,“ segir Pálína glettin.
Að lokum minnist Pálína á mikilvægi lista fyrir börn sem eiga á einn eða annan hátt um sárt að binda. „Það getur einfaldlega gert gæfumuninn, fyrir sumt fólk, að hafa listina til þess að lifa af. Margir listamenn eiga flókna æsku að baki,“ segir Pálína Guðmundsdóttir, hugmyndasmiður Sköpunar bernskunnar.
Sköpun bernskunnar er forvitnileg, spennandi og litrík. Mynd frá opnun sýningarinnar árið 2019. Mynd: Listasafnið á Akureyrar