Fara í efni
Fréttir

Skólamáltíðir: gjaldtaka um 40% af kostnaði

Framlag ríkisins vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða fyrir alla nemendur grunnskóla verður 1.725 milljónir króna fyrstu fjóra og hálfan mánuð af skólaárinu 2024-2025. Þetta kemur fram í  minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 4. júlí sem send hefur verið sveitarfélögum landsins. Gjaldtaka fyrir skólamáltíðir er að meðaltali á landsvísu um 40% af kostnaði.

„Hugmyndafræðin að baki gjaldfrjálsra skólamáltíða er að tryggja grunnskólabörnum landsins aðgengi að góðum og hollum hádegisverði óháð fjárhagslegri stöðu foreldra og leggur þannig ríkari áherslu á jafnara samfélag fyrir alla,“ segir í niðurlagi minnisblaðsins.

Gjaldtaka að meðaltali 40% af kostnaði

Samkvæmt lögum frá 2008 um rekstur grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma, jafnframt því að sveitarfélögum var heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmd gjaldskrá sem þau setja. Flest sveitarfélög landsins hafa nýtt sér þá heimild og hefur innheimt gjald að meðaltali staðið undir 40% af kostnaði við framleiðslu máltíða fyrir grunnskólabörn.


Glerárskóli. Mynd af vef skólans.

Alþingi samþykkti í vor breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem sneri einkum að gjaldfrjálsum skólamáltíðum í grunnskólum landsins. Lögin má rekja til sameiginlegrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 7. mars sem hafði það markmið að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði.

Áhersla á árlega uppfærslu fjárhæðar

„Lögin kveða á um að við tekjur Jöfnunarsjóðs bætist, á árunum 2024-2027, árlegt framlag úr ríkissjóði sem Jöfnunarsjóður úthlutar til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum. Fjárhæðin er ekki fastsett í lögunum heldur verður hún ákvörðuð í fjárlögum ár hvert. Sambandið hefur lagt mikla áherslu á að upphæðin verði uppfærð árlega til að forsendur um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga haldist út tímabilið. Alþingi tók undir þá kröfu Sambandsins og í nefndaráliti með lögunum er áréttað að við fjárlagagerð næstu ára beri að taka mið af sameiginlegri yfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga frá 7. mars sl. enda væri um forsendubrest að ræða ef gerðar yrðu breytingar á framlagi ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð vegna verkefnisins sem byggðust ekki á sömu sjónarmiðum og fram koma í umræddri yfirlýsingu,“ segir meðal annars í áðurnefndu minnisblaði.

Framlag ríkissjóðs mun skiptast hlutfallslega milli sveitarfélaga eftir fjölda nemenda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan og greiðist mánaðarlega til sveitarfélaga frá 1. ágúst 2024 til loka skólaárs 2027, að undanskildum júlímánuði ár hvert.

Vinnuhópur með niðurstöðu í júní 2025

Skipaður verður fjögurra manna vinnuhópur með tveimur fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem leggja mun mat á nýtingu og áhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða. „Meðal annars skal meta áhrif á markmið um að auka jöfnuð og draga úr fátækt á meðal barna, hvort allir árgangar nýti sér gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hver sé ávinningur einstakra sveitarfélaga og landshluta. Þá skal meta reynslu og ánægju nemenda og foreldra,“ segir í minnisblaðinu. Niðurstaða skal liggja fyrir eigi síðar en 30. júní 2025.

Áreiðanleg upplýsingagjöf mikilvæg

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til eftirfarandi þætti í útfærslu á verkefninu til að tryggja áreiðanlega upplýsingagjöf og að fyrirkomulagið við gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum gangi vel fyrir sig:

  • Mikilvægt er að foreldrar þeirra nemenda sem óska eftir að þiggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum skrái börn sín í mataráskrift svo hægt sé að sjá, að ári hver raunverulegur fjöldi þessara nemanda er. Við þessa skráningu geta sveitarfélög upplýst foreldra um raunkostnað við málaflokkinn, kjósi þau það.
  • Foreldrar skulu tilgreina mikilvægar upplýsingar í skráningunni líkt og dagaval, sérþarfir nemenda (vegan, grænmetisfæði, óþol ofl.).
  • Að hvert og eitt sveitarfélag haldi utan um þann kostnað sem fellur til vegna þessa málaflokks til að hægt verði að meta raunkostnað.