Skjaldarvík: Hluti húsa auglýstur til leigu?
Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar leggur til við bæjarráð að auglýsa hluta húseigna í Skjaldarvík til leigu, en gert er ráð fyrir að Hlíðarskóli starfi áfram í þremur húsum á svæðinu og þá þannig að aðkoma og lóð skólans verði afmörkuð með skýrum hætti. Lagt er til að annað húsnæði verði auglýst til leigu sem fyrst og því húsnæði sem sett verði í leigu verði afmörkuð lóð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði umhverfis- og mannvirkjasviðs um húseignir og land í Skjaldarvík. Ráðið fól sviðsstjóra að vinna málið áfram og auglýsa fasteignirnar til leigu.
Þessi hugmynd virðist viðsnúningur frá því sem bærinn var áður með á prjónunum, eins og Akureyri.net greindi frá í mars 2023. Fyrirtækið Consept ehf. hafði haft staðinn á leigu frá 2010 og rekið þar ferðaþjónustu. Leigusamningur milli bæjarins og Consept ehf. átti að gilda út árið 2023, en Akureyrarbær rifti honum sumarið 2022 og skiluðu leigutakarnir af sér húsnæðinu haustið 2022. Áform voru um að selja húseignir og lóðarskika á jörðinni, ekki jörðina sjálfa, það er þær eignir sem ekki tengjast rekstri skóla á svæðinu þar sem þær nýttust bænum ekki sem slíkar.
Leigðar en ekki seldar
Nú er stefnt að útleigu og miðað við að gera þurfi leigusamning til 15-20 ára og eina leiðin til að komast að raunhæfu leiguverði sé að óska eftir tilboðum í leiguna með þeim skilyrðum að leigutaki tæki að sér viðhald innandyra og aðlögun húsnæðisins að þeirri starfsemi sem leigutaki ætlaði að stunda. Í áðurnefndu minnisblaði kemur fram að húsnæðið sé þokkalegt, en barn síns tíma og beri þess merki að hafa fengið hóflegt viðhald og takmarkaðar endurbætur, eins og það er orðað. Undirliggjandi viðhaldsþörf utanhúss er sögð talsverð og komi fram á næstu árum, svo sem málning, þakklæðningar, þakrennur og fleira.
Hugmyndin um útleigu á húsnæðinu gengur út að á að auglýsa eftir tilboðum í leiguna þar sem leigutaki lýsi framtíðarsýn fyrir notkun húsnæðisins, og að valkvætt verði hve mikið land fylgi hinum leigðu húseignum.
Engar leigutekjur eru af eignum bæjarins í Skjaldarvík fyrir utan skólahúsnæðið, aðeins kostnaður við fasteignagjöld, tryggingar, hita og rafmagn sem eru samtals 6-7 milljónir króna á ári, auk þess sem árlegt viðhald, sem vex með hverju ári sem líður ef ekkert er að gert, er á bililnu 6-10 milljónir króna.
Mikilvægt svæði í framtíðarskipulagi
Skjaldarvíkurjörðin er sögð mjög mikilvæg fyrir framtíðaruppbyggingu og bjóði upp á marga möguleika. Svæðið þar sem byggingarnar standa verði spennandi, bæði sem byggingarland og fyrir aðra landnotkun þegar kemur að skipulagningu þess í framtíðinni. Landrými er um 189 hektarar að stærð, þar af um 61,5 hektarar af ræktuðu landi. Jörðin nær niður að sjó með strandlengju um 1,6 kílómetra að lengd og talið að það svæði bjóði upp á marga möguleika. Jörðin liggur beggja vegna þjóðvegarins.
Loftmynd sem sýnir landamerki Skjaldavíkurjörðina og þau svæði sem eru í útleigu fyrir hestabeit. Skjáskot úr minnisblaði umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar.
Gjöf frá stofnanda Skjaldarvíkurheimilisins
Stefán Jónsson stofnaði Skjaldarvíkurheimilið árið 1943 og gaf Akureyrarbæ jörðina Ytri-Skjaldarvík og Syðri-Skjaldarvík árið 1965 með þeirri ósk að elliheimili sem þá var rekið á jörðinni yrði rekið þar áfram. Stefán afhenti Akureyrarbæ hús og land til eignar og rekstrar. Akureyrarbær hætti rekstri heimilisins árið 1998 þar sem ástand eignanna uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar voru til slíkrar stofnunar og var starfsemin flutt í Kjarnalund. Undanfarin ár hefur verið rekið gistiheimili og skóli í Skjaldarvík, en rekstri gistiheimilisins var hætt á árinu 2022.
Hluti jarðarinnar hefur verið leigður út sem beitarland fyrir hesta, en landrými nemur um 189 hekturum, þar af eru 61,5 hektarar ræktað land. Þá er umhverfis- og mannvirkjasvið að skoða hvort möl sé á svæðinu, væntanlega með malarnám í huga.
Húsakostur
- Einbýlishús á tveimur hæðum, samtals 242,5 fermetrar, byggt árið 1950. Húsið þarfnast heildarendurnýjunar eða að verða rifið.
- Fasteignin Skjaldarvík, áður dvalarheimili, skiptist í norðurálmu, suðurálmu, miðálmu og austurálmu. Húsið er á tveimur hæðum, byggt á árunum 1933 til 1971, samtals 1.867 fermetrar. Í húsnæðinu eru 35 herbergi, öll fremur lítil, frá sex upp í 14 fermetrar að stærð, en flest á bilinu 9-11 fermetrar.
- Á jörðinni eru fjós, kálfahús og hlaða, samtals 560 fermetrar, byggð árið 1958.
- Hlíðarskóli hefur þrjár byggingar til afnota, einbýlishús, skólahús og verkgreinahús. Ástand skólahúsnæðisins er sagt nokkuð gott en bæta þurfi verkgreinahús til að uppfylla öryggi hvað varðar tækjabúnað og útloftun. Rætt hefur verið um að breyta aðkomu að skólanum til að aðgreina þá umferð frá annarri starfsemi á svæðinu. Kostnaðargreining á nýrri aðkomuleið hefur þó ekki farið fram.
- Stærðir á húsnæði sem Hlíðarskóli hefur til afnota: Skjöldur, íbúðarhús á einni hæð, er 182 fermetrar, skólinn sjálfur 364 fermetrar og verkgreinahús 126 fermertrar.