Skiptinemar verða hluti af lífinu til frambúðar
„Ég hafði samband við skrifstofu AFS fyrir sunnan og sagði að það myndi berast umsókn frá ungri stúlku frá Ekvador sem héti Dýrleif, og væri dóttir skiptinema sem við hefðum tekið að okkur áður. Þetta fannst þeim alveg stórkostlegt, og auðvitað fengum við Dillitu litlu til okkar,“ segir Dýrleif Skjóldal brosandi, þar sem hún situr með nöfnu sinni frá Ekvador og eiginmanninum Rúnari Arasyni.
Það er skemmtileg saga á bak við það, hvernig nöfnurnar Dýrleif og Dýrleif eru saman komnar í Arnarsíðu og Dillita (Dýrleif yngri) er komin til þess að vera hjá íslensku fjölskyldunni sinni í tæpt ár sem skiptinemi.
Hér birtist síðari hluti viðtalsins við Dýrleifu, Dýrleifu og Rúnar.
Pabbi Dillitu; Ivan tekur mynd af fjölskyldunni sem hefur sest að snæðingi í heimsókn Dillu og Rúnars til Suður-Ameríku. Ivan kom sjálfur sem skiptinemi til hjónanna fyrir tuttugu árum síðan. Mynd: úr einkasafni.
Dillita stundar nám við Menntaskólann á Akureyri, eins og pabbi hennar fyrir tuttugu árum síðan. „Ég er mjög glöð að vera komin,“ segir Dillita. „Akureyri er svo fallegur bær og það er svo gott að vera hérna með Dillu og Rúnari eftir að hafa þekkt þau alla tíð. Ég er reyndar ennþá að reyna að venjast veðrinu hérna, mér er svolítið kalt!“
Það var alveg svolítið erfitt að fara að heiman, en ég er heppin að fá tækifæri til þess að koma hingað til Dillu og Rúnars, sem ég þekki og á í góðu sambandi við
Dillita segist hafa heyrt sögur af nöfnu sinni og fjölskyldunni á Íslandi frá því að hún man eftir sér, pabbi hennar hafi verið duglegur að segja henni frá lífinu í norðri. „Dilla sagði mér að ég yrði að læra ensku, svo að við gætum talað saman. Hún kom svo í heimsókn fyrir tíu árum og svo komu þau bæði í útskriftina mína síðasta vor. Það var alveg svolítið erfitt að fara að heiman, en ég er heppin að fá tækifæri til þess að koma hingað til Dillu og Rúnars, sem ég þekki og á í góðu sambandi við,“ segir Dillita á góðri ensku. Hún er aðeins byrjuð að spreyta sig á íslenskunni, og verður eflaust enginn eftirbátur pabba síns í þeim efnum.
Eftirminnileg ferð til Ekvador og Galapagos
„Við Rúnar fórum einmitt síðasta vor og mættum í útskrift Dillitu, og vorum í þrjár vikur,“ segir Dilla. „Við ferðuðumst um landið og skoðuðum okkur um alla Ekvador og Galapagos með Ivan og fjölskyldu. Rúnar komst að því að vegirnir í Ekvador eru verri en á Íslandi. Þú ert bara alltaf á Vaðlaheiðarvegi. Þetta er upp og niður fjöll endalaust og fólk er ekkert að passa sig mikið. Þeir keyra bara á miðjum veginum þess vegna og bruna framúr í svartaþoku. Rúnar tuðaði ekkert yfir veginum eða akstrinum á leiðinni heim frá Keflavík eftir þessa ferð,“ segir Dilla hlæjandi.
Ivan, Rúnar, Gaby, kona Ivans og móðir Dillitu, og Dillita í skoðunarferð í Ekvador. Mynd úr einkasafni
Lífrænt kakó, andlitsmálunardans og kommúnistahimnaríki
„Það var svo áhugavert að ferðast um og skoða Ekvador,“ segir Dilla. „Við fórum til dæmis og skoðuðum indíánaþorp og fengum að kynnast lífinu þar. Á einum stað var verið að varðveita plöntur og dýr og vinna náttúrulyf. Annarsstaðar vorum við kynnt fyrir indíánadönsum og vorum máluð í framan og dönsuðum með. Við fengum að sjá þegar lífrænt kakó er unnið, allt frá ökrunum til þess að kakóið er unnið úr baununum. Við fengum svo glænýja banana til þess að dýfa í nýlagað súkkulaðið og það var svakalega gott. Það samfélag var svona sjálfbært og allar tekjur sem komu inn fóru í samfélagið. Allir jafnir, sama hvað fólk var að gera. Algjört kommúnistahimnaríki!“ Fyrir þá lesendur sem ekki vita, á Dilla að baki stjórnmálaferil hjá Vinstri grænum og hefur meðal annars setið á þingi.
Náin kynni við lífrænar kakóbaunir er eitt af fjölmörgu sem er eftirminnilegt frá ferðalaginu. Mynd úr einkasafni
„Það var líka ofboðslega gaman að hitta loksins mömmu hans Ivans,“ rifjar Dilla upp. „Hún hafði stundum hringt hérna þegar Ivan var hjá okkur fyrir tuttugu árum og hún talar bara spænsku. Og hún talar hana bæði á inn- og útsoginu! Ef hann var ekki heima, þá lét hún það ekkert stoppa sig og talaði og talaði bara við mig í staðinn á spænsku. Ég skildi ekki neitt og fór alltaf bara að hlæja í símann. Hún hló með mér og svo sögðum við bara bless bless og skelltum á.“ Dilla segir að fólk í Ekvador sé líkt Íslendingum með það, að stórfjölskyldan heldur vel saman, þannig að þau kynntust fjöldanum öllum af skyldmennum litlu fjölskyldunnar í ferðum sínum til Ekvador.
Ömmur og afar úr sitthvoru heimshorninu. Dilla og Rúnar eru hérna með foreldrum Ivans; Margot og Ivan eldri. Mynd úr einkasafni.
Ólíkar matarvenjur, kjötsúpur og pöddur
„Þegar það kemur snjór, verður það í fyrsta skipti sem ég sé snjó á ævinni,“ segir Dillita. „Ég er bæði spennt og svolítið kvíðin fyrir því. Svo finnst mér maturinn hérna mjög fínn, nema kjötsúpa, ég get ekki borðað hana. En ég elska skyr!“
Íslensk matseld er mjög ólík því sem Dillita er vön í Ekvador. „Maturinn í Ekvador er ólíkur eftir héruðum, en við borðum til dæmis naggrísi sem eru grillaðir á teini úti á götu.“
Dilla eldri hlær mikið þegar við tölum um matinn, en hún var mjög hugrökk að smakka allskyns framandi mat þegar þau fóru í heimsókn. „Ég smakkaði einhverja grillaða flugu sem átti að vera agalega góð fyrir mig, og ég kúgaðist alveg. Hún var risastór og slepjuleg.“ Það getur vel verið að suðrænu fólki þyki ekkert spennandi að borða súra hrútspunga, svona til samanburðar.
Herramannsmatur! Pöddurnar sem Dilla prófaði að smakka og þykja frábært götusnakk í Ekvador. Spurning hvort þetta myndi seljast vel í Göngugötunni á Akureyri! Á myndinni til hægri hefur Dillu greinilega tekist að vingast við apakött. Myndir: úr einkasafni.
Áhugavert að kynnast fólkinu á Íslandi
Dillita segir að henni þyki Íslendingar svolítið ólíkir fólki á hennar heimaslóðum. „Fólk frá latnesku Ameríku er gjarnan mjög opið og skrafhreifið,“ segir hún. „Það er öðruvísi hér, finnst mér. Þið eruð aðeins lokaðri og ég hef ennþá ekki séð fólk faðmast í skólanum, til dæmis. Fólk er samt mjög góðhjartað, og mér finnst gaman og áhugavert að kynnast lífinu hérna.“
Annað, sem er svo frábært við það, að taka að sér skiptinema, er að maður lærir svo mikið um ólíka menningu, og það sem meira er – margt um mann sjálfan líka
Dillita fékk að kynnast haustinu á Íslandi á hefðbundinn hátt. Með kindabrasi og berjamó. Myndir úr einkasafni
Lærdómsríkt að taka að sér skiptinema
„Þegar maður nær svona góðum tengslum við skiptinema, þá eru þeir ekkert bara eitt ár og farnir,“ segir Dilla eldri, sem á nú órjúfanleg tengsl þvert yfir hnöttinn. „Þeir verða hluti að lífinu og eru það til frambúðar. Núna er svo allt annað að halda sambandi heldur en það var, það er hægt að spjalla eins og mann lystir á netinu og bjóða í myndsímtöl og allt mögulegt. Annað, sem er svo frábært við það, að taka að sér skiptinema, er að maður lærir svo mikið um ólíka menningu, og það sem meira er – margt um mann sjálfan líka.“
„Svo er líka bara svo gaman að fá einhvern nýjan inn á heimilið til þess að tala við! Ekki bara sitja eins og steikt hæna fyrir framan sjónvarpið öll kvöld,“ bætir Dilla hlæjandi við að lokum.
Skiptinemaforeldrar læra margt um ólíka menningu, og eins margt um sjálfa sig, segir Dýrleif Skjóldal, skiptinemamamma, og amma! Hér er hún með Rúnari sínum, en þau hafa alls tekið að sér sjö skiptinema. Mynd: Facebook.