Fréttir
Skiptimarkaður með íþróttaföt og fleira
14.09.2024 kl. 10:00
Allt sem tengist íþróttaiðkun eða frístundastarfssemi barna er velkomið á skiptimarkað Amtsbókasafnsins. Mynd: Unsplash/@saif71
Amtsbókasafnið á Akureyri ætlar að halda áfram með mánaðarlega skiptimarkaði í vetur. Í september verður hann helgaður frístundaiðkun og íþróttum barna og verður haldinn í næstu viku, hefst á mánudaginn og lýkur sunnudaginn 22. september.
Markaðurinn verður á borðunum inni í kaffiteríu bókasafnins og er fólki frjálst að koma með eitthvað á markaðinn án þess að taka neitt í staðinn og öfugt. Óskað er eftir hvers konar fatnaði eða búnaði sem börn nota í frístundar- eða íþróttastarf. Það sem ekki gengur út á markaðinum verður gefið á Rauða krossinn.
Dæmi um hluti sem hægt er að koma með:
- Sundgleraugu
- Fimleikaföt
- Fatnaður eða annað merkt félögunum
- Fótboltaskór
- Innanhússkór
- Stuttbuxur
- Sundföt
- Skautar
- Ullarföt undir skíðaföt
- Skíðastafir
- Dansfatnaður