Skiltum fjölgar í Kjarna og Glerárdal
Unnið er að uppsetningu skilta og yfirlitskorta fyrir gönguleiðirnar milli Kjarnaskógar og Glerárdals og fóru fyrstu skiltin af samtals 11 skiltum upp í gær við hitaveituskúrana þar sem gönguleiðin upp að Fálkafelli byrjar. Akureyrarbær segir frá þessu á heimasíðu sinni og þar með að sambærileg yfirlitskort verði sett upp í sumar við öll helstu gatnamót og bílastæði í Kjarnaskógi, að Hömrum, í Naustaborgum og við bílastæðið við rætur Súlna. „Vel er við hæfi að byrja verkefnið við upphaf Fálkafellsleiðarinnar þar sem mikil aukning hefur orðið í göngu á þeirri leið, m.a. fyrir tilstilli sjálfsprottna verkefnisins 100 ferðir í Fálkafell.“
Auk skiltanna verður upplýsingagjöf á gönguleiðunum aukin með vegvísum á helstu gatnamótum til að auðvelda fólki að rata um svæðið og gera sér grein fyrir vegalengdum. Á skiltunum eru QR-kóðar sem hægt er að nýta til að fræðast enn frekar um gönguleiðirnar, skoða myndir, erfiðleikastig, hækkun og fleira. Margar gönguleiðanna eru komnar inn á halloakureyri.is, en vinna stendur yfir við fleiri gönguleiðir sem bætas við síðar í sumar.
Þá hafa einnig verið sett upp fræðsluskilti um sögu hitaveitu á Akureyri en saga hitaveitunnar hefst einmitt í námunda við upphaf gönguleiðarinnar að Fálkafelli.
Að verkefninu koma Akureyrarbær, Ferðafélag Akureyrar, Minjasafnið á Akureyri, Skógræktarfélag Eyfirðinga, Hamrar útilífsmiðstöð skáta auk Norðurorku með veglegum styrk frá SSNE. Blek ehf. sá um hönnun skiltanna.
Mögulegt er að prenta út gönguleiðakortið - sjá hér.