Skattaskýrslan – góð ráð frá reyndum bókara

Einstaklingar hafa dagana 28. febrúar til 14. mars til að skila inn skattaskýrslu sinni. Akureyri.net heyrði í Eygló Ólafsdóttur, bókara hjá Grófargili bókhaldsþjónustu, sem hefur 35 ára reynslu í faginu. Hún gefur hér lesendum góð ráð varðandi hvað ber að hafa í huga við skattaskil og ræðir hvernig ferlið hefur breyst í gegnum árin.
„Það er algengt að fólk kvíði því að fylla út skattaskýrsluna, en í flestum tilfellum er þetta orðið mjög einfalt,“ segir Eygló. „Upplýsingarnar sem eru komnar inn á framtalið í dag eru mjög nákvæmar og flestir þurfa í raun ekki að hafa miklar áhyggjur. Við sjáum nú þegar upplýsingar um laun, bankareikninga, fasteignir og jafnvel bílakaup á framtalinu.“
Eygló bendir þó á að fólk eigi alltaf að yfirfara skattframtalið sitt áður en það samþykkir það. „Þó að skattframtalið sé forfyllt af Skattinum, er það ábyrgð hvers einstaklings að ganga úr skugga um að allar upplýsingar séu réttar,“ segir hún. „Það getur verið að einhverjar tekjur eða fjárfestingar vanti, sérstaklega ef fólk hefur keypt verðbréf eða átt viðskipti erlendis á árinu.“
Miklu skilvirkara og einfaldara ferli í dag
Eygló hefur starfað sem bókari í 35 ár, þar af í 21 ár hjá Grófargili, og hefur upplifað miklar breytingar í sínu fagi.
„Þegar ég byrjaði í þessu var allt gert á pappír, launaseðlar voru handskrifaðir og bókhald var fært í bókhaldsvélum,“ segir hún og hlær. „Fólk þurfti að skila skattframtali á pappír og var stundum með kassa af gögnum!“
Með tilkomu stafrænnar skattaskýrslugerðar hefur ferlið orðið einfaldara og skilvirkara. „Í dag eru allar helstu upplýsingar forskráðar af Skattinum, og fólk getur borið saman framtalið við launaseðla og bankareikninga á netinu. Þetta sparar gríðarlegan tíma og dregur úr villum,“ segir hún.
Þrátt fyrir þetta minnir hún á að þó að kerfið sé orðið betra, séu ennþá mannleg mistök möguleg, bæði hjá einstaklingum og skattayfirvöldum. „Það er alltaf nauðsynlegt að yfirfara framtalið og tryggja að allar upplýsingar séu réttar áður en það er sent inn,“ bætir hún við.
Þó að skattframtalið sé forfyllt af Skattinum, er það ábyrgð hvers einstaklings að ganga úr skugga um að allar upplýsingar séu réttar. Það getur verið að einhverjar tekjur eða fjárfestingar vanti, sérstaklega ef fólk hefur keypt verðbréf eða átt viðskipti erlendis á árinu.
Borgar sig að skila tímanlega
Almenningur hefur frest til 14. mars til að skila inn skattframtali og Eygló leggur áherslu á að það borgi sig að skila skattframtalinu innan skilafrests. Dragist það þá getur það haft fjárhagsleg áhrif og nefnir hún sem dæmi að Skatturinn geti áætlað skattgreiðslur á fólk, þá getur fólk þurft að bíða lengur eftir endurgreiðslu frá Skattinum, ef það á rétt á slíku, og ef skattaskýrsla berst mjög seint getur fólk þurft að greiða dráttarvexti á vangreidda skatta.
„Ef þú skilar framtalinu of seint og skattayfirvöld ná ekki að afgreiða það fyrir álagningu, þá verður skatturinn áætlaður. Það þýðir að þú gætir þurft að greiða hærri skatt fyrst og fá leiðréttingu síðar,“ útskýrir hún. „Það getur verið fyrirhöfn og kostnaðarsamt, svo það borgar sig að skila á réttum tíma.“
„Þó að skattframtalið sé forfyllt af Skattinum, er það ábyrgð hvers einstaklings að ganga úr skugga um að allar upplýsingar séu réttar,“ segir Eygló Ólafsdóttir sem starfar hjá Grófargili bókhaldsþjónustu.
Algeng mistök að yfirfara ekki
Aðspurð um algeng mistök hjá fólki við skattaskýrslugerð segir hún að algengasta gildran sem fólk fellur í er að samþykkja skattaskýrsluna án þess að yfirfara hana almennilega. „Við erum svo vön því að smella bara á samþykkja í hinu og þessu að við gleymum að yfirfara gögnin,“ útskýrir Eygló. Hún hvetur fólk til að líta yfir liðið ár og rifja upp hvort einhverjar breytingar urðu á fjármálunum.
Til dæmis getur fólk spurt sig eftirfarandi spurninga:
- Hefur þú keypt eða selt eign?
- Hefur þú fjárfest í verðbréfum eða átt viðskipti erlendis?
- Hefur verið breyting á fjölskylduaðstæðum, t.d. makamissir eða er komið nýtt barn á heimilið?
„Skatturinn býður upp á ívilnanir og frádrátt í sumum tilfellum, en fólk þarf yfirleitt að sækja um það sjálft. Ef þú misstir maka eða ert með aldraðan foreldri á framfæri, gætir þú t.d. átt rétt á lækkun á skattstofni,“ segir Eygló.
Framtalsgerð orðin einföld
Eygló segir að flestir einstaklingar þurfi ekki á bókara eða endurskoðanda að halda við skattaskýrslugerðina nema þeir séu með sjálfstæðan rekstur á eigin kennitölu. Þó eru alltaf einhverjir sem finnst skattframtalið kvíðvænlegt og vilja fá bókara til þess að yfirfara það. „Venjulegir launþegar þurfa sjaldnast að koma til okkar, því framtölin þeirra eru með forskráðum upplýsingum og tiltölulega einföld. Hins vegar, ef fólk er með eigin rekstur eða aukatekjur, gæti það þurft aðstoð við að tryggja rétt skattauppgjör.“ Að lokum bendir Eygló á að þó að Skatturinn geri margar sjálfvirkar lagfæringar, er ábyrgðin alltaf hjá einstaklingnum. „Ef þú gerir mistök eða gleymir að skrá eitthvað inn, getur þú óskað eftir leiðréttingu síðar. En það borgar sig alltaf að yfirfara allt vel áður en framtalið er sent inn,“ segir hún að lokum.