Fara í efni
Íþróttir

Skapti og Ingvar fengu gullmerki ÍBA

Fengu gull! Skapti Hallgrímsson blaðamaður og ritstjóri Akureyri.net, til vinstri, og Ingvar Gíslason, fyrrverandi formaður KA.

Ingvar Gíslason fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags Akureyrar og Skapti Hallgrímsson, blaðamaður og ritstjóri Akureyri.net, voru sæmdir gullmerki Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) á ársþingi þess í síðustu viku. Geir Kristinn Aðalsteinsson, fráfarandi formaður ÍBA, fékk einnig gullmerki bandalagsins í barminn eins og Akureyri.net hefur þegar greint frá.

Á þinginu voru einnig heiðraðir Guðmundur Bjarnar Guðmundsson og Sveinn Torfi Pálsson sem hafa verið skoðunarmenn reikninga ÍBA síðan 2008. Þeir hlutu silfurmerki ÍBA fyrir störf sín.

Starfað fyrir KA frá barnæsku

„Ingvar Már Gíslason er gegnheill og glerharður KA maður sem hefur starfað fyrir félag sitt frá barnæsku, bæði sem iðkandi, þjálfari og svo stjórnarmaður. Ingvar hefur starfað sem stjórnarmaður knattspyrnudeildar KA, og sem gjaldkeri deildarinnar. Síðar meir gegndi hann formennsku aðalstjórnar félagsins og gerði það með glæsibrag,“ segir í umsögn ÍBA.

„Ingvar tók rekstur félagsins föstum tökum þegar hann tók við sem formaður KA 2018. Stór verkefni biðu hans sem formanns, m.a. uppbyggingamál félagsins. Ingvar var gerður að heiðursfélaga KA í fyrra.

Ingvar hefur alltaf verið boðinn og búinn að sinna sjálfboðaliðastarfi fyrir KA, sama hversu stórt eða lítið sem verkefnið er. Hvort sem það er að koma að starfsmannamálum, samningagerð eða hreinlega að moka snjó úr stúkunni, þá er hann alltaf klár. Hann kemur úr mikilli KA fjölskyldu og hafa bræður hans einnig sinnt ýmsum störfum fyrir KA.

Við hjá ÍBA höfum svo sannarlega notið liðsinnis Ingvars Más í gegnum árin. Hann hefur setið í nefndum á vegum bandalagsins, auk þess sem hann hefur undanfarin ár stýrt íþróttahátíðinni okkar í Hofi þegar við krýnum íþróttafólk ársins, og svo er það að verða að hefð að Ingvar sé þingforseti hér á ársþingi ÍBA.“

Blaðamaður og ljósmyndari í 45 ár

Skapti Hallgrímsson hlýtur gullmerki ÍBA „fyrir framlag sitt til íþrótta á Akureyri og þá ekki síst fyrir mikla og góða fjölmiðlaumfjöllun um íþróttalífið í bænum,“ segir í tilkynningu ÍBA. Skapti ólst upp á Eyrinni, „faðir hans, Hallgrímur Skaptason, var grjótharður Þórsari, eins og reyndar flestir á Eyrinni á þeim tíma, svo ekki var nema ein leið fær á íþróttasviðinu. Þess má til gamans geta að faðir Skapta sat í stjórn ÍBA í þónokkur ár.“

Skapti byrjaði ungur að taka myndir af íþróttaviðburðum á Akureyri – „fyrst 1975, þá 13 ára, þannig að snemma beygðist krókurinn. Hann var ráðinn íþróttafréttaritari Morgunblaðsins á fyrsta ári í Menntaskólanum á Akureyri og hefur verið að síðan!“

Síðan segir: „Hann skrifaði og myndaði fyrir Moggann öll menntaskólaárin fjögur. Var ráðinn í sumarvinnu á íþróttadeild Moggans í Reykjavík strax eftir stúdentspróf og fastráðinn um haustið. Varð fréttastjóri íþrótta 25 ára og sinnti því starfi í rúmlega áratug. Hann var formaður Samtaka íþróttafréttamanna í álíka langan tíma.“

Skapti vann á Morgunblaðiðinu „í 36 viðburðarík ár – þar til haustið 2018. Vakti svo vefmiðilinn Akureyri.net til lífsins haustið 2020, eignaðist miðilinn og ritstýrir honum í dag. Akureyri.net birtir alla daga ársins fjölbreytt efni um Akureyri og Akureyringa og sinnir íþróttum einstaklega vel.“