Fara í efni
Fréttir

Sjókvíaeldi ætti að vera óheimilt í Eyjafirði

„Eyjafjörðurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir stofna sjóbleikju. Sjókvíaeldi myndi gera endanlega út um sjóbleikjustofna þar og einnig hafa neikvæð áhrif á aðra ferskvatns- fiska. Sjókvíaeldi í Eyjafirði ætti því að vera óheimilt með öllu!“

Þetta segir í grein sem birtist á Akureyri.net í dag, þar sem nokkur veiðifélög, samtök, stofnanir og fyrirtæki lýsa yfir miklum áhyggjum, af áformum Kleifa fiskeldis um stórfellt sjókvíaeldi í Eyjafirði.

Í greininni segir meðal annars:

  • Kleifar lofa því að fiskurinn verði ófrjór og „hafi ekki burði til þess að synda langt“. Þessi fullyrðing á sér enga stoð í raunveruleikanum.
  • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sögðu haustið 2023 að laxarnir sem sluppu úr kví í Patreksfirði myndu ekki synda langt og halda sig nálægt kvínni. Þetta var rétt áður en þeir fóru að sjást í ám í meira en 400 km fjarlægð, meðal annars í Fjallabyggð og Eyjafirði.
  • Kleifar fullyrða að fiskurinn sem notaður verði í starfseminni sé ófrjór; verið sé að þróa aðferð til gera fisk ófrjóan. Þetta sé hins vegar ekki nýtt af nálinni, árið 2019 hafi aðferðin verið kölluð ný og byltingarkennd en fimm árum síðar sé enn stefnt að þessu og sagt nýtt og byltingarkennt.
  • Jafnvel þó að fiskurinn yrði ófrjór, leysir það aðeins eitt vandamál og það er erfðablöndun við villta laxastofna. Lúsin, mengunin, eiturefnin, skaði á líffræðilegum fjölbreytileika og ímyndaráhrifin eru þó enn til staðar.
  • Lúsafaraldrar sem eru nær daglegt brauð í sjókvíaeldi herja ekki aðeins á laxinn heldur einnig á skylda fiska líkt og bleikju og sjóbirting. Sjókvíaeldi gæti orðið þeirra banabiti. 
  • Þó að laxinn sé ófrjór mun samt sem áður allur skítur falla til botns og hafa áhrif á sjávarlíf. Samkvæmt norsku umhverfisstofnuninni jafngildir mengun frá 20.000 tonna sjókvíaeldi mengun frá 320.000 manna byggð. 
  • Ef sveitarstjórnum á svæðinu er virkilega umhugað um fólkið sitt og uppbyggingu ættu þær að horfa til þeirra hlunninda sem hljótast af lax- og silungsveiðiám á svæðinu. 
  • Í Fjallabyggð, og í raun um allt Norðurland hefur ferðaþjónusta blómstrað undanfarin ár. Fólk kemur alls staðar að til að upplifa fallega náttúru og allt sem hún hefur uppá að bjóða. 
  • Tæplega 70% þjóðarinnar eru á móti sjókvíaeldi skv. könnun Gallup í júlí á þessu ári. Í norð-austur kjördæmi eru aðeins 21% jákvæð í garð sjókvíaeldis.

Greinin er skrifuð í nafni Stangaveiðifélags Akureyrar, Stangaveiðifélagsins Flúða, Veiðifélags Fnjóskár, Veiðifélags Eyjafjarðarár, Veiðifélags Hörgár, Fiskirannsókna ehf, félagsskapar sem kallast Bleikjan - Styðjum stofninn, SUNN - Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, Landssambands veiðifélaga, NASF – Verndarsjóðs villtra laxastofna og Íslenska náttúruverndarsjóðsins – IWF.

Smellið hér til að lesa greinina