SNORRI SIGFÚS BIRGISSON„Rætur verksins liggja
víða“ segir tónskáldið
Snorri Sigfús samdi Konsert nr. 2 fyrir hljómsveit með hléum á árunum 2020 til 2024 fyrir Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að beiðni hljómsveitarinnar. Verkið er í þremur köflum. „Rætur þess liggja víða en ég hafði meðal annars til hliðsjónar stemmu sem Þorbjörn Kristinsson (1918–2001) kvað en Þorbjörn var um árabil barnaskólakennari við Glerárskóla,“ segir tónskáldið í efnisskrá tónleikanna.
Hljóðritun er aðgengileg á netinu (ismus.is), segir hann. „Stemmuna sem ég hafði í huga við samningu verksins kvað Þorbjörn við eftirfarandi vísu eftir bróður sinn, Hjörleif Kristinsson (1918–1992),“ segir Snorri Sigfús. Stemman er þessi:
Dags er glæta þrotinþá þokan vætir kinnar.Skjóna fætur skripla áskuggum næturinnar.
Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan hann kom heim frá námi 1980. Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. Hann er félagi í CAPUT hópnum.
_ _ _
DMÍTRÍJ SHOSTAKOVÍTSJ
Konsertinn saminn á
tíma pólitísks álags
Dmítríj Shostakovítsj (1906–1975) var eitt af þekktustu og áhrifamestu tónskáldum 20. aldar. „Hann fæddist í Sankti Pétursborg í Rússlandi og sýndi snemma tónlistarhæfileika, og hann hóf nám við tónlistarakademíu borgarinnar aðeins þrettán ára að aldri. Fyrsta sinfónía hans, sem hann samdi tvítugur, vakti strax alþjóðlega athygli og hlaut lof gagnrýnenda fyrir frumleika og listrænt hugrekki,“ segir í efnisskránni.
Fiðlukonsert nr. 1 í a-moll, op. 77, eftir Shostakovítsj „er eitt af áhrifamestu verkum hans fyrir einleiksfiðlu. Hann samdi konsertinn árið 1947–1948, á tíma pólitísks álags, en vegna stöðugra eftirlits frá sovéskum stjórnvöldum var frumflutningi hans frestað og fór ekki fram fyrr en árið 1955, eftir dauða Stalíns. Verkið var helgað fiðluleikaranum David Oistrakh, sem þótti túlka það það af óviðjafnanlegri dýpt.“
„Konsertinn skiptist í fjóra hluta, hver með sinn eigin sérstaka persónuleika. Fyrsti kaflinn, Nocturne, hefur lágstemmdan, draumkenndan blæ þar sem Shostakovich skapar djúpan, innhverfan hljóðheim. Annar kaflinn, Scherzo, er fullur af fjörugu háði og óróleika, þar sem tónskáldið spilar með léttleika og kaldhæðni sem margir telja vísun til samfélagslegrar gagnrýni. Þriðji kaflinn, Passacaglia, er hjartnæmur og hádramatískur, þar sem endurtekin bassalína ber fiðluleikarann áfram í áhrifamikla, tilfinningaþrungna þróun. Lokakaflinn, Burlesque, er fjörugur og kraftmikill, og sýnir bæði listræna færni einleikarans og töfra verksins í heild sinni.“
_ _ _
Hugleiðing um fegurðina sem
Jóhann færði heiminum
„Í kjölfar ótímabærs andláts Jóhanns Jóhannssonar árið 2018 hóf ég að skissa upp verk fyrir hljómsveit til minningar um hann. Upphaflega sá ég það fyrir mér sem hluta af stærra verki sem ég var að vinna að, en ég fann því að lokum ekki stað þar og lagði uppkastið því til hliðar,“ segir Daníel. „Nokkrum árum síðar, þegar Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar bauð mér að taka þátt í verkefni sem kannaði víðfeðmt vistkerfi hafsins og þá viðkvæmu von sem við berum um framtíð jarðarinnar, fannst mér rétti tíminn kominn til að dusta rykið af þessari skissu. Hún varð upphafspunkturinn að þessu nýja verki. Í gegnum allt ferlið var Jóhann í huga mér og áhrif hans eru til staðar í allri tónsmíðinni. Á einum stað má til dæmis heyra óbeina tilvísun í verk hans Odi et Amo úr Englabörnum.“
Daníel heldur áfram: „Þótt við værum ekki nánir vinir unnum við stundum saman og milli okkar ríkti ávallt hlýhugur og gagnkvæm virðing og aðdáun. Jóhann bjó yfir þeim ótrúlega hæfileika að geta ferðast á milli ólíkra tónlistarheima og brugðið sér í mismunandi gervi án þess að glata nokkru sinni eigin rödd eða persónuleika. Aðdáun mín á verkum hans jókst með árunum og andlát hans var mér mikið áfall. Fragile Hope er mín leið til að minnast Jóhanns – hugleiðing um fegurðina sem hann færði heiminum, jafnt í ljósi sem skugga.“
Daníel Bjarnason lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH vorið 2000. Sama ár hóf hann nám í tónsmíðum og hljómsveitarstjórn við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi í hvoru tveggja vorið 2003. Daníel stundaði framhaldsnám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi frá 2004–2007. Hann var staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árunum 2015–2018 og aðalgestastjórnandi árin 2019–2021, en starfar nú með sveitinni sem „listamaður í samstarfi“ (Artist in Association). Daníel hefur unnið með og fengið verk sín flutt af fjölda hljómsveita og má þar nefna, auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Fílharmóníusveitirnar í Los Angeles, New York og Helsinki, og Sinfóníuhljómsveitirnar í Toronto, Tókýó, Gautaborg, Melbourne, Berlín, Zurich, San Francisco, London, Vín og svo mætti áfram telja. Hann hefur gefið út plötur hjá fjölda fyrirtæki erlendis.
_ _ _
MAURICE RAVEL
Margir kynntust Boleró
vegna Torvill og Dean
Frakkinn Ravel (1875–1937) er sérstaklega þekktur fyrir píanótónlist sína og stór hljómsveitarverk en Boléro er þó hans þekktasta verk, samið árið 1928.
Þótt Boléro sé í raun einfalt í smíðum er það ekki endilega auðvelt í flutningi, segir í efnisskránni. „Stundum er það kallað Everesttindur sneriltrommuleikarans. Það er vegna þess að taktur snerilsins er hryggjarstykki Boléro í 17 mínútur.“ Maurice Ravel á að hafa sagt: „Ég hef samið eitt meistaraverk, og það er Boléro. Því miður er engin tónlist í því.“ Hann átti þar við að innihald verksins er ekki mjög fjölbreytt hvað stefjaþróun varðar. „Í því hljómar grípandi stef sem leikið er aftur og aftur alla lengd verksins, en með nýjum og nýjum hljóðfærum í hverjum umgangi og með vaxandi styrkleika allt að dramatíska lokahljómnum.“
Verkið fór í gegnum endurnýjun lífdaga árið 1979 þegar það var notað í kvikmyndasmellinum 10, sem skartaði Bo Derek og Dudley Moore í aðalhlutverkum. „Það gerði það að verkum að Ravel var um tíma metsöluhöfundur 40 árum eftir að hann lést. Á vetrarólympíuleikunum 1984 hlaut breska dansparið Jayne Torvill og Christopher Dean gullverðlaun fyrir listdans á skautum. Atriði þeirra var samið við 8 mínútna bút af Boléro. Flestir sem eru á miðjum aldri í dag kynntust verkinu við að horfa á þetta fræga dansatriði.“
_ _ _
GRETA SALÓME STEFÁNSDÓTTIR
Konsertmeistarinn
er einleikari í dag
Greta Salóme Stefánsdóttir er konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands en Guðbjartur Hákonarson tekur við því hlutverki að þessu sinni þar sem Greta Salóme er einleikari í fiðlukonsert Dmítríj Shostakovítsj eins og áður kom fram.
Greta Salóme hóf tónlistarnám aðeins fjögurra ára gömul þar sem hún lærði á fiðlu í Suzukitónlistarskólanum í Reykjavík. Hún fór svo yfir í
Tónlistarskólann í Reykjavík 12 ára gömul og lærði þar undir leiðsögn Guðnýjar Guðmundsdóttur, fyrrverandi konsertmeistara.
„Greta Salóme stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík samhliða því að vera í bachelornámi í fiðlu við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2008. Hún stundaði einnig nám við Stetson University í Flórída þar sem hún lærði hjá fiðluleikaranum Routu Kromovitch. Greta Salóme hefur komið víða við og árið 2012 vann hún Söngvakeppni Sjónvarpsins með frumsamið lag sem heitir Never Forget. Sama ár útskrifaðist hún með meistaragráðu í tónlist frá Listaháskóla Íslands og keppti í Eurovision í Aserbaísjan fyrir Íslands hönd. Greta Salóme starfaði svo í Sinfóníuhljómsveit Íslands á árunum 2008 – 2018 og tók við sem konsertmeistari í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands árið 2014,“ segir í efnisskrá tónleikanna.
_ _ _
Efnisskráin er á vef Menningarfélags Akureyrar. Smellið á forsíðu hennar hér að neðan til að sjá alla efnisskrána.