Silja glímir við afleiðingar heilahristings
Silja Jóhannesdóttir, hjólreiðakona úr Hjólreiðafélagi Akureyrar og ein af fremstu hjólreiðakonum landsins, keppti á heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum sem fram fór í Skotlandi í byrjun ágúst og var að undirbúa sig fyrir þátttöku á Evrópumótinu þegar hún lenti í árekstri við annað reiðhjól á göngustígnum við Drottningarbraut, rétt norðan við göngubrúna framan við Samkomuhúsið.
Rætt var við Silju í íþróttafréttum Sjónvarpsins á sunnudagskvöldið þar sem hún lýsti afleiðingum slyssins. Silja hlaut þungt höfuðhögg og fékk heilahristing. Hún var flutt á sjúkrahús, en fékk að fara heim samdægurs þar sem hún slapp við höfuðkúpubrot.
Silja lýsti því í viðtalinu í Sjónvarpinu að hélt sig geta hrist þetta af sér, en sú varð þó ekki raunin. Nú er um einn og hálfur mánuður frá slysinu og Silja enn að fást við mikil einkenni eftir heilahristinginn, hefur verið með nær stanslausan höfuðverk frá slysinu, mjög þreytt, hefur ekkert úthald, sljó, viðkvæm fyrir áreiti, ljósi, hljóði og mjög tilfinningalega viðkvæm.
Sjá viðtalið í heild í umfjöllun á ruv.is: