Fara í efni
Mannlíf

Silfrið rýkur út í Vogue: Skyldi'ða vera VÆB?

Andrea Brá Hlynsdóttir og Kristín Þöll Þórsdóttir standa vaktina í Vogue í dag. Hér eru þær með allra síðasta silfurefnið sem er til. Mynd: RH

Öskudagurinn rennur upp á morgun, og um allan bæ er unga kynslóðin að undirbúa búninginn sinn. Kristín Þöll Þórsdóttir og Andrea Brá Hlynsdóttir í Vogue segja að á hverju ári aukist sala í metravöru fyrir öskudaginn, en það eru greinilega mörg sem sauma búninga með krökkunum sínum heima. „Í ár erum við bókstaflega tilbúnar með silfurlituðu efnin efst í bunkanum,“ segir Kristín Þöll. „Ætli það séu ekki VÆB bræðurnir sem eru ástæðan fyrir því!“

„Frá því að úrslit Söngvakeppninnar voru kunn, hefur verið mikil sala á silfurlituðu efni,“ segir Kristín Þöll. „Betra efnið kláraðist ansi fljótt, en það er svolítið eftir af hinu, sem er kannski örlítið þynnra og erfiðara að vinna með. En það er alveg hægt að nota það og búningarnir eru að koma flott út hjá fólki. Það er alveg hægt að gera VÆB búning á frekar einfaldan hátt, það þarf ekki að vera sérfræðingur í saumaskap,“ segir Kristín Þöll.

„Við tökum reyndar eftir því, að það virðist vera svolítil vakning í fatasaumi í bænum,“ segir Kristín Þöll, aðspurð um það hvort mikið sé verslað hjá þeim til þess að sauma heima. „Það sem mér finnst skemmtilegt, er að ég er búin að taka eftir því síðustu ár að strákarnir eru að koma svolítið sterkir inn. Ungir strákar eru að hanna sér föt og koma að kaupa efni.“ 

 

Töluvert úrval í er glansefnum, en nokkrir metrar eru enn til af þessum silfraða, þegar þetta er ritað. Mynd: RH

Þyrftu að finna einhvern sem er skyggn fyrir næsta ár

„Öskudagurinn er reyndar alltaf stór hjá okkur,“ segir Andrea Brá. „Salan í efnum dettur svolítið niður á sumrin og gengur í bylgjum yfir árið. Svo er þetta stundum eins og núna – það kemur eitthvað sem er í tísku og fólk er mikið að kaupa sama efnið.“  Andrea og Kristín segjast reyndar ekki hafa verið búnar að sjá þetta fyrir, þær hefðu viljað vera komnar með betra úrval, og Kristín grínast með að hún hafi rætt það við samstarfskonu sína í Vogue fyrir sunnan, að þær þyrftu að útvega sér einhvern sem er skyggn fyrir næstu keppni, til þess að spá fyrir um tískuna fyrir næsta Öskudag. 

Að lokum segjast Andrea og Kristín mjög spenntar fyrir morgundeginum og hlakka til þess að sjá alla VÆB krakkana, og öll hin auðvitað líka, syngja í búðinni. Það má reyndar alveg búast við því að ansi mörg verði í silfurgallanum.