Fara í efni
Íþróttir

Sigurgöngu SA Víkinga lauk í Laugardalnum

SA Víkingar fagna fyrra marki sínu í leiknum í gær þegar Uni Steinn Blöndal Sigurðarson skoraði eftir að skot Jóhanns Más Leifssonar hafði hafnað í stönginni. Skjáskot úr streymi frá leiknum á YouTube-rás ÍHÍ.

Karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu þegar liðið mætti Íslandsmeisturum SR í Laugardalnum. Lokatölur urðu 6-2 Reykvíkingum í vil.

SA Víkingar höfðu unnið alla 11 leiki sína til þessa í Hertz-deildinni þar til þeir mættu liði SR í gær. SR-ingar skoruðu tvö mörk á fyrstu sex mínútum leiksins, en fyrra mark SA kom ekki fyrr en í upphafi annars leikhluta. SR-ingar svöruðu þá með tveimur mörkum, staðan orðin 4-1, og svo fimmta markinu í upphafi þriðja leikhlutans áður en SA tókst að skora sitt annað mark. Það dugði ekki til því síðasta markið var SR-inga og lokatölur 6-2.

Mörk SA: Uni Steinn Blöndal Sigurðarson og Birkir Einisson. Róbert Andri Steingrímsson varði 33 skot í marki SA. 

Því miður vantar upplýsingar inn í leikskýrslu leiksins þegar þetta er skrifað, en umfjöllun um leikinn má einnig finna á fréttavef um íshokkí, ishokki.is.

Streymi frá leiknum má finna á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands.