Sigríður Örvarsdóttir safnstjóri Listasafnsins
Sigríður Örvarsdóttir hefur verið ráðin safnstjóri Listasafnsins á Akureyri. Þetta var tilkynnt í dag á vef Akureyrarbæjar.
Sigríður tekur við starfinu af Hlyni Hallssyni sem lýkur í sumar öðru fimm ára ráðningartímabili. Hún er með MA gráðu í safnafræði frá Háskóla Íslands (2018), BA gráðu í textílhönnun frá Seminaret for Kunst og Haandværk í Danmörku (2001), ásamt meistaranámi í prjónahönnun frá Academie Royale des Beux-Arts (2014) og viðbótardiplómu í hagnýtri jafnréttisfræði frá Háskóla Íslands (2009). Auk þess er hún með kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla (2001).
Í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar segir jafnframt:
Sigríður hefur starfað sem safnstjóri og forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga frá árinu 2022 og veitir sem slík forstöðu Myndlistarsafni Þingeyinga en safneign þess telur um 1.900 verk. Í starfi sínu stýrir hún starfseminni og ber ábyrgð á öllum þáttum rekstrar, allri fjárhags- og verkefnaáætlanagerð, bókhaldi, mannauðsmálum, rekstri fasteigna og faglegu starfi sjö annarra safneigna og fjögurra sýningarstaða.
Sigríður starfaði sem verkefnastjóri sýninga hjá Akureyrarbæ sumarið 2021. Í því starfi sinnti hún sýningagerð, rannsóknarvinnu og kynningarmálum. Árin 2019 til 2020 var hún sjálfstætt starfandi ráðgjafi við gerð safnastefnu Akureyrarbæjar. Hún gegndi starfi safnafulltrúa Listasafnsins á Akureyri árið 2012 og árin 2010 og 2012 starfaði hún sem verkefnastjóri samsýninga og ritstjóri safnahandbóka fyrir söfn á Norður- og Norðausturlandi. Árin 2008 til 2012 starfaði hún sem safnkennari við Minjasafnið á Akureyri.
Sigríður hefur reynslu af kennslu í list- og hönnunargreinum á öllum skólastigum innan lands sem utan, m.a. hjá Listaháskóla Íslands og Marbella Design Academy á Spáni. Hún hefur tekið þátt í alheimsþingi ICOM, alþjóðaráðs safna og verið fulltrúi þess í Rannsóknarsetri í safnafræðum við Háskóla Íslands.
Alls bárust 14 umsóknir um starfið.