Sigga Dögg brókar- og bremsulaus á LYST
![](/static/news/lg/sigga-dogg-nota.jpg)
Það verður ýmislegt á döfinni á Akureyri á Valentínusardaginn. Til dæmis verður hægt að gifta sig á rómantísku færibandi í Glerárkirkju. Heimarómantíkin er líka alltaf vinsæl. Einn möguleikinn væri að mæta á Valentínusar skop með kynfræðingnum Siggu Dögg á LYST. Þar verður kastljósinu beint aðeins neðar heldur en í kirkjunni, reiknar blaðamaður með.
Hvort á að hlæja eða gráta?
„Ég ætla að dansa á mörkum hins fáránlega og hins alvarlega, segja sögur sem þú veist ekki hvort þú eigir að hlæja að eða gráta yfir, og auðvitað skjóta aðeins á sjálfa mig,“ segir Sigga Dögg, í samtali við blaðamann Akureyri.net. „Ég ætla að hræra saman húmor, hráum sannleika og smá töfrum. Það verður hlegið, hlegið enn meira og svo kannski líka velt fyrir sér lífinu.“
Ég ætla að tala um allt sem við tölum ekki um í kurteisum samræðum
Ein af áskorunum samtímans er að sjá á bak við glansmynd samfélagsmiðla og áhrifavalda. Sigga segist gefa lítið fyrir slíkt, enda er hún einstaklega opin og oft á tíðum hrá á sínum miðlum. „Ég ætla að tala um lífið eins og það er í raun og veru – ekki Instagram-síuðu útgáfuna,“ segir hún. „Ég ætla að tala um allt sem við tölum ekki um í kurteisum samræðum. Um hlutina sem við pælum í en segjum ekki upphátt. Ég er að tala um lífið, áföll, ástina, svekkelsi, vonina – og svo auðvitað mun ég stinga á nokkrum kýlum og gera grín að sjálfri mér. Ég mun því taka sjálfa mig fyrir í rækilegri naflaskoðun – allt í nafni góðrar skemmtunar. Ég hef líka tekið eftir því að við þurfum stundum leyfi til að hlæja, jafnvel þegar við höfum það erfitt – og ég ætla að veita það leyfi.“
Auglýsing fyrir viðburðinn 'Valentínusar SKOP með Siggu Dögg'. Mynd: Facebook
Síðasta uppistand Siggu, árið 2023, hét einfaldlega 'Sóðabrók' og byrjaði sem grín á milli hennar og eiginmannsins, þegar hún ákvað að taka upp brókarlausan lífsstíl. Hún gefur ekkert upp um það hvort að sá lífsstíll sé ennþá málið. „Sko, ég trúi á frelsi – í hugsun, í tjáningu og já, líka í fatavali! En þetta er líka ágætis dæmi um hvernig orð geta tekið á sig líf og farið á flakk. Fólk getur mætt og dæmt sjálft – eða bara notað ímyndunaraflið,“ segir Sigga. „Það má hver og einn trúa því sem hann vill, en eitt er víst – ég vil að fólk komi með opinn huga og skemmtanagildi í forgang. Hverju ég klæðist (eða klæðist ekki) er aukaatriði.“
Ég held að meðal Akureyringurinn sé þægilega staðsettur í kringum sex til sjö. Forvitinn, en með ákveðið velsæmi í farteskinu.
Það er fróðlegt að heyra hver upplifun Siggu Daggar sé af Akureyringum, þegar kemur að því að vera opin/n varðandi kynlíf og umræðu um kynlíf. Blaðamaður gaf kynfræðingnum skala upp á 1-10, þar sem einkunnargjöfin 1 táknar 'lok, lok og læs' en 10 táknar 'galopna bók'. „Ég hef grun um að Akureyringar séu klókir – þeir kunna að velja sér félagsskap og stemningu sem hentar þeim,“ segir Sigga Dögg. „Þeir sem eru einn á skalanum (lok, lok og læs), mæta kannski bara til að hlæja og velta því fyrir sér hvað í ósköpunum þeir séu að gera þarna. Þeir sem eru tíur (galopin bók) mæta kannski með glósur! Ég held að meðal Akureyringurinn sé þægilega staðsettur í kringum sex til sjö. Forvitinn, en með ákveðið velsæmi í farteskinu. En ef ég stend mig vel, gæti ég kannski laumað viðstöddum upp um eitt til tvö stig á skalanum!“
„Lífið er of stutt fyrir leiðinleg kvöld“
Viðburði Siggu á LYST mætti kannski lýsa í einu orði sem uppistandi, en er þó kannski ekki svo einfalt. Í lýsingunni á viðburðinum á Facebook er talað um sköpunarkraft og listfengi. Blaðamaður fer því að ímynda sér að kannski verði óskað eftir þáttöku gesta, en Sigga segir svo ekki endilega vera. „Ekki nema þau vilji það sjálf!“ segir hún. „Ég vil að fólk upplifi sig frjálst, slaki á og njóti sín. Enginn þarf að hafa áhyggjur af því að verða dreginn upp á svið eða tekinn fyrir – nema ég sjálf, því ég er eina fórnarlamb kvöldsins. En ef einhver vill deila hugmynd eða tengja við efnið, þá er það alltaf velkomið!“
Að lokum segir Sigga að í vændum sé kvöld þar sem þú getur sleppt þér, hlustað á sögur sem láta þig bæði hlæja og hugsa, og skilið streituna eftir heima. „Lífið er of stutt fyrir leiðinleg kvöld, svo flengdu þér á miða og sjáumst á Lyst á Valentínusardaginn!“