Fara í efni
Mannlíf

Síðasta svifflugið – 70 árum eftir það fyrsta

Arngrímur B. Jóhannsson nýlentur eftir síðasta svifflugið – á Melgerðismelum síðastliðinn laugardag, 5. október. Myndir: Ármann Hinrik

Arngrímur B. Jóhannsson flugstjóri dansaði Flugvalsinn við samnefnt tónverk Jóns Hlöðvers Áskelssonar á svifflugu sinni yfir Melgerðismelum í Eyjafirði á laugardaginn var. Það var söguleg stund; Arngrímur stýrði fyrst svifflugu 14 ára gamall árið 1954, fyrir 70 árum, og svifflugið á laugardag var hans síðasta.

„Ég er aðallega að hætta vegna þess að það er orðið svo erfitt að komast um borð í sviffluguna!“ sagði Arngrímur í léttum dúr við Akureyri.net eftir síðasta flugið.

Arngrímur í miðjum Flugvalsi yfir Melgerðismelum á laugardaginn.

Arngrímur, sem er 84 ára og fékkst við að kenna svifflug í sumar, segir áhuga á íþróttinni að glæðast á ný í bænum. Svifflugfélag Akureyrar hyggst nú kaupa svifflugu hans og kappinn lætur gott heita á þessu sviði flugsins.

Hófst með löngum hjóltúr

Flugævintýri Arngríms hófst í raun með löngum hjóltúr ári fyrr, 1953, eftir að hann komst að því fyrir tilviljun að akureyrskir svifflugsmenn hefðu aðstöðu á Melgerðismelum, þar sem breski herinn gerði flugvöll á stríðsárunum. Arngrímur kveðst hafa heillast af því sem hópurinn fékkst við frammi í firði og tveir 13 ára vinir, hann og Vilhjálmur Baldursson, síðar flugvirki, létu sig hafa það að hjóla eftir holóttum malarvegi neðan úr Norðurgötu á Akureyri inn að Melgerðismelum, 25 kílómetra leið, til þess að fylgjast með herlegheitunum.

Flugmenn skrá nákvæmar upplýsingar um hvert einasta flug; hér er sýnishorn úr „loggbók“ Arngríms. Hann var fyrst dreginn á loft í svifflugu af gerðinni Grunau 9 þann 16. maí 1954. Svifflugan fór reyndar ekki hátt í fyrstu skiptin snemma sumars því skráður tími er 10 til 15 sekúndur.

„Við vorum svo feimnir að fyrst settumst við bara niður úti í móa og fylgdumst með úr fjarlægð,“ segir Arngrímur en að því kom að hetjurnar á melunum urðu varar við drengina og buðu þeim að vera með.

„Við fengum meira að segja fara inn í braggann sem þeir kölluðu Skýjaborgir, og vorum þar með orðnir félagar í Svifflugfélaginu. Við urðum að vísu að fá leyfi hjá pabba og mömmu og það fékkst.“

Meðal svifflugskappanna voru, að sögn Arngríms, Guðlaugur Helgason, seinna yfirflugstjóri hjá Loftleiðum, Jón Ragnar Steindórsson, sem varð yfirflugstjóri hjá Flugleiðum, og Tryggvi Helgason, „sem ég flaug seinna fyrir hjá Norðurflugi og fleiri stórmenni. Allt rígfullorðnir menn, að okkur fannst en voru reyndar ekki nema um tvítugt.“

Strákarnir fengu fljótlega að setjast í sviffluguna, halda í stýrið og lögðu alls kyns fróðleik á minnið. Þeir fengu að fara í loftið sem farþegar og einn góðan veðurdag, sumarið 1954, kom að því að drengirnir skyldu fljúga einir. Það kom Arngrími í opna skjöldu þegar hann var ávarpaður:

– Þú byrjar!

„Ha?“

– Þú ert fyrstur í stafrófinu og byrjar!

„Mér fannst of mikil skömm að segjast ekki þora þannig að ég lét mig hafa það!“ segir Arngrímur nú þegar hann hugsar til baka.

Svifflugan var dregin af stað en lyftist ekki nema um það bil einn meter fyrstu skiptin og var 10 til 15 sekúndur á lofti. Hræðslan gleymdist fljótlega og áhugi Arngríms jókst í réttu hlutfalli við það að hún sveif smám saman lengur og fór hærra frá jörðu.

Teningunum var kastað. Hjóltúrinn sumarið árið var orðinn að flugmannsferli sem stendur enn, sjö áratugum síðar.