Fara í efni
Pistlar

Siðareglur skógartrjáa

TRÉ VIKUNNAR - V

Skógartré í sérhverjum skógi virðast hafa sammælst um ákveðnar, óskrifaðar siðareglur sem öllum trjám ber að fara eftir. Ef þær væru samdar af Torbjörn Egner væri fyrsta reglan þessi: „Öll trén í skóginum eiga að vera vinir“. Reglurnar ná yfir viðeigandi hegðun, vöxt, vaxtarhraða og umfang trjáa í þroskuðum skógarvistkerfum, sem og hvar hver tegund skal halda sig.

Alpafegurð Austurríkis. Þarna eru glæsilegir skógar. Ljósmynd: Sigurður Arnarson

Því verður samt ekki á móti mælt að alltaf eru til einstaklingar sem brjóta siðareglur. Sérstaklega óskráðar siðareglur. Gildir það jafnt um menn og tré. Stundum eru reglurnar brotnar vegna sjúkleika þeirra sem brjóta þær, í eiginhagsmunaskyni eða vegna þess að gott tækifæri býðst.

Siðareglur um vöxt

Í vel þroskuðum skógum gildir eftirfarandi regla: Tré skal hafa einn beinan stofn sem heldur uppi krónu. Krónan skal sjá um ljóstillífun án þess að draga um of úr möguleikum annarra trjáa til ljóstillífunar. Trjástofninn skal innihalda árhringi sem eru nokkuð reglulegir. Hann skal líka hafa æðar sem flytja vatn og uppleyst steinefni frá rótum upp í laufkrónuna og afurðir ljóstillífunar (sykrur) um allt tréð. Hvert tré í skóginum skal vera svipað á hæð og næstu tré. Rótin skal vaxa ofan í jörðina og halda trénu föstu ásamt því að afla vatns og næringarefna.

Mikilvægt er fyrir tré að muna að ræturnar eiga að vera neðanjarðar. Myndin sýnir sitkagreini við Reykjalund í Mosfellsbæ. Ljósmynd: Sigurður Arnarson

Ræturnar skulu vaxa í allar áttir og vera að mestu undir trénu sjálfu. Þegar tréð eldist ber því að losa sig við eldri greinar sem eru neðarlega á stofni, enda gagnast þær ekki trénu til ljóstillífunar. Trénu ber að láta börk vaxa yfir sárið sem þá myndast svo fljótt sem auðið er. Hinni dauðu grein ber að skila aftur til jarðarinnar í anda hins svokallaða hringrásarhagkerfis. Sama á við um lauf og barr sem ekki gagnast trénu lengur.

Tré sem fara eftir ofangreindum siðareglum um vöxt geta orðið mjög gömul og glæsileg. Það er þó óvíst að trén hafi sett sér þessar reglur til að passa inn í fegurðarmat okkar mannfólksins. Aftur á móti standast þau að jafnaði hvers kyns ásókn sjúkdóma og óveðra. Það er það sem skiptir skóginn máli.

Í hinum virta Konunglega Grasagarði Edinborgar er afgirt svæði þar sem almenningur fær að fylgjast með þróuninni þegar dautt kastaníutré fær að rotna og skila næringarefnunum aftur inn í hringrásina. Af jörðu er það komið, af jörðu skal það aftur verða. Um dauð tré í skógi hefur áður verið fjallað á þessum síðum. Sjá hér. Ljósmynd: Sigurður Arnarson

Brot á siðareglum

Brot á siðareglum skógartrjáa geta varðað allskyns sektum. Fara sektirnar eftir eðli brotanna hverju sinni og þeim náttúruöflum sem ráða ríkjum á hverjum stað og hverjum tíma. Það þýðir t.d. lítið að hóta trjám í Amazon skaða af völdum snjóbylja. Aftur á móti er það furðu algengt að refsingin kemur stundum mörgum árum eftir að brotin eru framin og sekt er sönnuð - eða ekki sönnuð. Hafa stjórnvöld margra ríkja tekið mið af skógum hvað þetta varðar. Verða nú nefnd nokkur dæmi um brot á siðareglum og refsingum við þeim.

Ef tré tekur upp á því að vaxa meira en önnur tré og verða umtalsvert hærra má búast við að önnur tré neiti að skýla því í vondum veðrum. Gildir þá einu hvert veðrið er. Þannig tré tekur miklu meiri vind á sig í roki og að auki hleðst meiri snjór á það ef þannig viðrar. Því eru miklu meiri líkur á að það brotni og skemmist en hin trén. Þar með er refsingunni ekki lokið. Stór sár, sem af skemmdunum stafa, eru lengi að lokast þannig að ýmsir rotsveppir eiga greiðari leið í viðinn. Því getur verið um langtímarefsingu að ræða.

Horft upp eftir stofni reynitrés sem einu sinni gleymdi að loka sári. Nú er reyniryð að ganga að því dauðu. Ljósmynd: Sigurður Arnarson

Fyrst við erum að tala um sveppasýkingar má nefna að stundum er að sjá sem sum tré gleymi að fara eftir reglunum um að græða sár, jafnvel þótt sárin séu ekki mjög stór. Refsingin getur verið slæm sveppasýking sem jafnvel fer þá að herja á tré sem hafa staðið vel við sinn hluta reglnanna um að loka sárum eins fljótt og auðið er. Þessi refsing getur því náð langt út fyrir hinn meinta sökudólg.

Mikilvægt er fyrir tré að loka sárum eins og þessum sem fyrst til að minnka líkurnar á sveppasýkingum. Ljósmynd: Sigurður Arnarson

Fyrir kemur að sum tré steingleyma að vaxa beint upp í loftið. Þess í stað fara þau að vaxa út og suður eða jafnvel norður og niður. Þetta brot á siðareglum má sjá í mörgum skógum á Íslandi, bæði náttúrulegum birkiskógum og plöntuðum skógum. Svo mikið ber á þessu í birkiskógum að halda má því fram að til að mæla stærð birkitrjáa geti verið eðlilegra að mæla lengd þeirra en hæð. Hvað sem því líður: Niðurstaðan á þessu refsiverða broti á siðareglum er sú að snjórinn fær skipun um að hlaðast á greinar og áttavillta stofna þannig að trjánum er hætt við snjóbroti. Sama á við um aðra skóga þegar einstök tré vaxa í ranga átt.

Önnur refsing bíður einnig þeirra trjáa sem ekki kunna að vaxa beint upp. Nefnist sú refsing aðdráttarafl. Sumir telja að hún sé Newton að kenna. Vaxi tré ekki beint upp, heldur til hliðar og svo upp, tekur Newton til sinna ráða. Þyngd krónu og greina er ekki jafnt dreift á stofninn þannig að hann getur, hvenær sem er, látið undan. Einkum ef aðrar refsingar taka þátt í leiknum, svo sem vindur, snjór og ís. Getur þá stofninn látið undan þegar síst skyldi. Stundum neitar þó stofninn að gefa eftir en óvíst er að það bjargi trénu frá yfirvofandi hættu. Svona misjafn þungi getur einnig leitt til þess að ræturnar gefa eftir og tréð fjúki um koll.

Stundum taka tré upp á því að neita að vaxa upp. Slík tré eiga ekki mikinn séns í skóglendi en við, mannfólkið, notum þau stundum í garðrækt. Furðulegt að við skulum vilja rækta svona vanskapnað! Í þessu tilfelli er það þöll, Tsuga canadensins ´Pendula´. Ljósmynd: Sigurður Arnarson

Þegar þær siðareglur sem gilda um vöxt árhringja eru brotnar tengist það vanalega brotum á öðrum reglum. Misjafn vöxtur árhringja getur verið af tvennum toga. Annars vegar vegna þess að veðurguðirnir eru misjafnlega örlátir á hentugt veður til trjávaxtar. Breiðir árhringir myndast frekar þegar veður er hagstætt, en minni árhringir ef vöxturinn er minni. Þetta ætti ekki að koma á óvart og engar refsingar liggja við því. Hins vegar geta árhringir verið mismunandi í laginu ef álag er af stofninum. Getur þetta álag stafað af of litlu skjóli eða því að tréð vex í bratta sem jafnvel er á hægri hreyfingu. Slíkar aðstæður geta aflagað árhringina og þar með vöxt trjánna.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga 

  • Vikulega birtist pistill um Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum. Smellið hér til að sjá allan pistilinn á vef félagsins.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00