Sex í sama rúmi á Dalvík
Í ár haldið upp á það að Leikfélag Dalvíkurbyggðar er áttatíu ára. „Að halda úti félagastarfi í 80 ár í litlu samfélagi eins og Dalvíkurbyggð er, finnst okkur vera ákveðið afrek,“ segir Jóhanna Sólveig, formaður. „Eins og gengur og gerist í svona félagsskap koma hæðir og lægðir, en ljóst að félagið nú er fullt eldmóðs og hlakkar til 80 ára afmælisársins. Í haust munum við fagna afmælinu sérstaklega með ljósmyndasýningu í Bergi.“
Verkið er alvöru farsi, þar sem þrír leynilegir ástarfundir og framhjáhöld eru í kortunum, sama kvöldið - í sömu íbúð.
„Þessa dagana standa yfir æfingar á verkinu „Sex í sama rúmi“ og er leikstjórn í höndum Sögu Geirdal Jónsdóttur,“ segir Jóhanna. „Í verkinu eru 9 leikarar, en alls koma tæplega 40 manns að verkinu með einum eða öðrum hætti.“ Verkið er alvöru farsi, þar sem þrír leynilegir ástarfundir og framhjáhöld eru í kortunum, sama kvöldið - í sömu íbúð. Óhætt er að áætla að allt fari í háaloft.
Verkið verður frumsýnt föstudagskvöldið 23. febrúar í Ungó. „Það er magnað að finna kraftinn í miðasölunni, en hún er framar vonum. Við finnum að fólk langar að koma í leikhús og hlæja, enda kannski gott fyrir sálina að fara í leikhús og týna stað og stund í því árferði sem er í samfélaginu núna.“
Miðapantanir eru inná heimasíðu félagsins ungodalvik.is. Auk þess er hægt að panta miða í síma 868-9706, en hópapantanir fyrir 10 manns eða fleiri þurfa að berast símleiðis.
Leikfélag Dalvíkurbyggðar bíður uppá þá nýbreytni í samstarfi við kaffihús Gísla, Eirík og Helga að hægt er að panta fiskisúpu, salat og brauð eða leikhúsplatta fyrir sýningu. Er það gert samhliða því þegar pantaðir eru miðar á leikverkið.