SES – Með hagsmuni barnanna að leiðarljósi
„Að skilja er lífskrísa fyrir bæði foreldra og börn og oft er sagt að ein algengustu áföll barna sé skilnaður.“
Halldóra K. Hauksdóttir lögmaður og Katrín Reimarsdóttir félagsráðgjafi komast þannig að orði í grein sem birtist á Akureyri.net í dag þar sem þær fjalla um úrræðið Samvinna eftir skilnað (SES), sérhæfða skilnaðarráðgjöf, sem velferðarsvið Akureyrarbæjar hefur í eitt ár boðið foreldrum barna á aldrinum 0 til 18 ára „til að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi foreldra sem standa í skilnaði eða hafa gengið í gegnum skilnað og vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.“
Úrræðið Samvinna eftir skilnað (samarbejde efter skilsmisse - SES) var upphaflega þróað í Danmörku og hafa rannsóknir sýnt marktækan mun á líðan þeirra sem taka þátt í verkefninu og þeirra sem ekki gerðu það, segja Halldóra og Katrín, sem eru SES ráðgjafar velferðarsviðs.
„Fólk ræður oft ekki við tilfinningar sínar og þarf því á aðstoð að halda. Því miður geta foreldrar oft átt erfitt með, ómeðvitað, að setja hagsmuni barna sinna framar sínum eigin og láta stjórnast af erfiðum og flóknum tilfinningum. Verkefnið Samvinna eftir skilnað er fyrir börnin okkar.“
Boðið er upp á úrræðið SES bæði stafrænt á netinu og á hópnámskeiðum sem þær Halldóra og Katrín sjá um.
Smellið hér til að lesa grein Halldóru og Katrínar