Seðlabankinn kaupir gamla mynt af listasmið

Hörður Óskarsson, listamaðurinn bak við Mynthringar og allskonar, hefur um árabil skapað einstakt skart úr íslenskri mynt sem hefur verið aflögð af Seðlabanka Íslands. Tvisvar á ári, í mars og október, leggur hann metnað sinn í að styrkja Krabbameinsfélagið, með því að láta nær helming af andvirði seldra muna renna til félagsins.
Sala á myntmottunum í tilefni af Mottumars hefur gengið ágætlega í ár að sögn Harðar en svo skemmtilega vildi til að sjálfur Seðlabanki Íslands keypti 30 slíkar mottur af Herði og má því segja að bankinn sé farinn að kaupa aftur mynt sem hann lagði sjálfur af! Hörður hafði frumkvæði að samskiptunum þegar hann sendi seðlabankastjóra eina myntmottu ásamt handskrifuðu bréfi. „Ég vildi bara prófa, og það kom jákvætt svar til baka frá ritara bankastjórans – þeir vildu kaupa þrjátíu mottur,“ segir Hörður.
Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem fyrirtæki kaupir mottur af Herði í einhverju magni. Í fyrra keypti t.d. fyrirtækið Frost hundrað mottur af honum til að gefa starfsfólki og viðskiptavinum sínum, en með þeirri sölu og annarri mottusölu náði Hörður að safna yfir hálfri milljón króna fyrir Krabbameinsfélagið.
Til minningar um bróður sinn
Hörður hefur verið með þetta framtak í gangi í um átta ár og segir heildarupphæðina sem safnast hefur með sölu á gripum hans á því tímabili nálgast þrjár milljónir króna. Um síðustu helgi tók Hörður þátt í sérstakri bleikri messu á Dalvík, þar sem hann seldi bæði slaufur og mottur til styrktar Krabbameinsfélaginu. „Það gekk bara ágætlega,“ segir hann ánægður með viðtökurnar, og nefnir að hann hafi einnig áður verið með sölubás í svipuðum viðburðum í Glerárkirkju. „Þetta allt er gert til minningar um Sigga, bróður, sem lést úr krabbameini. Það er drifkrafturinn í þessu,“ segir Hörður.
Myntmotturnar má kaupa:
- Í vefverslun Krabbameinsfélagsins
- Á skrifstofu KAON, Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis
- Beint frá Herði sjálfum í gegn um Facebook-síðu hans: Mynthringar og allskonar
Á meiri mynt en Seðlabankinn
Aðspurður hvort hann eigi enn nóg af mynt til að vinna úr þá segist hann ekki vita aura sinna tal. Fólk sé mjög duglegt að gefa honum gamla mynt. Stundum kemur hann heim og þá bíður hans dós eða krukka fyrir utan dyrnar sem hann veit ekkert hver hefur laumað að honum. „Ég á örugglega meiri mynt en Seðlabankinn,“ segir hann og brosir.