Fara í efni
Fréttir

Saltfiskskóngurinn hættur í útflutningi og opnar fiskbúð

Ektafiskur hefur flutt út saltfisk til Spánar í 30 ár. Elvar er þriðji ættliður saltfiskverkenda á Hauganesi og framleiðir saltfisk samkvæmt þeim ströngu hefðum sem afi hans kenndi honum. Myndin til vinstri er tekin af honum árið 1990 en sú til hægri árið 2009.

Ektafiskur á Hauganesi, sem flutt hefur út saltfisk til Spánar í 30 ár, hefur hætt öllum fiskútflutningi og einbeitir sér nú aðeins að heimamarkaði. Fiskbúð með kaffiaðstöðu verður opnuð í húsnæði fyrirtækisins um helgina og fleiri uppbyggingaráform eru á döfinni hjá eigendunum.

Að sögn Elvars Reykjalíns, framkvæmdastjóra Ektafisks, hefur saltfiskútflutningurinn til Spánar verið stór hluti af starfsemi Ektafisks og minnkaði því velta fyrirtækisins um helming eftir að útflutningi var hætt. Við erum örfyrirtæki í saltfiskverkun og það er bara ekki hægt fyrir svona lítið fyrirtæki, sem ekki á kvóta, að standa í útflutningi, segir Elvar og bætir við að það hafi verið orðið erfitt að keppa við stór fyrirtæki með mikla vélvæðingu og kvóta hvað saltfisksútflutning varðar enda byggja vinnsluaðferðir Ektafisks á handflökun og handverki.

Fiskur, kaffi og handverk. Gestir í fiskbúðinni á Hauganesi geta fylgst með starfsmönnunum í fiskvinnslunni á meðan þeir fá sér kaffi og grípa svo með sér fiskmeti í matinn. 


Elvar á góðri stund í Ektafiski en þangað koma reglulega hópar í kynningar. 

Útflutningur víkur fyrir ferðaþjónustu

Í staðinn fyrir útflutninginn ætlum við að leggja meiri áherslu á ferðaþjónustu sem er búin að vera mjög sterk hjá okkur. Við munum því bara selja fisk innanlands, bæði á netinu og í verslanir, eins og við höfum verið að gera, og í þessari nýju verslun á Hauganesi,“ segir Elvar og bætir við að verslunin muni reyna að stilla fiskverðinu í hóf eins og hægt er. Hann játar að viðskiptavinir á Spáni hafi ekki allir verið ánægðir með þessa ákvörðun en hann fær reglulega símhringingar að utan frá kúnnum sem vilja fá fiskinn sem þeir voru vanir að fá.

Simmi, afabarn Elvars sker niður hákarl fyrir gesti Ektafisks  en Ektafiskur hefur verið að fá ótal erlenda og innlenda hópa á ári í kynningar á fiskvinnslunni. Þá er þeim boðið upp á drykk og hákarl og í leiðinni er skemmtun og sprell.

Kaffisopi á meðan fylgst er með fiskvinnslunni

Elvar segir að síðustu árin hafi verið talsverð traffík í Ektafisk af fólki að kaupa fisk, þó þar hafi ekki verið rekin fiskbúð og hafi starfsfólk verið að hlaupa úr vinnslunni í afgreiðslustörf. Skrefið hafi hins vegar verið stigið til fulls núna og opnar fiskverslunin formlega á sunndaginn. Í versluninni verður bæði hægt að fá frystan og ferskan fisk, auk ýmiss konar sérvöru á borð við harðfisk og hákarl.  Þá stendur til að þar verði einnig kaffisala og sala á handverki.

Elvar, sem er rennismiður, hefur sjálfur verið að renna muni sem verða þar til sölu og þá er Halla, eiginkona hans öflug prjónakona. Þá verður hægt að panta portrett teikningar á staðnum hjá Ellý dóttur þeirra, en hún teiknar svarthvítar myndir eftir ljósmyndum af fólki og setur það inn í umhverfi Hauganess, sem Elvar segir að sé skemmtilegur minjagripur frá staðnum. „Veitingastaðurinn Baccalá bar opnar ekki fyrr en um hálf tólf og fyrir þann tíma er oft komin mikil traffík á Hauganes af ferðamönnum sem eru á leið í hvalaskoðun og annað og þeir geta þá droppað inn í fiskbúðina, fengið sér kaffisopa og horft á fólk vinna í fiskinum, skera niður saltfisk og svo framvegis,segir Elvar.

Hauganesteikning af Elvari teiknuð af Ellýju dóttur. Hægt er að panta álíka teikningar í nýju fiskbúðinni en Ellý hefur verið að teikna karakterteikningar ekki bara fyrir gesti Ektafisks, heldur fyrir fólk um allt land. Áhugasamir geta sett sig í samband við hana í gegn um tölvupóstinn ellyreykjalinart@gmail.com


Ektafiskur heldur sig við gamlar framleiðsluhefðir þegar saltfiskurinn er annars vegar. 

Ferðatímabilið að lengjast

Elvar, sem er að nálgast sjötugt, segist vera spenntur fyrir breytingunum en auk opnunar á fiskbúð er ýmislegt annað spennandi í pípunum á Hauganesi eins og uppbygging á sjóböðum, sumarhúsum og hóteli. Elvar og fjölskylda hans hafa komið nálægt ýmissi starfssemi í bænum og reka þar veitingastaðinn Baccalá bar, tjaldsvæðið á Hauganesi og heitu pottana í Sandvíkurfjöru. Ferðatímabilið er að lengjast mjög áberandi hjá okkur. Frá ágúst lokum hefur Baccalá verið opinn í hádeginu og fyrir hópa sem þýddi ekkert á árum áður. Við erum mikið að taka að okkur veislur þannig að verkefnin hafa aukist á alla vegu, segir Elvar. 

Eins og áður segir mun fiskbúð Ektafisks opna á sunnudaginn og hvetur Elvar Akureyringa og nærsveitunga til þess að fá sér sunnudagsbíltúr til hans milli kl. 14 og 17 en opnunartilboð verður í versluninni. Þá verður einnig hægt að fá sér kakó og rjómavöfflur á Baccalá Bar.