Sala Lýðheilsukorta framlengd um rúmt ár
Ákveðið hefur verið að selja Lýðheilsukort Akureyrar rúmu ári lengur en til stóð í fyrstu; kortið verður selt til 31. mars á næsta ári skv. ákvörðun bæjarráðs Akureyrar á dögunum „í ljósi þess að viðbrögð við sölu kortanna hafa verið afar jákvæð,“ segir á vef sveitarfélagsins.
Eins og Akureyri.net greindi frá í haust býðst barnafjölskyldum, öryrkjum og eldri borgurum á Akureyri að kaupa sérstakt lýðheilsukort sem veitir ótakmarkaðan aðgang að sundlaugum bæjarins, skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og í Skautahöllina.
Kortið gildir í eitt ár og fólk þarf að binda sig í þann tíma. Hægt er að dreifa kostnaðinum á 12 mánuði.
Upphaflega var ætlunin að selja kortið út þennan mánuð en á síðasta fundi bæjarráðs var eftirfarandi bókun samþykkt:
„Bæjarráð samþykkir að framlengja tilraunaverkefnið til og með 31. mars 2024. Nú þegar hafa verið seldir 402 pakkar af lýðheilsukortinu sem ná til tæplega 1.300 einstaklinga. Viðbrögð við verkefninu hafa verið jákvæð, en ótímabært er að mati bæjarráðs að meta raunverulegan árangur með tilliti til lýðheilsu á þeim fjórum mánuðum sem kortin hafa verið í sölu. Bæjarráð felur forstöðumanni íþróttamála að gera tillögu að lykilmælikvörðum við mat á árangri verkefnisins og leggja fyrir bæjarráð fyrir lok mars 2023. Þá er honum jafnframt falið að leggja fram tillögu að næstu skrefum að verkefninu loknu fyrir lok febrúar 2024.“
- Frétt Akureyri.net um kortið á sínum tíma: Lýðheilsukort – gildir í sund, á skíði og skauta
Smellið hér til að sjá allar upplýsingar um Lýðheilsukortið.