Saint Pete ásamt Úlfi Úlfi á Græna hattinum
Síðasta ár var afar gott hjá Akureyrska rapparanum Saint Pete. Að hans sögn verður árið 2025 að öllum líkindum enn stærra en hann stefnir á útgáfu á sinni annari plötu fyrir sumarið.
Eitt vinsælasta lag landsins
Saint Pete, sem fullu nafni heitir Pétur Már Guðmundsson, gaf út sína fyrstu plötu, Græni pakkinn, síðasta sumar og fór lagið Tala minn skít, sem unnið var í samstarfi við Herra Hnetusmjör, strax inn á topplista yfir mest spiluðu lög Íslands á Spotify. Lagið trónir enn á top50 yfir vinsælustu lögin á Íslandi. Þá var Græni pakkinn einnig kosin plata ársins og Tala minn skít kosið lag ársins á Instagrammsíðunni @isl_texti.
Ný plata fyrir sumarið
„Ég var þokkalega vongóður fyrir útgáfu Græna pakkans en móttökurnar fóru fram úr öllum mínum væntingum,“ segir Pétur sáttur en vonast til þess að þetta ár verði enn stærra fyrir hann tónlistarlega séð. Hann er nú á fullu að vinna að nýrri tónlist fyrir sína næstu plötu ásamt Þormóði Eiríkssyni, Hreini Orra Óðinssyni og fleirum. „Og líka nýju tónlistarfólki“, stingur Pétur inn. Um helgina mun hann koma fram á tónleikum Úlfs Úlfs á Græna hattinum og mun þá mögulega henda þar inn einhverju nýju efni í bland við eldra. Uppselt er á tónleikana á laugardag en enn eru einhverjir miðar lausir í kvöld, föstudagskvöld.